Einföld leikföng - stórbrotnir leikir
JÚNÍ 2021
Þjms. 1979-337
Þjms. 1986-385
Leikföng finnast sjaldan við fornleifauppgröft. Hugsanlega er ástæðan sú að hvað sem er getur orðið barni að leik og að leikföng beri ekki hlutverk sitt í útlitinu. Það geta verið skeljar eða óvenjulegir steinar. Hægt er að hugsa sér tusku bundna í vöndul til að útbúa fyrirtaks brúðu. Ímyndunaraflið sér svo um rest. Slík barnagull geta haft mikla þýðingu fyrir eigendur sína en tapa merkingunni þegar ímyndunarafl eigandans fylgir ekki lengur með.
Á árunum 1978-1990 stóð yfir fornleifarannsókn á Stóru-Borg. Rannsóknirnar sýndu fram á langa búsetu á svæðinu og fjölda bygginga, hverja undir annarri í bæjarhól, enda sífellt endurbyggt á sama staðnum. Kynslóðirnar hafa búið þarna saman og að sjálfsögðu hafa börn átt leikföng þar eins og annars staðar.
Gripir mánaðarins, sem hér eru sýndir, eru litlar tréfígurur frá Stóru-Borg. Ólíkar og líklega ekki gerðar af sömu manneskjunni. Fígúrurnar fundust ekki á sama stað en báðar eru taldar frá 18. öld. Þetta eru karl og kerling í svipaðri stærð, karlinn þó heldur hærri. Þessar fígúrur mætti túlka sem leikföng hvort sem þau hafa verið notuð af börnum í búleik eða í öðrum tilgangi.
Karlinn er allur einfaldari í útskurði. Hann stendur með gleiða fætur og hugsanlegt er að hann hafi verið tálgaður til að sitja tréhest, allavega ímyndaðan hest. Hann er með myndarlegt skegg og líklega er hann gerður úr trjágrein, enda langur og sívalur.
Kerlingin er af allt öðrum toga. Hendur hennar liggja tálgaðar saman að framanverðu. Hún er með hátt höfuðfat og pilsið er lagt fellingum að aftan. Ólíkt einfaldri gerð karlsins mótar fyrir andliti á kerlu þó það sé nú frekar máð.
Líklega eru báðar fígúrurnar heimagerðar eins og flest annað á þeim tíma. Einföld leikföng geta verið uppspretta stórbrotinna leikja þegar ímyndunaraflið nær flugi.
Anna Leif Auðar Elídóttir
Heimildir:
Gyða Gunnarsdóttir. (2004). Barnagaman: leikir og leikföng í aldir. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstjórar), Hlutavelta tímans: menningararfur á Þjóðminjasafni (bls. 352-361). Reykjavík, Þjóðminjasafn Íslands.
Sarpur.is. Brúða, Leikfang. Sótt af: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=15041
Sarpur.is. Leikfang. Sótt af: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=460933
Stóra-Borg: fornleifarannsókn 1978-1990: sýning í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands júlí-nóvember 1991. [texti í sýningarskrá Mjöll Snæsdóttir, Þórður Tómasson; ensk þýðing Anne Cotterill] Reykjavík, Þjóðminjsafn Íslands, 1991.