Spurt og svarað

Spurningar og svör jólasveinanna

Spurningar til jólasveinanna

Hvað eru jólasveinarnir gamlir?

Ja, það er nú einfalt að svara því. Þegar Stekkjarstaur var 103ja ára þá fæddist Giljagaur, þannig að Giljagaur er núna 207 ára og Stúfur er 100 árum yngri. Þannig að þetta er nú kannski ekki eins einfalt og ég hélt. En við erum sveinar á besta aldri. Við bræðurnir eldumst hver og einn um eitt ár á ári, samtals um 13 ár.

Er Grýla til?

Ó, jújújú. Hún var nú svolítið heilsulaus í nokkur ár en er öll að eflast, hún notar bætiefni og stundar jóga og svoleiðis og er nokkuð hress.

Finnst þér piparkökur góðar?

Já mér finnst piparkökur alveg sérstaklega góðar. Það á við um okkur alla, bræðurnar. Ef þið viljið gleðja okkur megið þið setja piparköku hjá skónum.

Af hverju gefa bræður þínir nammi í skóinn?

Það er Grýla sem ræður því. Hún ræður öllu. Hún raðar í pokana okkar. Ef hún er í nammistuði þá fer nammi í alla pokana.

Hvernig getur þú talað með allt þetta skegg?

Það er enginn vandi, ég bara tala. Ég er ekki með skegg á tungunni eða í hálsinum.

Kemur jólasveinninn í nótt?

Já, ég veit ekki betur.

Finnst ykkur laufabrauð gott?

Já það er engin spurning. Auðvitað, það er það besta sem til er!

Hvernig getið þið gefið svona mörgum börnum í skóinn á einni nóttu?

Ég hef heyrt þessa áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þetta er mjög einfalt. Á því augnabliki sem þetta gerist, þegar allir krakkar fá jólagjöfina sína og í skóinn, þá breytumst við í litlar frumeindir og fljúgum af stað á augabragði. Þetta er sekúndubrot.