Grunnskólar

Miðstig: Með verkum handanna - ritun og refilsaumur

Fjallað er um handverk miðalda, á tímum Snorra Sturlusonar og Ingunnar lærðu. Heimsóknin hentar helst nemendum á miðstigi sem eru farin að lesa um miðaldir, einkum nemendum í 6. bekk.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Hvernig tjáði listafólk sig á miðöldum á Íslandi? Hvers konar listaverk hafa varðveist til okkar daga? Úr hverju eru þau, með hvaða aðferðum voru þau gerð og hvaða sögu segja þau?

Í leiðsögninni er lögð áhersla á ritun og myndlýsingar handrita og myndsköpun með refilsaumi á klæði eins og sjá má á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins og 160 ára afmælissýningu safnsins Með verkum handanna sem vakið hefur mikla athygli.

Anna-med-hop

Heimsóknin miðar að fræðslu sem tengist upphafi sagnaritunar, þróun bókagerðar og hinnar fornu listar að segja sögur með útsaumuðum myndum. Einnig gefst tækifæri til að teikna upp eigið myndefni fyrir saumaða eða málaða mynd, sem hægt er að útfæra og ljúka við í skólanum.

Að heimsókn lokinni hafa nemendur kynnst þjóðfélagsgerð tímabilsins og þróun þess. Þau geta staðsett Snorra Sturluson í sögunni sem höfðingja og sagnaritara. Þau hafa heyrt af Ingunni lærðu sem var fyrsta íslenska konan sem vitað er að var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns við pilta. Nemendur gera sér grein fyrir hlutverki klaustra í menntun og menningu í landinu og hafa upplifað Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja.

 

Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni

Handritin
Á vefsíðunni Handritin heima er fjallað „um íslensk miðaldahandrit og þann vitnisburð sem þau hafa að geyma um fornt handverk, fræðastarf og sagnaarf, myndlistarsögu, menningarástand og hugðarefni fólks frá fyrri öldum.“

Refilsaumur
Safnfræðsla Þjóðminjasafnsins hefur tekið saman fræðslu um refilsaum í tilefni sýningarinnar Með verkum handanna sem má nálgast hér á síðunni

Í Bogasal Þjóðminjasafnsins eru nú dýrgripir íslenskrar listasögu á tímamótasýningu sem haldin er í tilefni af 160 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, Með verkum handanna. Á sýningunni eru öll íslensku refilsaumsklæðin, einnig þau sem eru í eigu erlendra safna. 

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni þar sem segir að nemandi geti:

- gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa,

- aflað sér, metið og hagnýtt upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni í margvíslegum gögnum og miðlum,

- rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,

- lýst einkennum og þróun íslensks þjóðfélags og tekið dæmi um mikilvæga áhrifaþætti,

- greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,

- tjáð þekkingu sína og viðhorf með fjölbreyttum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra,

- sýnt samferðafólki sínu tillitssemi og umhyggju. (Bls. 198 – 203).

 

 

 

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt sem og safnareglur.

Safnkennari leiðir nemendur um fremri hluta grunnsýningar safnsins og um Bogasal og dregur fram ýmis sjónarhorn á umfjöllunarefnið. Að því búnu gefst tækifæri til að teikna upp eigið myndefni fyrir saumaða eða málaða mynd, sem hægt er að útfæra og ljúka við í skólanum.

Heimsóknin tekur um 60 mínútur. Dagskráin er einkum ætluð börnum í 6. bekk en hana má aðlaga fyrir aðra bekki miðstigs. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.

 Smellið hér til að bóka heimsókn