Íslenskur burstabær með útihúsum
OKTÓBER 2015
Gripur októbermánaðar er málverk eftir Hans Liunge frá því um 1760. Hugsanlega er málverkið elsta mynd af burstabæ sem til er en hún var máluð í kjölfar rannsóknarferða Eggert Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Ísland um miðja 18. öld. Myndin er hluti af sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Gerðar um 120 myndir í kjölfar ferða Eggerts og Bjarna, aðallega vatnslitamyndir af náttúrufyrirbærum svo sem fuglum, fiskum, steinum og gróðri, en einnig eru fáeinar þjóðlífsmyndir í syrpunni. Mynd þessi á að sýna íslenskan sveitabæ. Í texta sínum vísa höfundar til lýsingar á meðalstórum bæ. Fáar myndir eru til af íslenskum byggingum frá fyrri öldum en töluvert er til af úttektarlýsingum á húsakynnum. Svo greinargott málverk er því afar mikilvæg heimild um ásýnd slíkra húsa. Hér gæti verið um elstu mynd af burstabæ að ræða en á miðöldum og fram eftir öldum lágu framhús öðruvísi.
Í miðju eru bæjardyr, sem var inngangsrými og inn af því lágu bæjargöng aftur í baðstofuna, sem var aftast, þvert á göngin. Auk þess að vera svefnstaður heimilisfólks gegndi baðstofan hlutverki vinnuherbergis, þar sem setið var við tóvinnu, saumaskap og þess háttar störf. Milli baðstofu og framhúsa er búr og hlóðaeldhús. Líklegt er að öðrum megin við bæjardyraburstina sé gestastofa og eru dyr beint inn í hana. Hinum megin gæti verið skáli, sem var að mestu notaður sem svefnhús vinnumanna á þessum tíma. Fram á hlaðinu er svo þurrkhjallur og líklegast einhver skemma til hliðar við húsin.
Ætla má að húsfreyja standi í dyrum í bláu pilsi með rauða svuntu og með krókfald á höfði. Á hlaðinu er ferðafólk, hundur og börn og fólk í heyskap litlu fjær. Í flæðarmálinu er naust og bátar á leið í róður. Aftan við bæinn eru útihús, líklegast fjárhús og fjós og sennilega tóftir fyrir hey, en hlöður voru fátíðar á þessum tíma. Fjær eru svo hverir en töluverð hlunnindi voru fólgin í slíkum aðgangi að heitu vatni. Þá má líta önnur sérkenni íslenskrar náttúru, jökla, fossa og gott ef ekki rennur rauðleitt hraun úr klettunum, þannig að öllu er til tjaldað.
Þjms EÓ-8
Þjóðminjasafn Íslands