Líkkistuskjöldur - 200 árum síðar...
FEBRÚAR 2019
Þjms. 1968-412
Í Gufunesi við Reykjavík var kirkja allt frá 13. öld. Hún var aflögð 1886 og um leið var hætt að greftra í kirkjugarðinum þar. Þegar fram liðu stundir var nákvæm staðsetning kirkjugarðsins gleymd, enda hafði yfirborð hans verið sléttað og ummerkin máðst út. Árið 1965, þegar grafið var fyrir nýbyggingum Áburðarverksmiðjunnar, komu upp mannabein. Þá varð ljóst að komið væri niður á hinn gamla kirkjugarð, á allt öðrum stað en menn höfðu ætlað að hann væri. Framkvæmdir voru stöðvaðar og í kjölfarið ákveðið að flytja kirkjugarðinn. Alls fundust 768 mannabein eða höfuðkúpur. Beinin voru látin í 125 kassa og kistuleifar látnar fylgja kössunum. Beinin voru svo grafin í hinum nýja Gufuneskirkjugarði.
Ja, satt að segja ekki alveg öll. Í einni gröfinni fannst silfurskjöldur með áletrun um þann sem í gröfinni lá. Svo virðist sem skjöldurinn hafi verið lagður beint á brjóst hins látna, ofan í kistunni, en ekki festur ofan á kistulokið, eins og algengast var.
Sá siður, að festa málmskildi á líkkistulok (einkum á kistur þeirra er til heldra fólks taldist) virðist hafa verið tekinn upp hér á landi á 17. öld. Líkkistuskjöldunum, sem fylgdu þannig jarðneskum leifum hinna látnu í gröfina, svipar mjög til minningarskjalda sem hengdir voru á veggi kirkna, en síðar oft hafðir á heimilum aðstandenda. Skildirnir voru ýmist úr látúni, tini eða silfri og á þá voru grafin nöfn hinna látnu, fæðingar- og dánardagar, jafnvel fáein æviatriði og nöfn maka.
Í samráði við þjóðminjavörð var ákveðið að bein hins látna, er grafinn hafði verið með líkkistuskildinum í kirkjugarðinum í Gufunesi, yrðu flutt, ásamt skildinum, í Þjóðminjasafnið og varðveitt þar.
Skjöldurinn var býsna vel varðveittur og áletrunin fullkomlega skýr og því auðvelt að lesa hverjum beinin tilheyrðu. Innan minjageirans er raunar svo sjaldgæft að geta þannig einfaldlega lesið hverjum uppgrafin bein tilheyra, að umrædd beinagrind er ein örfárra í Þjóðminjasafni sem vitað er nákvæmlega hverjum tilheyrði. Ekki nóg með það, heldur er í safninu ennfremur varðveitt teikning af manninum, eftir Sæmund Hólm, fræðimann, skáld, prest og dráttlistamann.
En hver var þá maðurinn? Áletrunin á skildinum er eftirfarandi:
haf í minni
Jesum Kristum
hvör aptur er upprisinn frá daudum
og nem þú stadar, dygdelskandi madur,
vid þessar moldir.
og adgiæt
ad hér bídur, í trú öruggur, upprisu Réttlátra
Paúll Johnsson
fæddur þann 29da Marti 1737,
Hospítalshaldari í 19,
Klausturhaldari Kirkiubæar Klausturs
Vid 30 ár
og
tvisvar um tíma, settur Sÿslumadur
í Gullbríngu og Kiósar Sysslumm,
fyrst giptur Árid 1761
Valgérdi Þorgeirsdóttir
sem fra honum deidi Árid 1793,
en aptur 1794
Ragnheidi Gudmundsdóttir
nú eptir þrejandi;
hann deidi á Ellidavatni
þann 8da Febrúar 1819
og var þá 20 Afkomenda
ástríkur fadir, Afi, og Lángafi,
Verid hraustir og hugdiárfir
þér allir sem vonid á Drottinn
og
vakid fyrir því þér vitid ecki, á hvada
Stundu ydar herra mun koma.
Hiartkiærum födur hriggur setti
Páll Pálsson
Það var því sonur hins látna sem lét gera skjöldinn og hefur væntanlega lagt hann á brjóst föður síns í kistunni. Þrátt fyrir að skjöldurinn sé ekki merktur smiðsstimpli ber allt útlit og handbragð silfursmíðarinnar og leturgraftarins þess merki að hann sé eftir Þorgrím Tómasson á Bessastöðum. Þorgrímur var einn þekktasti silfursmiður landsins á sínum tíma og var feikilega fær í sínu fagi.
Páll Jónsson var þekktur maður á sínum tíma og einn kunnasti sveitarhöfðingi Vestur-Skaftfellinga í kringum aldamótin 1800. Í kjölfar Skaftárelda neyddust Páll, fjölskylda hans og annað heimilisfólk, til að flýja heimili sitt og skilja eftir allan búfénað, sem og nánast allar aðrar eigur. Það litla sem þau gátu tekið með sér fluttu þau á einum hesti, alla leið til Seltjarnarness þar sem þau settust að fyrst um sinn.
Eftir tvö ár í þurrabúð á Seltjarnarnesi var Páli falið að sjá um spítalann í Gufunesi og þangað fluttist fjölskyldan árið 1786. Þremur árum síðar varð hann klausturhaldari Kirkjubæjarklausturs en bjó þó áfram í Gufunesi.
Klausturhaldari var konunglegt embætti sem varð til eftir að konungur náði undir sig fasteignum klaustra á Íslandi upp úr siðaskiptunum 1550. Skipaður klausturhaldari hafði umsjón með eignum hvers klausturs. Þetta var lénsstaða, oft veitt hæstbjóðanda á uppboði, gegn ákveðnu gjaldi til konungs. Klausturhaldari sá um að leigja jarðirnar til ábúenda og innheimti landsskuld. Þetta voru arðvænleg embætti sem leiddu til frama og auðs.
Páll Jónsson gegndi stöðu klausturhaldara Kirkjubæjarklausturs allt til dauðadags. Síðustu tíu ár ævinnar bjó Páll að Elliðavatni og þar lést hann, nærri 82 ára gamall.
Það er einstakt að geta tengt svo mikla og nákvæma sögu við varðveittar líkamsleifar í Þjóðminjasafninu. Ekki einungis var hægt að bera kennsl á hinn látna út frá minningarskildinum og skoða útlit hans út frá teikningunni, heldur er annar fjársjóður falinn í útfararminningu sem Páll, sonurinn, ritaði um föður sinn og var prentuð ári eftir andlát Páls klausturhaldara. Þar fer sonurinn nokkuð ítarlega yfir æviágrip föður síns, allt til dauðadags.
Rannsóknir á mannabeinum geta gefið margvíslegar vísbendingar og upplýsingar um einstaklinginn, heilsufar, aldur og fleira. Í tilviki Páls klausturhaldara fór grúsk um það hver maðurinn hefði verið, í gang í kjölfar rannsókna á beinum hans. Það var því einstakur fengur, þegar all nokkrar upplýsingar höfðu fengist úr beinarannsóknunum, að finna áðurnefnda útfararminninu Páls Pálssonar um föður sinn og sjá hvað þar rímaði margt varðandi almennt heilsufar Páls við niðurstöður rannsóknanna, sem og sjúkdómseinkenni sem gerðu vart við sig í aðraganda andláts hans.
Nú í febrúar eru tvöhundruð ár liðin frá andláti Páls Jónssonar klausturhaldara. Eins og fyrr sagði er það einstakt að geta viðað að sér svo ítarlegum upplýsingum, úr jafn fjölbreytilegum áttum, um einstakling, hvers jarðneskar leifar eru varðveittar í safninu,. Líkkistuskjöldurinn sem lagður var á brjóst Páls var lykillinn að því að kennsl voru borin á þann er beinin tilheyrðu og er því grundvöllur frekari rannsókna og samantekta um Pál klausturhaldara sem nú standa yfir og bíða birtingar.
Freyja Hlíðkvist Ómars- og Sesseljudóttir
Joe W. Walser III
Heimildir:
Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Gufuness og hjáleigu hennar Knútskots. Skýrsla nr 115, Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn, Reykjavík 2004.
Einar Laxness, Íslands saga, II. bindi, Alfræði Vöku-Helgafells, Reykjavík 1995.
Útfararminning: Æfisaga sáluga Klausturhaldarans Pauls Jónssonar, samin af syni hans Pauli Paulssyni, Candidat. Philosoph. Viðeyarklaustri, Reykjavík 1820.
Þór Magnússon, Er nú Jón týndur líka? Morgunblaðið, 16. júlí 1994, bls. 19.
Þór Magnússon, Íslenzk silfursmíð, I bindi, Reykjavík 2013.
Heimaslóð. Skaftfellskar myndir. http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1969/Skaftfellskar_myndir