Skildahúfa
MARS 2020
Þjms. 10934
Árið 1784 barst „gripasafni konungs“ í Kaupmannahöfn sá gripur sem hér er að þessu sinni valinn sem hlutur mánaðarins. Hann var síðan skráður í Þjóðminjasafn Dana árið 1848. Þetta er svonefnd skildahúfa sem dregur nafn sitt af sjö gylltum silfurskjöldum sem prýða hana. Matthías Þórðarson fyrrverandi þjóðminjavörður lýsir henni af nákvæmni í aðfangabók Þjóðminjasafns Íslands árið 1930:
Hún er úr rauðu flosi með silfurskjöldum með kornsettu hringavíravirki í endurlifunarstíl, hinn
stærsti ofan á kolli en sjö minni umhverfis á brún, munu allir erlend smíð. [...Hún er] kringlótt, 24
cm. að þverm. um kollinn, sem er flatur og með víravirkiskringlu á miðju, 10 cm. að þverm., og
eru fest á hana mörg lauf. Víravirkið er kornsett hringvíravirki, fremur grófgert; kringlan er úr
silfri, algylt. Umhverfis á kollinum eru silfurvírsknipplingar, 5 cm. að breidd. Húfan er aðeins um
11,5 cm. að þverm. um opið og er um 8 cm. breiður skáflötur á milli þess og kollsins. Á þennan
skáflöt eru saumaðir 7 silfurskildir eða kringlur, gyltar, laufskornar í röndina, 1 stærst, 10,7 cm.
að þverm., með upphleyptri krossfestingarmynd í miðju, 6,3 cm. að þverm., og bekk með
kornsettu hringavíravirki umhverfis, og eru á bekknum 4 hálfkúlur með hangandi krossum í og
eru í krossunum rauðir og bláir steinar. Hinir skildirnir 6 eru minni, allir eins; á miðju er
krossfestingarmynd, Kristur, María og Jóhannes, og víravirkisbekkur umhverfis, með 4 blöðum í;
þverm. 7,3 cm.1
Á samskeytum kollsins við skáflötinn er saumaður 2 cm breiður vírofinn borði og kringum opið á húfunni er brydding úr hör og silki. Húfan er fóðruð með grófgerðu lérefti með rósamunstri og millifóður er úr einhverskonar ullarefni eða flóka og því er húfan talsvert þung.
Vitað er um leifar af annarri skildahúfu frá Íslandi í Þjóðminjasafni Dana en sú skildahúfa sem hér er sýnd mun vera sú eina sinnar tegundar sem varðveist hefur í sinni upprunalegu mynd.2 Hún kom til Þjóðminjasafns Íslands með úrvali íslenskra gripa sem Þjóðminjasafn Dana skilaði Íslendingum í júní 1930. Í grein sinni Enn um skildahúfu leiðir Elsa E. Guðjónsson, textílfræðingur, að því líkum að húfan hafi komið frá heimili Ólafs Stephensens amtmanns í Sviðsholti.3 Hún hefur að öllum líkindum tilheyrt brúðarbúningi en skildahúfur munu ætíð hafa verið eign vel efnaðra kvenna á 16., 17. og fram á 18. öld.4
Ætla má að nokkuð erfitt hafi verið að bera þennan höfuðbúnað þar sem húfan var höfð ofan á faldinum á faldbúningnum og auk þess nokkuð þung vegna skrautsins og efnismikillar fóðringar húfunnar.
Skildahúfur eiga sér víða evrópskar fyrirmyndir í höfuðbúnaði kvenna – og karla – á 15. og 16. öld5 og jafnvel í höfuðbúnaði mið-asískra þjóðbúninga.6
Gróa Finnsdóttir
1) Sarpur: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=319980
2) Elsa E. Guðjónsson (1970). Skildahúfa. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1969, bls. 61.
3) Elsa E. Guðjónsson (1971). Enn um skildahúfu. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 79-85.
4) Guðrún Harðardóttir (2004). Brúðarhús í Laufási. Í Hallgerður Gísladóttir (ritstj.) Í eina sæng, bls. 59-65. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
5) Amphlett, Hilda (2003). Hats . A history of fashion in headwear. New York: Dover publications.
6) Westphal-Hellbusch, Sigrid og Soltkahn, Gisela ( 1976). Mützen aus Zentralasien und Persien. Berlin: Museum für Völkerkunde, bls. 298-299.