Kistan frá Akureyjum
JANÚAR 2020
Á-249
Saga kistunnar
Kista sú sem hér er til umfjöllunar var síðast í eigu Herdísar Kristínar Jónsdóttur (1858-1952) og kemur úr búi hennar og Sturlaugs Tómassonar (1837-1920) í Akureyjum í Skarðsstrandarhreppi. Upplýsingar liggja ekki fyrir um hvenær kistan komst í þeirra eigu eða hvort að hún hafi fylgt öðru hvoru þeirra um lengri eða skemmri tíma. Hún var notuð til að geyma í molasykur (sykurtoppa), ómalað kaffi, rúsínur, sveskjur o.fl. Var þetta haft í litlum pokum sem raðað var vandlega í hana, en einnig var kornvara höfð í kistunni. Hún átti sinn fasta sess á loftskörinni í gamla torfbænum í Akureyjum, fyrir ofan baðstofuna. Fjórum árum eftir að Sturlaugur féll frá flutti Herdís Kristín úr Akureyjum til dóttur sinnar og tengdasonar að Hnúki á Fellsströnd. Fylgdi kistan góða með henni og gegndi þar svipuðu hlutverki og áður. Árið 1929 fluttu þau öll til Keflavíkur og nokkru síðar var kistan gefin þekktum safnara að nafni Andrés Johnsen, sem síðar ánafnaði Þjóðminjasafni Íslands hana ásamt öllu því sem hann hafði safnað (Ásbúðarsafn).i
Lýsing
Kistan er 106 cm á lengd, um 53 cm á breidd og 57 sm á hæð. Hún er smíðuð úr eik, örlítið niðurmjó, og með hvelfdu loki úr furu á járnhjörum. Ein fjöl er í öllum hliðum kistunnar, geirnegling á hornum, tvær fjalir í botni sem festar eru með trénöglum, en þrjár í loki. Á göflum eru höldur úr járni, þó ekki alveg eins, og á framhlið er skrá við miðja efri brún. Lauf úr járni með skrautlegu sniði er yfir skráargatinu, sýnilega yngri en hún sjálf. Inni í kistunni, efst til vinstri, er lítið hólf með loki eða handraði. Hún er skrautmáluð að utan nema á bakhlið og er grunnlitur ljósgrænn. Það gefur kistunni aukið gildi að lesa má langa notkun á henni. Hún hefur ekki verið gerð upp nema hvað tvær styrkingar úr járni eru á hverju horni hennar. Kistan er snjáð og slitin og er málningin mikið farin að láta á sjá. Skrautmálningu á henni er lýst þannig:
... stuðlar þrír, með sveigðum útlínum, rauðir og rauðbrúnir, liggja þversum yfir mitt lokið og framhlið miðja og yfir brúnir við gaflana allt í kring, rósahnippi, litir þar hvítt, dökkgrænt og rautt, eru í bilunum milli stuðla á loki, en á framhlið eru sitt hvorumegin miðstuðuls tveir rósasveigar og hér sömu litirnir og á blómunum á loki, í sveignum til vinstri hefur verið áletrun, hún nú horfin, hinum megin er gert ártalið 1829.ii
Hvaðan er kistan?
Kistan er án efa norsk, þótt ekki sé þess getið hvers lensk hún er. Það sést m.a. af samanburði við hliðstæðar kistur á íslenskum söfnum, sem eru allmargar, og við leit í norrænum gagnagrunnum.iii Smávegis virðist hafa borist af slíkum kistum til landsins undir lok 18. aldar en aðallega þó á 19. öld miðað við varðveittar kistur hér á landi.iv Við athugun á innflutningsskýrslum kemur í ljós að alls 311 fatakistur voru fluttar til Íslands frá Danmörku á tímabilinu 1864-1872.v Þær geta vel hafa verið norskar þar sem öll okkar utanríkisverslun á þeim tíma fór um Kaupmannahöfn. Ljóst er að um fjöldaframleiðslu hefur verið að ræða og geta sumar kistur hafa komið frá sama verkstæði.vi
Mikilvægasta húsgagnið
Kistur af ýmsum stærðum og gerðum hafa sennilega verið notaðar frá fyrstu tíð byggðar hér á landi. Sagt er frá þeim í fornritumvii og þar að auki eru þær sá gripur sem oftast er nefndur í eignaskrám miðalda.viii Kistur voru lengi einn mikilvægasti innanstokksmunurinn, en í þeim voru geymd föt, matvæli, sængurbúnaður, ýmsir dýrmætir gripir o.fl. Kisturnar voru yfirleitt í tveimur stærðum, heilkistur og hálfkistur, og segja heitin til um stærðina. Kistan frá Akureyjum var heilkista. Til að spara plássið var minni kistan höfð ofan í þeirri stærri við flutninga til Íslands.ix Heimildir eru um að fólk hafi enn verið að geyma fatnað í kistum í upphafi 20. aldar og jafnvel lengur.x Erlendis voru kistur vel þekktar hirslur löngu áður en fólk tók að setjst hér að.
Fólkið mitt
Sögur um kistuna hafa lengi gengið í fjölskyldu minni og að hún væri til sýnis á Þjóðminjasafninu. Ég leitaði hana uppi þegar ég kom á safnið í fyrsta skipti á unglingsárum og fann hana í hliðarsal meðal muna úr svo kölluðu Ásbúðarsafni. Löngu seinna þegar ég var farinn að vinna á Þjóðminjasafninu svipaðist ég um eftir henni en hún var þá komin í geymslu. Kistan var ómerkt og fékk ég leyfi til að merkja hana samkvæmt leiðbeiningum reyndari starfsmanna. Jafnframt aflaði ég frekari upplýsinga um hana í stórfjölskyldunni.
Herdís Kristín og Sturlaugur voru langamma mín og langafi. Hún var fædd að Skarfsstöðum í Dalasýslu. Hún var af fátæku fólki komin og lenti í því á barnsaldri að vera boðin upp sem sveitarómagi. Hún var seinni kona Sturlaugs og áttu þau saman 14 börn. Fyrri kona hans, Júlíana Jóhanna Helgadóttir (1842-1881), var hálfsystir Herdísar og varð henni og Sturlaugi 8 barna auðið.
Sturlaugur var fæddur á Neðra-Vaðli í Barðastrandarsýslu og ólst hann upp hjá foreldrum sínum, en seinna bláfátækri móður sinni um tíma eftir að faðir hans dó. Sturlaugur flutti sig ungur yfir Breiðafjörðinn og var fyrst hjá séra Friðrik Eggerz í Akureyjum en seinna hjá Jóni stúdent bróður hans í Ytri-Fagradal.xi Til er vegabréf Sturlaugs, dagsett 27. júni 1861 þegar hann fluttist frá Svínanesi í Barðastrandarsýslu í Akureyjar.xii 1867 voru Júlíana Jóhanna og Sturlaugur skráð sem hjón í vinnumennsku í Ytri-Fagradal. Tveimur árum síðar var Sturlaugur orðinn ráðsmaður, og áttu þau hjón þá tvö börn,xiii en árið 1870 eru þau í fyrsta skipti skráð sem húsráðendur þar á staðnum.xiv
Júlíana Jóhanna og Sturlaugur bjuggu í fyrstu á hálfri jörðinni á móti Jóni og Kristínu Skúladóttur, konu hans, og síðar á henni allri og voru gömlu hjónin í húsmennsku hjá Sturlaugi upp frá því til dauðadags. Þau arfleiddu Sturlaug að 21 hundraði í Ytri-Fagradal eftir sinn dag og sennilega einnig að Lágubúð í Bjarneyjum, en heimildir eru fyrir að leiga af henni var greidd til Sturlaugs.xv Jón og Kristín áttu engin börn á lífi en höfðu alltaf reynst Sturlaugi sem góðir foreldrar. Júlíana Jóhanna lést 1881 og tveimur árum síðar giftist Sturlaugur Herdísi Kristínu. Þau bjuggu í Ytri-Fagradal til 1898 en fluttu þá í Akureyjar.
Sturlaugur réri undan Jökli á sínum yngri árum en frá Bjarneyjum haust og vor meðan hann bjó í Fagradal. Hann bætti jörðina að húsum og heyafla og sléttaði túnið mjög verulega. Auk þess gegndi hann ýmsum opinberum störfum í þágu sveitarinnar í mörg ár. Hann var blindur síðustu æviárin en fylgdist samt með búi sínu og var sístarfandi meðan kraftar entust. Hann lést 1920 og er jarðsettur að Skarði á Skarðsströnd.
Herdís Kristín lést 94 ára gömul í Keflavík, 9. desember 1952, og er jarðsett þar.xvi
Ágúst Ólafur Georgsson
i) Þjms., Á-249, https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=310235.
ii) Þjms., Á-249, https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=310235.
iii) https://www.sarpur.is/Leit.aspx?search=kista&filter=1023&museumID=0&typeID=15&page=0&skraID=-1&pageSize=192. https://digitaltmuseum.no/.
iv) https://www.sarpur.is/Leit.aspx?search=kista&filter=895&typeID=15.
v) Skýrslur um landshagi á Íslandi, 4. bindi (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag 1870), bls. 87, 333, 617, 855. Skýrslur um landshagi á Íslandi, 5. bindi (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag 1875), bls. 131, 386, 728.
vi) Þannig eru kistan frá Akureyjum og kista í eigu Byggðasafnsins í Skógum (R-1825) nánast alveg eins. https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=246084.
vii) Arnheiður Sigurðardóttir, Híbýlahættir á miðöldum (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins 1966), bls. 127-134.
viii) Halldóra Arnardóttir, „Innanstokksmunir, samspil húsbúnaðar og híbýla“. Hlutavelta tímans, menningararfur á Þjóðminjasafni. Ritstjórar Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2004), bls. 122.
ix) Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður, tölvupóstur til höfundar 5. desember 2012.
x) Guðmundur Hannesson, „Steingrímur Matthíasson: Heilsufræði. Alþýðubók og skólabók. Akureyri 1914.“ [ritdómur]. Skírnir 89. árg. 1915, bls. 198.
xi) Vinur, “Dánarminning”, Tíminn 28. ágúst 1920, bls. 135.
xii) ÞÍ, Ministerialbók Skarðsþinga.
xiii) ÞÍ, Prestþjónustubækur Skarðsþinga.
xiv) ÞÍ, Manntal 1870. http://www.manntal.is/leit/ytri-fagridalur/1860,1870/1/1870.
xv) ÞÍ, Hreppsbækur Flateyjarhrepps.
xvi) https://gardur.is/leit_einfalt_c.php.