Útsaumað laufabrauð og jólasveinar
DESEMBER 2018
2006-5-9
Gripur desembermánaðar er ein af 32 útsaumsmyndum1 eftir Elsu E. Guðjónsson, textílfræðing og fyrrum deildarstjóra við Þjóðminjasafn Íslands. Myndirnar eru hver um sig 10 x 10 cm að stærð og tengjast flestar íslensku jólasveinunum og athöfnum þeirra. Þær eru hannaðar af Elsu sem saumaði þær með gamla íslenska krosssaumnum og orti einnig vísur sem fylgja og einkenna hverja mynd fyrir sig. Á jólaföstu 2005 voru þær allar til sýnis í Þjóðminjasafninu en höfðu áður verið sýndar á Árbæjarsafni og í Minjasafninu á Akureyri2. Fyrst birtust þær þó í lítilli bók sem kom út árið 1998 undir nafninu Jólasveinarnir þrettán: jólasveinavísur, með ljóðum á íslensku, dönsku og ensku.
Á meðfylgjandi mynd sem hér er tekin sem dæmi hefur Elsa stillt sex jólasveinum upp við útsaumað laufabrauð sem skorið er út á hefðbundinn hátt. Líkt og hinir þrettán íslensku jólasveinar eru jafnan taldir séríslenskt fyrirbæri, þá má segja að laufabrauðsgerð Íslendinga sé það einnig. Elsa rannsakaði uppruna laufabrauðs í heimildum og komst að því að elstu heimildir þar að lútandi séu frá 18. öld er Bjarni Pálsson, landlæknir, bauð Sir Joseph Banks til veislu á heimili sínu að Nesi á við Seltjörn árið 1772.3 Þar var laufabrauð borið fram ásamt öðrum íslenskum mat en ekki er þar þó getið um útskurð þess. Elsa segir hins vegar frá enn eldri heimild um laufabrauð, líklega frá því um 1736, ættaðri frá Jóni Ólafssyni frá Grunnavík. Þar er talað um að það sé „þunnt og útskorið með margvíslega löguðum myndum…“4 Allar götur síðan hefur laufabrauð komið fyrir í flestum íslenskum matreiðslubókum, meðal annars í fyrstu matreiðslubókinni sem gefin var út á Íslandi árið 1800 í Leirárgörðum. Hún ber heitið Einfaldt Matreidslu Vasa=Qver, fyrir heldri manna Húss=freyjur og er Marta María Stephensen skráður útgefandi að henni. Magnús Stephensen, dómstjóri og konferensráð, mágur Mörtu, er sagður höfundur bókarinnar þótt Hallgerður Gísladóttir, þjóðháttafræðingur, dragi það í efa í bók sinni Íslensk matarhefð5.
Það er athyglisvert að skoða þessar gömlu heimildir um tilurð laufabrauðsins sem flestum ber saman um að hafi verið algengast á Norðurlandi langt fram á tuttugustu öldina. Á Norður- og Norðausturlandi var það altént hátíðabrauð almennings við lok 19. aldar og sérstakur dagur jólaföstu tekinn frá í laufabrauðsskurðinn þar sem hver kepptist við að hafa hann sem skrautlegastan.6
Í dag er laufabrauð talið ómissandi með hangikjötinu um allt land um jólin. Útskurðurinn verður að sama skapi sífellt fjölbreyttari og skrautlegri, einnig með tilkomu sérstakra laufabrauðsskurðjárna sem margir notast við í dag í stað vasahnífsins áður fyrr. Á þessari litlu mynd sem hér birtist hefur Elsa dregið saman á skemmtilegan hátt tvær helstu íslensku jólahefðirnar, jólasveinana og laufabrauðið.
Lesendum er eindregið bent á að lesa meira um laufabrauðsgerð Íslendinga í neðanskráðum heimildum.
Samantekt: Gróa Finnsdóttir
Heimildir:
Elsa E. Guðjónsson. (1987). Um laufabrauð. Er Orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík elsta heimild um laufabrauð? Árbók Hinz íslenska fornleifafélags 1986, bls. 103-115.
Elsa E. Guðjónsosn. (1998). Jólasveinarnir þrettán : jólasveinavísur = De tretten julesvende : en juleremse = The thirteen Icelandic Christmas lads : a Christmas rhyme. Kópavogur: höf.
Hallgerður Gísladóttir. (1999). Íslensk matarhefð. Reykjavík: Mál og menning: Þjóðminjasafn Íslands.
Sarpur.is
1) Sarpur.is (nr. 2006-5)
2) Sarpur.is (nr. 2006-5-9)
3) Elsa E. Guðjónsson 1987, bls. 104.
4) Elsa E. Guðjónsson 1987, bls. 104.
5) Hallgerður Gísladóttir 1999, bls. 38-40.
6) Hallgerður Gísladóttir 1999, bls. 222.