Skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar
APRÍL 2017
Þjms. 2010-73
Gripur aprílmánaðar er skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar (1791-1852), rektors Lærða skólans á Bessastöðum og þýðanda Hómerskviða. Eftir hans daga eignaðist sonur hans, skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, púltið. Að Benedikt látnum var það í varðveislu Einars Benediktssonar, skálds. Þjóðminjasafni Íslands og Embætti forseta Íslands var síðan afhent púltið á fullveldisdaginn 1. desember 2010. Það var Ragnar Önundarson sem afhenti púltið til eignar og skráningar í Þjóðminjasafni Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Hann gaf púltið til minningar um afa sinn, Ragnar Ásgeirsson, bróður Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Skrifpúltinu hefur verið fundinn viðeigandi staður til framtíðarvarðveislu á Bessastöðum og fer sannarlega vel á því að hýsa skrifpúltið þar. Varðveislugildi skrifpúltsins er ótvírætt enda er það einstakt vegna aldurs, gerðar og merkrar sögu þess. Við afhendingu þess var skrifpúltið skráð inn í safnkost Þjóðminjasafns Íslands, sem mun standa vörð um varðveislu þess til framtíðar með viðeigandi forvörslu. Gunnar Bjarnason völundarsmiður gerði púltið upp að frumkvæði gefenda og í samráði við sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Ástand þess er því til fyrirmyndar og er sannarlega prýði af því á Bessastöðum, þar sem Sveinbjörn starfaði á sínum tíma.
Ekkert sambærilegt skrifpúlt er varðveitt í safninu. Það er af þeirri gerð sem tíðkaðist á fyrri hluta 19. aldar, einfalt í gerð sinni með hirslum í sjálfu borðinu og stendur á fjórum háum fótum. Við það hefur verið staðið við skriftir og lestur. Þau skrifpúlt sem varðveist hafa í Þjóðminjasafninu eru mismunandi, allt frá því að vera mjög stór húsgögn með tveimur skápum sem standa samsíða með bili á milli eða minni færanleg púlt, svonefnd ferðaskrifpúlt, sem opnast með hjörum upp á gátt. Einkenni skrifpúlta er að þau voru jafnan með hallandi borði, svonefndu halloki á hjörum. Borðið sjálft, hallokið, var jafnframt lok á hirslunni, þar sem hægt var að geyma bækur, pappír og skriffæri. Á stærri púltunum sem varðveist hafa eru oft skápar ofan á skrifpúltinu til beggja handa og geta slík púlt verið allt að tveir metrar á hæð. Nokkur slík skrifpúlt frá nítjándu öld eru varðveitt í safninu, sem eiga það flest sammerkt að hafa verið í eigu efnafólks. Meðal þeirra er skrifpúlt frá 18. öld úr Viðey. Allnokkur ferðaskrifpúlt eru einnig varðveitt í safninu meðal annars frá Jóni Sigurðssyni forseta, sem er meðal fjölmargra merkra muna úr fórum hans í Þjóðminjasafninu.
Við skrifpúltið sem nú hefur verið skráð á þjóðminjaskrá hefur Sveinbjörn Egilsson unnið að mörgum þeirra afburðarverka sem eftir hann liggja. Við afhendingu skrifpúltsins á Bessastöðum var haft á orði að skrifpúltið hafi verið mótsstaður forn-grískrar hámenningar og íslenskrar gullaldarmenningar og er það vart ofsögum sagt. Á meðan Sveinbjörn Egilsson gegndi kennara- og rektorsembætti vann hann mikið að þýðingum. Má þar nefna skólaþýðingu á Menón eftir Platón. Fyrir Fornfræðafélagið, sem hann var stofnfélagi að, þýddi hann Íslendingasögurnar á latínu. Hann þýddi einnig Snorra-Eddu á latínu og tók saman orðabók yfir íslenskt skáldamál sem varð mikilvægt uppsláttarrit á því sviði. Með þýðingum sínum á latínu hefur hann án efa opnað erlendum fræðimönnum aðgang að menningararfi Íslendinga. En fleira hefur Sveinbjörn fengist við er hann stóð við skrifpúltið. Vitað er að hann frumsamdi sálminn Heims um ból og áhugavert er til þess að hugsa að þar hafi hann skrifað og þýtt ýmsar perlur á borð við Fljúga hvítu fiðrildin og vögguvísuna Nú legg ég augun aftur. Margt fleira mætti nefna til marks um þá sögu sem gæðir púltið óáþreifanlegu gildi, sem án efa mun verða mörgum innblástur.
Þegar Sveinbjörn lést var hann enn að vinna að þýðingu Ilíonskviðu í bundnu máli, sem sonur hans, Benedikt Gröndal, lauk við. Benedikt var einnig mikilvirkur fræðimaður og fyrsti Íslendingurinn sem lauk meistaraprófi í norrænum fræðum og stundaði auk þess nám og rannsóknir á sviði náttúrufræða og málvísinda. Hann var ljóðskáld í rómantískum anda og samdi leikrit og sögur. Þá liggur eftir hann einstakt safn teikninga af villtum dýrum Íslands, fiskum, fuglum og spendýrum, sem kom út árið 1976 en Benedikt var afburðarteiknari. Benedikt og Einar Benediktsson unnu báðir að ýmsum hinna þjóðþekktu verka sinna við skrifpúltið góða. Haft er eftir Ragnari Ásgeirssyni að Einar hafi ,,haldið púltinu til haga af því að hann vissi hvað hafði verið skrifað á því,“ en Ragnar var málkunnugur Einari.
Gestir Bessastaða geta nú virt fyrir sér hinn merka grip og íhugað sögu hans og menningararfleifð. Án efa mun skrifpúltiðverða fræðimönnum, rithöfundum og skáldum innblástur. Hver veit nema húsgagnahönnuðir og völundarsmiðir samtímans fái einnig nýjar hugmyndir og skáldi í tré í anda skrifpúlts Sveinbjarnar Egilssonar.
Margrét Hallgrímsdóttir
Sjá einnig:
Sarpur.is