Hurðarhringur Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit
APRÍL 2021
Nú stendur yfir í Bogasal Þjóðminjasafnsins sýningin Hofstaðir í Mývatnssveit - saga úr jörðu. Á Hofstöðum er merkileg minjaheild allt frá víkingaöld og fram til tuttugustu aldar. Umfangsmiklar fornleifarannsóknir hafa farið fram þar og þess vegna vitum við mikið um staðinn. Hér er hægt að sjá meira um sýninguna.
Einn gripanna á sýningunni er hurðarhringur frá Reykjahlíðarkirkju í Mývatnssveit. Hann er 15 sm að þvermáli, gerður úr kopar og er eini gripurinn á sýningunni sem kemur ekki úr fornleifauppgreftri. En af hverju var hann hafður með á sýningu um Hofstaði? Það er nefnilega áhugaverð saga á bak við gripinn.
Árið 1807 var stofnuð nefnd í Danmörku sem átti að safna upplýsingum um fornminjar í danska ríkinu, þar með talið á Íslandi. Árið 1809 var send spurningaskrá varðandi fornminjar til allra presta á Íslandi en mjög fá svör bárust. Árið 1817 var Finnur Magnússon skipaður í nefndina. Hann þýddi spurningarskrárnar yfir á íslensku, sendi þær aftur og fékk þá til baka hátt í 200 skýrslur. Þær voru síðan gefnar formlega út 1983 af Árnastofnun og auðvelt er að nálgast þær fyrir áhugasama.
Í skýrslu Jóns Þorsteinssonar, prests í Mývatnsþingi, er minnst á hurðarhring sem þá var í Reykjahlíðarkirkju. Um hann ritar Jón árið 1817:
„Þad eru munnmæle, ad hringur þesse sie ur Hofshurd, sem i Forntid skal hafa staded hier i Sveit á bæ þejm sem á Hofstödum heíter.“
Hringurinn barst síðan Þjóðminjasafninu árið 1877 og hefur verið varðveittur í geymslum safnsins alla tíð síðan, en ekki var minnst á þessa munnmælasögu í aðfangabók þegar hann var skráður inn í safnið. Það er þó nokkuð öruggt að um sama hring er að ræða, enda er honum lýst á svipaðan hátt. Séra Jón telur þó líklegt að hausinn á honum sé selshaus en þegar Mattías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður, skráir hann inn er hann túlkaður sem höfuð af ljóni.
Erfitt er að meta hvort þessi munnmælasaga sé rétt, en hún er þó þess virði að skoða betur.
Dyrahringir eru vel þekktir frá víkingaöld og hafa nokkrir fundist í fornleifauppgröftum á Norðurlöndunum. Tveir slíkir hurðarhringir fundust við uppgröft á mögulegum hofum í Uppåkra og Jarrestad í Svíþjóð, á báðum stöðum var hringurinn lagður viljandi í stoðarholu hofsins. Í Rígsþulu í Eddukvæðum er minnst á hurðahring hjá hjónum þeim sem verða síðar foreldrar Jarls og hafa hringir slíkir verið túlkaðir sem stöðutákn.
Það var einnig algengt í Evrópu á miðöldum að dyrahringir með dýrahöfðum væru hafðir á kirkjuhurðum og áttu þeir að hræða burtu illa anda. Á mörgum stafkirknanna í Noregi má enn í dag sjá járnhurðarhringi og einhverjir þeirra eru með dýrahöfuð. Til gamans má minnast á að í miðju dyraumbúnaðar stafakirkju frá Ål sem byggð var um miðja 12. öld, er dýrahöfuð af mjög svipaðri gerð og það sem er á hurðarhringnum frá Reykjahlíðarkirkju. Kirkjan í Ål var rifin árið 1880 en það sem eftir er af henni er varðveitt á Kulturhistorisk museum í Oslo.
Á Hofstöðum var stór skáli sem túlkaður hefur verið sem veisluskáli, en mögulega einnig hof. Á seinasta áratug skálans, áður en hann var lagður af, var byggð lítil en líklega háreist kirkja á Hofstöðum. Það er hægt að ímynda sér að hurðarhringurinn hafi verið færður yfir á kirkjuna og hafi síðan endað á Reykjahlíðarkirkju þegar Hofstaðakirkja var aflögð.
Líklega munum við aldrei komast að hinu sanna en sagan er engu að síður skemmtileg.
Hrönn Konráðsdóttir
Heimildir:
Ekriksen, Marianne Hem. (2015). The powerful ring. Viking worlds: Things, Spaces and Movement. Oxbow Books. Oxford and Philadelphia.
Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. (1983). Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Rit Árnastofnunar. Reykjavík.
Hauglid, Roar. (1973). Norske stavkirker, Dekor og utstyr. Rikisantikvaren. Dreyers Forlag.
Lucas, Gavin. (2009). Hofstaðir: Excavations of a Viking Age Feasting Hall in North-Eastern Iceland. Fornleifastofnun Íslands. Monograph No.1. Reykjavík.
Ödman, Anders. (2003). Tankar kring två ringhandtag från Uppåkra. Í Fler fynd I centrum. Materialstudier I och kring Uppåkra. Ritstjóri Brirgitta Hårdh, Uppåkrastudier, Vol. 9. Almqvist og Wiksell, Stockholm.