Jólasveinar og aðrir vættir

Grýla og Leppalúði

Foreldrar jólasveinanna og þá einkum móðir þeirra, Grýla, eru án efa hræðilegustu óvættir sem til eru á Íslandi. Ekki nóg með að þau séu af tröllakyni heldur eru þau stórhættuleg börnum og hafa, ólíkt sonum sínum jólasveinunum, ekkert breyst hvað það varðar í aldanna rás.

Enn þann dag í dag eru þau skötuhjú notuð sem barnafælur og vita börn það eins vel í dag og áður að Grýlu þykir gott að gæða sér á óþekkum börnum. Hún er ekki frýnileg lýsingin á Grýlu í þjóðsögum Jóns Árnasonar en þar segir:

„Grýlukvæðin segja að hún hafi ótal (300) hausa og þrenn augu í hverju höfði ... kartnögl á hverjum fingri, helblá augu í hnakkanum og horn sem geit, eyrun lafi ofan á axlir og séu áföst við nefið að framan. Hún var og skeggjuð um hökuna og fór skeggið ekki betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við bót eða flóki, en tennurnar voru sem grjót ofnbrunnið.“

Fæstir myndu vilja mæta þeirri ófreskju sem hér er lýst á förnum vegi og af þessari lýsingu að dæma er ekki að undra að blessuð börnin óttist hana Grýlu enn. Grýla er óvættur sem lengi hefur verið til staðar á Íslandi og eru til um hana heimildir allt frá 13. öld. Það er þulubrot úr Sturlungu þar sem Grýlu er lýst sem skrímsli með 15 hala en svipaða sögu segir einnig þula frá 16. öld nema þar hefur því verið bætt við að í hverjum hala séu hundrað belgir sem hver inniheldur tuttugu börn. Ritaðar heimildir eru því fyrir því allt frá 16. öld að Grýla sé stórhættuleg börnum eins og hún er raunar enn.

Eftir því sem við færumst nær okkur í tíma eru varðveitt mun fleiri kvæði um Grýlu og hennar hyski og á 17. og 18. öld eru þau orðin þónokkuð mörg. Í þessum kvæðum er fyrst farið að tengja Grýlu jólunum og kemur hún til byggða rétt fyrir jól í leit sinni að óþekkum börnum. Oft á hún í miklum samræðum við húsbændurna sem eðlilega vilja verja börn sín gegn þessari óhugnanlegu mannætu. Í þessum kvæðum er Grýla ekki síður ófrýnileg en síðari tíma lýsingar úr þjóðsögum Jóns Árnasonar gefa til kynna.

Eitt af þekktustu Grýlukvæðum frá 17. öld er eftir Stefán Ólafsson í Vallanesi en þar er henni svo lýst:

 

Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð,
hún er sig svo ófríð
og illileg með.

Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú.

Þó er ekkert minna,
og það segja menn,
að hún hafi augnaráðin
í hverju þrenn.

Að hún hafi augnaráðin
eldsglóðum lík,
kinnabeinin kolgrá
og kjaptinn eins og tík.

Kinnabeinin kolgrá
og hrútsnefið hátt,
það er í átján hlykkjunum
þrútið og blátt.

Það er í átján hlykkjunum,
og hárstrýið hart
ofan fyrir kjaptinn tekur
kleprótt og svart.

Ofan fyrir höku taka
tennurnar tvær,
eyrun hanga sex saman
sítt ofan á lær.

Eyrun hanga sex saman
sauðgrá á lit,
hökuskeggið hæruskotið
heilfult af nyt.

Hökuskeggið hæruskotið
og hendurnar þá
stórar eins og kálfskrof
og kartnöglur á.

Stórar eins og kálfskrof
og kolsvartar þó
nógu er hún lendabreið
og þrifleg um þjó.

Nógu er hún lendabreið
og lærleggjahá,
njórafætur undir
og naglkörtur á.

Njórafætur undir
kolsvörtum kvið,
þessi þykir grálunduð
grátbörnin við.

Þó að flestar heimildir um Grýlu fjalli aðallega um hversu ófrýnileg hún er og hættuleg börnum er athyglisvert að sjá að einnig er þar nokkuð fjallað um karlamál hennar. Samkvæmt heimildum er Grýla þrígift. Fyrsti eiginmaður hennar nefndist Gustur en ekki varð það hjónaband langlíft þar sem Grýla er sögð hafa étið hann. Síðar átti hún mann að nafni Boli en þau áttu saman fjölda barna sem mörg hver hafa verið nafngreind í nafnaþulum á borð við þessa: Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur, Langleggur og Leiðindaskjóða, Völustallur og Bóla. Núverandi eiginmaður Grýlu er hins vegar flestum kunnur enda er hann yfirleitt ekki langt undan þegar Grýlu ber á góma. Hann heitir Leppalúði og er sagt að þau skötuhjú hafi átt saman tuttugu börn. Þrettán þeirra þekkja allir en það eru sjálfir jólasveinarnir.

Þó Grýla sé enn í fullu fjöri sem stórhættuleg barnafæla hefur nokkuð borið á því að nú sé sagt við börn að Grýla sé dauð. Fjölmörg jólalög sem sungin eru á aðventunni nú á dögum fjalla einmitt um það að Grýla sé dauð og þykir mörgum að farið hafi fé betra. Hins vegar er í sumum kvæðum settur sá fyrirvari að hún gæti mögulega lifnað við aftur ef mikið úrval yrði af óþekkum börnum. Þannig er það einmitt í frægu kvæði Jóhannesar úr Kötlum um Grýlu kem birtist í bók hans Jólin koma árið 1932. Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum hljóðar svona:

Grýla hét tröllkerling
leið og ljót
með ferlega hönd
og haltan fót.

Í hömrunum bjó hún
og horfði yfir sveit,
var stundum mögur
og stundum feit.

Á börnunum valt það,
hvað Grýla átti gott,
og hvort hún fékk mat
í sinn poka og sinn pott.

Ef góð voru börnin
var Grýla svöng,
og raulaði ófagran
sultarsöng.

Ef slæm voru börnin
varð Grýla glöð,
og fálmaði í pokann sinn
fingrahröð.

Og skálmaði úr hamrinum
heldur gleið,
og óð inn í bæina
- beina leið.

Þar tók hún hin óþekku
angaskinn,
og potaði þeim
nið'r í pokann sinn.

Og heim til sín aftur
svo hélt hún fljótt,
- undir pottinum fuðraði
fram á nótt.

Um annað, sem gerðist þar,
enginn veit,
- en Grýla varð samstundis
södd og feit.

Hún hló, svo að nötraði
hamarinn,
og kyssti hann
Leppalúða sinn.

Svo var það eitt sinn
um einhver jól,
að börnin fengu
buxur og kjól.

Og þau voru öll
svo undurgóð,
að Grýla varð hrædd
og hissa stóð.

En við þetta lengi
lengi sat.
Í fjórtán daga
hún fékk ei mat.

Þá varð hún svo mikið
veslings hró,
að loksins í bólið
hún lagðist – og dó.

En Leppalúði
við bólið beið,
- og síðan fór hann
þá sömu leið.

Nú íslensku börnin
þess eins ég bið,
að þau láti ekki hjúin
lifna við.

Í þessu kvæði deyja bæði Grýla og Leppalúði vegna þess að engin óþekk börn er að fá. Í síðasta erindinu er þó settur ákveðinn fyrirvari á þessi endalok þeirra og íslensk börn minnt á það að þau gætu mögulega lifnað við aftur ef börnin hegða sér ekki almennilega. Þannig þjóna Grýla og Leppalúði þeim tilgangi að vera barnafælur þó að þau séu dauð.

Reyndar eru fjölmörg kvæði, bæði gömul og ný, sem setja enga fyrirvara á endalok Grýlu og er kvæðið „Það á að gefa börnum brauð“ sjálfsagt þeirra þekktast en það hljóðar svona:

Það á að gefa börnum brauð
að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð,
svo komist þau úr bólunum,
væna flís af feitum sauð,
sem fjalla gekk á hólunum.
Nú er hún gamla Grýla dauð,
gafst hún upp á rólunum.

Samkvæmt þessari frægu þjóðvísu er það ekkert vafaatriði að Grýla er bara dauð og engin hætta á því að hún komi nokkurn tímann aftur til að hrella íslensku börnin. Hins vegar er allur varinn góður þegar óútreiknanlegar ófreskjur á borð við Grýlu eru annars vegar og öllum börnum hollast að vera stillt, bara svona til vonar og vara!

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.
Jóhannes úr Kötlum. Jólin koma. Kvæði handa börnum. Mál og menning, Reykjavík 1932.
Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík 1954.
Stefán Ólafsson. Kvæði I. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn 1885.