Viðburðir framundan
  • Barnamenningarhátíð í Þjóðminjasafninu

Barnamenningarhátíð: Tjáning um kynheilbrigði

  • 18.4.2023 - 23.4.2023, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Nemendur 8. bekkjar Hagaskóla sýna verk sem fjalla um kynheilbrigði, kynvitund og öll tabúin sem hafa fylgt þeim.

Á Barnamenningarhátíð sýnir Þjóðminjasafnið textílverk eftir nemendur í 8. bekk í Hagaskóla sem unnin voru í tengslum við LÁN, verkefni sem efnt var til í tilefni nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar og hefur leitt saman söfn, grunnskólanemendur og listafólk undanfarin tvö ár. LÁN stendur fyrir „listrænt ákall til náttúrunnar“.

Verkin á sýningunni eru innblásin af verkum listakonunnar Kristínar Gunnlaugsdóttur. Verk Kristínar fjalla oft um líf konunnar og kynvitund og tengjast því umræðum um jafnrétti kynjanna og mikilvægi heilbrigðar sjálfsvitundar, ekki síst hjá ungu fólki.

Nemendur unnu verk sínu undir handleiðslu Brynju Emilsdóttur og Hjörnýjar Snorradóttur kennara í VIKU 6 sem er hluti af kynheilbrigðisfræðslu grunnskólanna. 

Sýningin opnar 18. apríl. 

Barnamenningarhátíð 2023

Í ár verður sérstök áhersla lögð á viðburði í Grafarvogi og viðburði sem tengjast friði.

Leiðarljós hátíðarinnar eru gæði, margbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn.

Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum, menningarstofnunum, listaskólum og víðar. Barnamenningarhátíðin rúmar allar listgreinar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Frítt er inn á alla viðburði.

Frítt er á þessa sýningu eins og aðra viðburði á Barnamenningarhátíð.