Ása Wright

Ása Wright

8.12.2015

Persónuleiki Ásu Wright var stór í sniðum, hún lét hendur standa fram úr ermum og er eftirminnileg þeim sem kynntust henni. Ása var mikilsmetin hefðarfrú, var öflug í kvenréttindabaráttu, stofnaði kvenfélag og vann frumkvöðulsstarf á sviði náttúruverndar og vísinda. Ása  var velgjörðarmaður Þjóðminjasafns Íslands og minnist Kristán Eldjárn, fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands, hennar sem „fyrsta mærings Þjóðminjasafnsins.“ Árið 1968 sæmdi Kristján Ásu riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu að henni fjarstaddri fyrir stórgjafir hennar til safnsins.

Bernskuárin á Íslandi

Áslaug Guðmundsdóttir eða Ása G. Wright fæddist að Laugardælum í Ölfusi 12. Apríl 1892.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson (1853-1946) héraðslæknir og Arndís Jónsdóttir(1857-1936).  Ása var yngst sex systkina og sú eina sem náði háum aldri. Auk Ásu voru systkinin Þóra kölluð Minna (1888-1918), Sturla (1883-1910), Sigþrúður (1884-1905) og Ingi (1886 - 1887). Fyrsta barn þeirra hjóna var andvana sonur fæddur 1882. Hvorki hún né systkini hennar eignuðust afkomendur og var það Ásu því mikilvægt að nöfn þeirra féllu ekki í gleymsku og dá. Ása og fjölskylda
Ása flutti með fjölskyldu sinni í Stykkishólm þegar hún var níu ára gömul. Þar naut hún heimakennslu eins og algengt var á þessum tíma. Hún var lestrarhestur og tíður gestur á bókasafninu sem síðar naut velvildar hennar.  Ása lærði snemma að sauma og lagði mikið upp úr því að vera vel til fara. Aðeins 15 ára var hún svo orðin virk í kvenfélagi staðarins.  Ása fylgdi föður sínum oft í sjúkravitjanir þar sem hún kynntist handbrögðum hans. Þessi kunnátta hennar átti eftir að koma henni að góðum notum þegar hún lagði stund á hjúkrunarfræði í Englandi nokkrum árum síðar. Guðmundur var einnig mikill náttúruskoðari og garðyrkjumaður og aðstoðaði Ása hann oft við að gróðursetja og kynntist þannig garðræktarstörfum.
Árið 1911 var Ása, þá 19 ára, send til Englands til að læra ensku og góða siði en einnig til að forða henni frá ástarsambandi við ungan búðarpilt sem þótti henni ekki samboðinn.

England

Í London bjó Ása hjá hefðarfjölskyldu og lærði að hegða sér í samræmi við það. Á meðan dvöl hennar stóð bauðst henni eitt sinn að taka þátt í hirðveislu og fá að ganga fyrir konung. Það var siður að ungar hefðarstúlkur væru kynntar með þessum hætti. Ása saumaði sjálf kjólinn sem hún klæddist upp úr gardínum og efnisbútum en peningunum sem hún átti til kjólakaupa eyddi hún í forláta spegil sem enn hangir uppi í húsi hennar á Trínidad. Ása hóf nám í hjúkrunarfræði við enskan skóla þar sem hún lagði einkum stund á ljósmóðurfræði. Árði 1914 hélt Ása heim til Reykjavíkur í brúðkaup systur sinnar.  Á leið sinni kynntist hún breska lögfæðingnum Henry Newcome Wright (1884 – 1955) og tókust með þeim ástir.
Henry var sendur á vígvöllinn fjórum mánuðum síðar og beið Ása hans í þrjú ár en árið 1917 varð Newcome fyrir gaseitrun og var sendur heim.  Haustið 1917 gengu þau Ása og Newcome í hjónaband og  þar sem þau voru bæði ákveðin og stjórnsöm mun það oft hafa verið stormasamt.

Cuddra húsið í Cornwall

Ása og Newcome settust að í Cornwall og vann Newcome lengst af við eignaumsýslu fyrir Carlyon aðalsfjölskylduna. Ása bjó þeim fallegt heimili í húsi á landareign Carlyonfjölskyldunnar; Cuddra House. Mikið var um gestakomur, jafnvel allt frá Íslandi og tók Ása vel á móti gestum sínum og fylgdi föstum hefðum í heimilishaldi. Matur var snæddur á réttum tíma með viðeigandi borðbúnaði.
Ása stóð fyrir stofnun kvenfélags á svæðinu og nálgaðist með því nágrannakonur sínar. Í kvenfélaginu fékk hún útrás fyrir framkvæmdagleði sína og atorku. Hún flutti m.a inn fyrirlesara, og þjálfaði konurnar í saumum og matargerð. Á sama tíma hafði Newcome staðið fyrir byggingu á lúxushóteli sem um tíma var í miklum blóma en stóð að lokum ekki undir rekstri og þ Kvenfélagskonur í Cornwallau hjónin neyddust til að flytja burt frá Cuddra.   Þegar Ása sá fram á að þurfa að yfirgefa staðinn tók hún sig til og stóð fyrir fjáröflun svo hægt væri að reisa félagsheimili fyrir kvenfélagið. Heimilið sem fékk nafnið Cuddra house stendur enn í dag.  Ása og Newcome fluttu svo á ný til London árið 1938.

Seinni heimsstyrjöldin skall á og Ása fékk starf við að ritskoða  bréf til og frá Íslandi og var óhrædd við að segja sína skoðun á innihaldi þeirra.
Strax að stríðinu loknu fóru Ása og Newcome að hugsa sér til hreyfings en Newcome hafði lengi dreymt um að setjast að í hlýrra loftslagi. Eyjan Trinidad  var fyrirheitna landið og strax í júní 1945 kvöddu þau England í síðasta sinn og héldu áleiðis í Karabískahafið með viðkomu á Íslandi. Með þeim í för var faðir Ásu, Guðmundur læknir.

Trinidad Ása ásamt starfsfólki og Guðrúnu Kristjánsdóttur

Á Trinidad festu þau hjónin kaup á kaffi- og kakóplantekrunni Spring Hill sem þá var í nokkurri niðurníðslu. Bjuggu þau sér þar enskt hefðarheimili með öllu tilheyrandi, þjónustufólki og gestakomum um helgar. Ása hafði flutt með sér ýmsa húsmuni frá Englandi og skreytti með þeim heimilið ásamt fallegum erfðagripum frá Íslandi. Ása og Newcome ráku plantekruna fyrst um sinn og seldu afurðir sínar til höfuðborgarinnar, Port of Spain. Guðmundur faðir hennar lést í Trinidad 1946 og var jarðaður í kirkjugarði í Port of Spain.
Aðstæður í hitabeltinu voru erfiðar og uppskerubrestur algengur.  Reksturinn varð þeim hjónum erfiður bæði fjárhagslega og líkamlega og Ása sem áður hafði lagt mikið upp úr útliti og klæðnaði slakaði á þeim kröfum og fór að klæðast hólkvíðum kjólum sem hentuðu betur við erfiðar aðstæður.  Þegar Henry Newcome lést árið 1955 sneri Ása sér í meira mæli að ávaxtarækt og breytti Spring Hill í gistiheimili sem sérhæfði sig í að taka á móti fugla- og náttúruunnendum. Hún fór að hafa æ meiri áhuga fyrir náttúrufriðun og kom fólk víðsvegar að úr heiminum til þess að skoða og rannsaka fuglalíf staðarins.
Ása á Spring HillÞegar aldurinn færðist yfir Ásu átti hún erfiðara með að sjá um staðinn. Henni var þó mikið í mun um að landareignin yrði friðuð og þar yrði áfram setur fyrir náttúruunnendur. Svo fór að lokum að Ása seldi búgarðinn samtökum náttúruverndamanna og gerði um leið jörðina að friðlandi. Stofnaður var félagsskapur um eignina og heitir staðurinn nú Ása Wright Nature Centre. Sjálf bjó Ása þar til æviloka.
Síðustu ár ævi sinnar tók Ása að senda ýmsa muni úr búi sínu heim til Íslands sem hún færði Þjóðminjasafninu að gjöf. Einnig gaf hún bókasafninu í Stykkishólmi og Forseta Íslands á Bessastöðum mikið safn bóka. Að lokum gaf hún veglega peningagjöf til stofnunar minningar- og vísindasjóðsins.

Við vígsluna á Ása Wright Nature centureÞað var Ásu ekki auðvelt að búa á búgarðinum eftir eigandaskiptin og fannst henni hún oft mæta nokkru mótlæti. Ása var ákveðin kona með mikin persónuleika. Hún hafði stýrt setrinu eins og herforingi alla sína ævi og það hefur sennilega ekki reynst henni auðvelt að láta af stjórn setursins. Hún lést í Trinidad þann 6.febrúar 1971 og var jarðsett við hlið manns síns og föður í Port of Spain. Henni mun lengi verða minnst vegna verka sinna. Óðalið á Cornwall skartar enn hinum fegursta garði og í Trinidad njóta náttúruskoðarar paradísarinnar í Spring Hill. Sjóðirnir sem hún stofnaði hafa veitt fjölmörgum vísindamönnum styrki og minningarsjóðurinn hefur gert fræðimönnum kleift að upplýsa landsmenn um ýmsa þætti í norrænni menningu.
Þannig rættist sá draumur Ásu Guðmundsdóttur Wright að geta orðið landi sínu að nokkru liði þrátt fyrir ævidvöl á erlendri grund.

Í upphafi  7. áratugarins hafði Ása samband við Kristján Eldjárn þáverandi þjóðminjavörð og færði í tal að gefa safninu gripi úr búi sínu.  Þáði Kristján það og bárust fyrstu sendingarnar árið 1963 en þær síðustu við lok árs 1966.  Ása lagði mikla vinnu í þessar sendingar, lét sérsmíða kassa utan um þær, fann bestu flutningsleiðina og hélt kostnaði í lágmarki. Hér er hægt að nálgast lista yfir alla þá muni er Ása færði safninu. Einnig er hægt að skoða myndir af gripunum í myndasafninu.

Meðal gripa úr búi Ásu voru fágætir erfðagripir frá langafa hennar, Friðriki Eggerz í Akureyjum, frá móðurafa hennar og ömmu, þeim Jóni Péturssyni háyfirdómara og Sigþrúði Eggerz og eins frá foreldrum Ásu, Guðmundi lækni og Arndísi. Eins voru munir úr búi Þóru móðursystur shennar og Jóns Magnússonar forsætisráðherra. Einnig erðagripir frá fjölskyldu Newcomes.

Þjóðminjasafn Íslands hélt sýningu árið 2009, Ása Wright – frá Íslandi til Trinidad. Þar gaf að líta hluta þeirra gripa sem Ása Guðmundsdóttir Wright gaf safninu á 7. áratug síðustu aldar. Muni úr búi Ásu má sjá hér í myndasafninu.