Viðburðir framundan
  • 160 ára afmæli Þjóðminjasafnsins

Þjóðminjasafn Íslands er 160 ára. Frítt inn á safnið helgina 24.-26. febrúar, verið velkomin.

  • 24.2.2023 - 26.2.2023, 10:00 - 17:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Boðið verður upp á kökur, leiðsögn, lifandi tónlistarflutning og í Safnbúðinni verður 20% afsláttur af öllum bókum. Velkomin með alla fjölskylduna. 

Fjölbreyttir viðburðir verða á afmælisárinu og við hefjum leikinn nú um helgina.

Komdu í köku!

  • Föstudaginn 24. febrúar bjóðum við gestum upp á ljúffenga bollaköku allan dagin. Milli kl. 14:00 og 15:00 verður lifandi tónlist á safninu.
  • Á laugardag verður einnig lifandi tónlist milli kl. 14:00 og 15:00, upplagt að koma með fjölskylduna í heimsókn.
  • Á sunnudag verður Kirsten Simonsen með leiðsögn um sýninguna Á elleftu stundu kl. 14:00 (leiðsögnin verður á ensku). Að henni lokinni verður lifandi tónlist á fyrstu hæð hússins.

Fyrir börnin

Í Stofu á annarri hæð verður smiðja um bandrúnir þar sem börn geta hannað sína eigin bandrún úr rúnastöfum og útbúið stimpil til að taka með sér heim, allt efni í stimpilgerðina verður á staðnum. Safnabingó og rúnaratleikur verður á sínum stað. Það er skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að heimsækja Þjóðminjasafnið í vetrarfríinu, skoða sýningar, setjast á kaffihúsið og heimsækja Stofu. 

Allar bækur verða með 20% afslætti í Safnbúð og í netverslun

Í Safnbúðinni er að finna úrval glæsilegra bóka, svo sem þeirra sem Þjóðminjasafnið hefur gefið út. Frá föstudegi til sunnudags verður 20% afsláttur af öllum bókum. 
Hér má skoða bókaúrvalið

Það er skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna að heimsækja Þjóðminjsasafnið, skoða sýningar og setjast á kaffihúsið eða í Stofu á annarri hæð þar sem krakkarnir geta dundað sér og unnið fróðleg verkefni. 

Sýningar í gangi

 

Á elleftu stundu
Við vekjum sérstaka athygli á sýningunni Á elleftu stundu en henni lýkur sunnudaginn 26. febrúar. Á sýningunni er skyggnst inn í rannsóknir fræðafólks sem kom hingað til lands á áttunda áratugnum til að skrásetja uppistandandi torfhús, áður en það yrði um seinan. Á sunnudag mun Kirsten Simonsen vera með leiðsögn um sýninguna, en hún sat í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands. Leiðsögnin verður á ensku. Sýningin er í myndasal á 1. hæð. 
Sjá meira um sýninguna.

  


Heimsins hnoss - Lúinn kistill, silfurskeið og nærbuxur (með gati)

„Biblía, rotin. Stór kistugarmur, ónýtur. Saumaskrúfa. Sjö tunnuskrifli, öll fúin og mjög bandafá, sumar heilar, sumar hálfar og flestar botnlausar. Nærbuxur, með gati.“
Hvað áttu Íslendingar í sinni einkaeigu á 18. og 19. öld og hvers virði voru eigur þess? Á sýningunni er teflt saman uppskrifuð dánarbú sem varðveitt eru á Þjóðskjalasafni Íslands og gripum úr munasafni Þjóðminjasafnsins. Sýningin er í Bogasal, 2. hæð.
Sjá meira um sýninguna.

  

Valþjófstaðahurðin

Grunnsýning: Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár. 
Grunnsýningin er einskonar ferðalag í gegnum aldirnar og hefst í knerri landnámsfólks sem kemur siglandi yfir opið haf til nýrra heimkynna og lýkur svo í flughöfn nútímans – gátt Íslendinga að heiman og heim. Hægt er að hlusta á raddir fyrri alda í hljóðstöðvum og gagnvirkt margmiðlunarefni á snertiskjáum opnar leiðir að auknum skilningi og dýpri.
Sjá meira um sýninguna

 

 

Úr mýri í málm
Á sýningunni Úr mýri í málm er farið yfir rannsóknir á járngerð á Íslandi. Tilraunir á rauðablæstri sem fram fóru á Eiríksstöðum í Haukadal verða kynntar en þá var, í fyrsta skipti í margar aldir, járn brætt þar sem einungis var notaður íslenskur efniviður. Sýningin er í Horni, sýningarrými á 2. hæð. 
Sjá meira um sýninguna.
Drasl eða dýrgripir 
Á 3. hæð safnsins gefur að líta umbúðir úr einkasafni Andrésar Johnson, rakara og safnara í Ásbúð í Hafnarfirði. Safnið vekur upp minningar hjá þeim sem muna miðja síðustu öld. 

 
Við hlökkum til að sjá ykkur um helgina, opið frá kl. 10-17 alla dagana. 

Afmælinu verður fagnað með ýmsum hætti á árinu. Fylgist með á thjodminjasafn.is.

160_1_text