Jólasveinar og aðrir vættir

Jólasveinar

Íslensku jólasveinarnir eru öldungis óskyldir hinum alþjóðlega rauðklædda Santa Claus sem er kominn af dýrlingnum Nikulási biskupi, verndara barna og sæfarenda í kaþólskum sið. Þeir eru af kyni trölla og voru upphaflega barnafælur. Þeir eru synir þeirra allra verstu illvætta sem til eru á Íslandi, Grýlu og Leppalúða. Fyrsta ritaða heimildin þar sem minnst er á jólasveinana er frá 17. öld en það er Grýlukvæði séra Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi.

Þar segir um þau skötuhjú Grýlu og Leppalúða:

Börnin eiga þau bæði saman
brjósthörð og þrá,
af þeim eru jólasveinar,
börn þekkja þá.

Af þeim eru jólasveinar
jötnar á hæð,
öll er þessi illskuþjóðin
ungbörnum skæð.

JolasveinarFlest börn myndu sjálfsagt vilja forðast þá jólasveina sem hér er minnst á enda var það svo að jólasveinarnir voru upphaflega, líkt og Grýla og Leppalúði eru enn, barnafælur sem foreldrar notuðu til að hræða börn sín til hlýðni. Yfirvöldum hefur greinilega ekki litist á blikuna vegna þess að með Húsagatilskipun frá árinu 1746 var tekið fram að bannað væri að hræða börn með óvættum á borð við jólasveinana. Hvort sem það var Húsagatilskipuninni fyrir að þakka eða einhverju öðru tóku jólasveinarnir að mildast með árunum og hættu að vera börnum lífshættulegir, þó þeir væru enn hrekkjóttir þjófar. Þegar líða tók á 20. öldina urðu hinir íslensku jólasveinar fyrir miklum áhrifum frá erlendum starfsbræðrum sínum bæði varðandi hegðun og tísku. Þeir fóru að taka upp á því til hátíðabrigða að klæða sig upp í rauð spariföt í líkingu við þau sem sjást á hinum alþjóðlega Santa Claus og dönskum jólanissum. Þá fóru þeir einnig að vera góðir við börn og gefa þeim gjafir í skó.

Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir erlendum áhrifum héldu jólasveinarnir þó alltaf í séríslensk einkenni sín á borð við nöfnin, búsetuna í fjöllunum og fjöldann, en eins og flestir vita er ekki aðeins einn jólasveinn á Íslandi heldur eru þeir þrettán talsins. Reyndar var það um tíma nokkuð á reiki hversu margir íslensku jólasveinarnir væru og hver væru þeirra réttu nöfn. Svo virðist sem mun fleiri jólasveinanöfn hafi þekkst en þau sem við erum nú vön og þau jólasveinanöfn sem finna má í hinum ýmsu þjóðsagnasöfnum skipta í raun tugum. Nöfnin sem birtast í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eftir heimildamanninum Páli Jónssyni, presti á Myrká í Eyjafirði og Völlum í Svarfaðardal, komast næst því að vera þau sömu og nú tíðkast. Þar eru nefndir þeir þrettán jólasveinar sem við þekkjum nema hvað að í stað Hurðaskellis er þar gaur að nafni Faldafeykir. Hvað fjölda jólasveinanna varðar hafa menn nú sammælst um að þeir séu þrettán en eins og kemur fram í kvæðinu „Jólasveinar einn og átta“ voru einnig uppi hugmyndir um að þeir væru ekki nema níu. Litið hefur verið á það sem svo að áður en þessi mál voru bókfest hafi það verið mismunandi eftir svæðum hversu margir jólasveinarnir voru og hvaða nöfn þeir báru. Það var þá ekki síst fyrir tilstilli kvæðis Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana sem birtist í bókinni Jólin koma árið 1932 að fjöldi þeirra og nöfnin urðu almennt þekkt en þar eru hinir þrettán jólasveinar sem við þekkjum í dag allir nefndir til leiks eins og sjá má ef smellt er á nöfn jólasveinanna hér að neðan.

Nutima-jolasveinnGömlu íslensku jólasveinarnir heimsækja Þjóðminjasafnið, einn á dag, síðustu þrettán dagana fyrir jól.

Þá eru þeir klæddir þjóðlegu fötunum sínum, ekki rauðu sparifötunum, og reyna að krækja sér í það sem þá langar helst í enda eiga þeir það enn til að vera svolítið þjófóttir þó þeir séu hin vænstu skinn. Þessir hrekkjóttu pörupiltar eiga dálítið erfitt með að átta sig í tæknivæddri nútímaveröld en finnst gott að koma í Þjóðminjasafnið því þar er svo mikið af gömlum munum. Árið 1988 bauð Þjóðminjasafn Íslands hinum alvöru íslensku jólasveinum í fyrsta skipti formlega í heimsókn fyrir jólin. Síðan þá hafa þeir verið fastagestir í desember. Fyrir nokkrum árum rann Grýlu til rifja hvað strákarnir voru tötralega til fara. Þegar Þjóðminjasafnið innti þá eftir þessu sögðust þeir reyndar eiga rauð spariföt sem þeir skiptust á að nota en væru samt í harðri samkeppni við „ameríska jólasveininn“ eins og þeir kölluðu hann. Því fékk Þjóðminjasafnið íslenska hönnuði og handverksfólk til liðs við sig um að gera ný föt handa sveinunum svo þeir gætu litið sómasamlega út fyrir jólin. Í framhaldi af því fengu bæði þeir og foreldrar þeirra, Grýla og Leppalúði, nýjan alklæðnað frá hvirfli til ilja, úr vaðmáli, gærum, flóka og íslenskri ull.