Glitofinn dúkur af heimili Ingibjargar og Jóns
APRÍL 2019
Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveittir ýmsir munir úr búi Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur. Þegar gengið var frá dánarbúi hjónanna keypti Tryggvi Gunnarsson þessa hluti og gaf þjóðinni. Alþingi tók gjöfina til varðveislu og síðar tók Þjóðminjasafnið við mununum. Einn þeirra muna er glitofinn dúkur með skráningarnúmerinu Js-92. Dúkurinn er stór, 183x123 cm að stærð, svartur í grunninn. Í hann er ofið blómsturmunstur með grænu, rauðu og bleiku bandi sem er endurtekið yfir allan dúkinn. Matthías Þórðarson, fyrrverandi þjóðminjavörður, skrifaði í aðfangabók safnsins að Jón Sigurðsson forseti hafi jafnan haft dúkinn á bak við skrifborð sitt í Kaupmannahöfn.
Ekki er ljóst hvort um sé að ræða rúmábreiðu eða söðuláklæði. Dúkurinn ber þó ýmis einkenni söðuláklæðis. Þau voru ávallt glitofin eða glitsaumuð, svört eða brún í grunninn með stílfærðum blómamunstrum. Söðuláklæði voru lögð yfir sveifina á hellusöðlum og endarnir látnir ganga fram á setuna. Reiðkonan sat á öðrum endanum en vafði hinum yfir fætur sér. Hellusöðlar viku fyrir hentugri söðlum með klakk á 19. öld og misstu söðuláklæðin þá hlutverk sitt við reiðmennsku. Þó má reikna með að þau hafi verið nýtt áfram með öðrum hætti. Á síðari hluta 19. aldar og við upphaf 20. aldar tíðkaðist að hengja þau sem veggteppi ofan við sófa eða legubekki.
Í Jónshúsi við Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn er sýningin Heimili Ingibjargar og Jóns. Miðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn 1852-1879. Á sýningunni er gefin innsýn í daglegt líf á heimili hjónanna Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar. Jón var leiðtogi Íslendinga í baráttunni fyrir sjálfstæðu sambandi Íslands við Danakonung og fyrirmynd í sjálfstæðisbaráttu síðari tíma. Heimilið var oft á tíðum líflegt og mannmargt og þar voru haldnir mikilvægustu stjórnmálafundir Íslendinga í Kaupmannahöfn.
Íbúð þeirra hjóna í húsinu hefur verið endurgerð svo hún endurspegli búsetu þeirra þar á árunum 1852–1879. Rannsóknir á veggjum íbúðarinnar leiddu í ljós liti frá búskaparárum hjónanna og stuðst var við heimildir um húsbúnað og innréttingar. Heimilið var eins og hvert annað danskt borgaraheimili en heimildum ber saman um að á því hafi verið íslenskur bragur.
Á sýningunni má sjá eftirprentun af dúknum sem hér er fjallað um. Í samræmi við heimildir var honum valinn staður á vegg yfir sófanum í hornstofunni. Hornstofan var skrifstofa Jóns og vinnustaður Ingibjargar. Þar var jafnframt tekið á móti gestum sem bar að garði. Að kvöldverði loknum var gengið til stofunnar og þar var spilað, skeggrætt, reykt og boðið upp á toddý.
Eva Kristín Dal
Heimildir:
Ragnheiður Björk Þórsdóttir. 2018. „Söðuláklæði“. Prýðileg reiðtygi. Ritstjóri Anna Lísa Rúnarsdóttir. Þjóðminjasafn Íslands.
Sarpur.is, menningarsögulegur gagnagrunnur: http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=349175