Jólasiðir

Jólakort

Mörgum þykir það ómissandi liður í jólaundirbúningnum að senda vinum og vandamönnum sínum nær og fær jólakveður. Algengt er að send séu jólakort en þó hefur það færst í aukana með nútímatækni að sendar séu rafrænar jólakveðjur, tölvupóstar og smáskilaboð sérstaklega í tilefni jólanna.

Frá árinu 1932 hefur Ríkisútvarpið sent út jóla- og nýárskveðjur sem upprunalega voru aðallega ætlaðar þeim sem fjarri voru heimahögum sínum, hvort sem það voru sjómenn á hafi úti eða fólk sem af einhverjum ástæðum gat ekki verið með fjölskyldum sínum um jólin. Eftir því sem árin liðu fór jólakveðjum Ríkisútvarpsins sífjölgandi og hefur það ekkert breyst í nútímanum. Það má helst sjá af því að á Þorláksmessu er ekkert annað á dagskrá Rásar 1 en jólakveðjur og fréttir og má af því draga þá ályktun að jólakveðjur Ríkisútvarpsins séu í hugum margra ómissandi þáttur í jólahaldinu.

Jolakort

Elstu jólakveðju sem til er á Íslandi má finna í bréfi frá árinu 1667, sem Brynjólfur Sveinsson biskup ritaði, en þar segir: „Með ósk gleðilegra jóla, farsællegs nýja árs, og allra góðra heillastunda í Vors Herra nafni Amen.“ Það var þó ekki fyrr en miklu seinna að jólakortin eins og við þekkjum þau í dag komu til sögunnar. 

Fyrsta jólakortið sem kom á markað í heiminum, svo vitað sé, var gefið út í Englandi árið 1843 en það var þremur árum eftir að frímerkið var fundið upp. Það var þó ekki fyrr en í kringum 1890 að fyrstu jólakortin komu á markað hér á landi og voru þau yfirleitt dönsk eða þýsk, en þá höfðu jólakortin þegar breiðst hratt út um Evrópu og Norður-Ameríku. Uppúr aldamótunum 1900 fóru íslensk jólakort að birtast og fljólega varð mjög algengt að senda jólakort hér á landi og hefur það aukist jafnt og þétt í gegnum árin og er nú löngu orðinn fastur liður í jólaundirbúningnum.