Neftóbaksponta frá 19. öld
ÁGÚST 2020
Þjms. 11415
Þjms. 666
Neftóbaksbaukar eða pontur voru lang algengustu neftóbaksílátin á Íslandi á fyrri tíð. Slíkar pontur voru óvíða þekktar nema á Íslandi en þó munu svipaðar gerðir hafa verið til í Noregi sem voru þá yfirleitt úr hreindýrahorni.1 Algengast var samt að baukarnir væru gerðir úr nautgripahornum og því fallega sveigðir og fóru vel í vasa. Oftast voru þeir einnig skreyttir silfri þótt slíkir gripir hafi verið sjaldséðir á Íslandi í árdaga neftóbaksnotkunar hérlendis.2 Heppilegra þótti þó að hafa ponturnar skreyttar nýsilfri því það er mun slitsterkara en venjulegt silfur því þessir gripir voru í stöðugri notkun.3 Sú tóbaksponta sem hér hefur verið valin sem gripur ágústmánaðar er hins vegar gerð úr mjög dökkri rostungstönn sem bendir til að hún hafi legið lengi í jörð. Til endanna er hún sett nýsilfri og rákaður kúlulagaður tappinn er festur við pontuna með silfurkeðju. Á hliðunum eru áttablaðarósir úr kornsettu víravirki með rauðum glersteini í miðju. Pontan er óvenju löng eða um 19 sm og því óvíst að hún hafi að jafnaði verið borin í vasa4 eins og menn tíðkuðu annars yfirleitt. Upphafsstafirnir JJ eru grafnir á botnlok bauksins sem munu vera upphafsstafir Jóns Jónssonar í Purkey á Breiðafirði en á undan honum átti gripinn Hafliði Eyjólfsson hreppstjóri í Svefneyjum. Ofan við kenginn sem festir tappakeðjuna við pontuna er stimpill Rögnvaldar Sigmundssonar (1810-1871), gullsmiðs í Fagradal, RS, sem smíðaði gripinn og kom hann til Þjóðminjasafnsins árið 1932.5 Líklegt má telja að pontan hafi verið smíðuð eftir miðja 19. öld.
Það var við upphaf 16. aldar sem heimildir geta fyrst um tóbaksnotkun í Evrópu.6 Tóbaksplantan mun hafa borist frá Ameríku með evrópskum landkönnuðum þar sem þeir kynntust tóbaksnotkun frumbyggja Ameríkanna beggja. Jurtin var þar einkum notuð sem reyktóbak við helgisiðaathafnir þeirra en einnig að einhverju leyti sem lækningajurt. Í Evrópu voru fyrst gerðar ræktunartilraunir með hana í grasagörðum aðalsins á Spáni og í Portúgal og þar kynntist franski náttúruvísindamaðurinn, Jean Nicot, jurtinni.7 Hann flutti hana síðan með sér til Parísar og hóf þar frekari rannsóknir á henni og var efnið sem síðar var uppgötvað í jurtinni, nikótín, við hann kennt. Lagði hann til dæmis blöð jurtarinnar á blæðandi sár með góðum árangri að því er heimildir herma, og einnig þurrkaði hann og muldi jurtina og gaf fólki gegn blóðnösum og höfuðverk.8 Hin ítalskættaða ekkjudrottning Frakka, Katarina af Medici, naut til dæmis góðs af jurtinni. Hún þjáðist af höfuðverkjum og leitaði þá til Nicot sem muldi þurrkuð tóbaksblöð og lét drottinguna taka tóbaksduftið í nefið, því leiðin gegnum nefið var á þessum tíma álitin hin náttúrulega leið til höfuðsins – og heilans!9. Drottningin mun víst hafa fengið hressilegt hnerrakast við þetta en það var litið á það sem merki þess að þannig hreinsaðist burt sú óværa sem sársaukanum olli.10 Nútímalæknavísindi voru á þessum tíma á barnsskónum og því vöktu nýjar lækningajurtir og lyf mikla athygli þótt ýmsar tilraunir á þessu sviði orkuðu vissulega tvímælis. Samt er það svo að ýmis þessi læknisráð hafa varðveist allt til okkar daga, meir að segja hér á Íslandi. Í svörum við spurningaskrá þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins nr. 92 um tóbakshætti11 ber mörgum heimildamönnum þannig saman um að neftóbak hafi verið notað gegn ýmsum kvillum. Þeir þekktu til sömu læknisráðanna og gefin voru suður í Evrópu um 1700 svo sem þau að neftóbak átti að bæta sjón, lækna blóðnasir og sótthreinsa sár. Margir heimildamenn þekktu einnig til þess að bragðbæta neftóbakið með konjaki eða öðru bragðmiklu áfengi til að halda því mjúku og fá góðan keim, líkt og tíðkaðist snemma í Evróu.
Athyglisvert er að notkun neftóbaks í Evrópu varð til löngu á undan því er menn fóru að reykja tóbak í pípum eða vefja tóbakslauf í vindla og reykja. Það var hinn enski sir Walter Raleigh sem fyrst er talinn hafa reykt tóbak í reykjarpípu, sams konar þeim sem indjánar notuðu í Ameríku. Þetta mun hafa verið rétt um aldamótin 160012 og hafði því neftóbakið haft betur í nær 100 ár í samkeppninni við reyktóbakið. Framleiðsla efnisins tók jafnframt miklum framförum í tímans rás. Farið var að bragðbæta tóbakið með ýmsum þekktum ilmefnum svo sem lavandel, jasmin, kamfúru og fleiru,13 það var meðhöndlað á ýmsa vegu þannig tóbakið gat verið bæði þurrt eða rakt, allt eftir óskum hvers og eins. Vel framleitt neftóbak var eðli málsins samkvæmt dýrara og eftirsótt af aðlinum og hinum efnameiri og mun aðalskonum Evrópu átjándu aldarinnar hafa þótt neftóbak mjög eftirsóknarverð vara ekki síður en körlunum.14 Á 19. öldinni fór svo að draga úr neftóbaksnotkun, einkum vegna aukinnar þekkingar á hreinlæti, á meðan pípu- og vindlareykingar héldu velli. Í flestum löndum Evrópu lagðist neftóbaksnotkun almennt af allt fram á 20. öldina, þó með þeirri undantekningu að á Íslandi, - eitt örfárra landa – hélt neftóbaksnotkun velli og hefur neftóbak verið notað samfellt hérlendis allt frá því það barst til landsins.15 Sem dæmi um þetta nefnir Bo Bramsen, höfundur bókarinnar Nordiske snusdåser, að gestum sendiráðanna í Kaupmannahöfn hafi almennt verið boðnir vindlar í veislum um miðja síðustu öld en ekki í því íslenska þar sem kurteisi þótti að bjóða upp á neftóbak.16
Ófrávíkjanlegur fylgihlutur neftóbaksnotkunarinnar var vasaklúturinn. Á 19. öld notuðu menn knipplingavasaklúta sem þeir földu uppi í erminni en fljótlega gerðust Englendingar öllu praktískari og hófu framleiðslu á litríkum og efnismiklum vasaklútum sem gegndu hlutverki sínu mun betur.17 Það var nauðsynlegt að geta snýtt sér rækilega þegar tóbakið fór að leka úr nösunum og margir íslensku heimildamannanna geta sérstaklega um svo kallaðar hreppsstjórasnýtur, þegar menn snýttu sér hátt og mikið samfara neftóbaksnotkuninni.18
En það var ekki bara nauðsynlegt að hafa tóbaksklútana tiltæka því auðvitað urðu ílát undir tóbakið að vera til staðar og þar var oftast lagt mikið í útlit þeirra og gerð eins og glöggt má sjá á grip ágústmánaðar. Í fyrrnefndri heimild sem hér er aðallega stuðst við, Nordiske snusdåser, er gerð ítarleg grein fyrir gerð og uppruna hundruða evrópskra neftóbaksíláta frá ýmsum tímabilum.19 Þar kemur fram að algengastar voru tóbaksdósir úr silfri eða silfurslegnar tóbaksdósir úr tré, horni eða beini. Nýlenduveldi Evrópu höfðu greiðan aðgang að silfri og voru því snemma framleiddar mjög fjölbreytilegar og fagurlega skreyttar og útskornar neftóbaksdósir úr því efni. Jafnvel þekktist að framleiddar voru litlar glerflöskur fyrir neftóbak, Schmalzlerglaseln,20 í Bæjaralandi Þýskalands sem voru notaðar á sama hátt og neftóbaksponta sú sem hér er sýnd sem gripur mánaðarins í Þjóðminjasafninu. Þá var stútnum á flöskunni eða pontunni stungið í nefið og hellt upp í það og þótti mörgum sem þetta væri mun hreinlegri aðferð en sú sem var notuð þegar tóbaksdósir áttu hlut að máli. Þá þurfti ýmist að taka tóbakið úr dósunum með þumalfingri og vísifingri og bera að nefinu eða setja það í gróp á handarbakinu og soga það síðan upp í nefið þaðan.21 Undirrituð hefur séð marga ná mikilli leikni í þessu og sumar eldri dömur hef ég séð taka í nefið með miklum „elegans“.
Meðfylgjandi útskorin mynd er hluti af einni hlið treflastokks úr beyki í eigu Þjóðinjasafns Íslands (Þjms. 666) og má þar sjá menn neyta tóbaks á tvo vegu. Myndin er trúlega frá því um aldamótin 1700 og sýnir þrjá menn og tvær konur. Önnur konan er að klæða hina (brúði?) í skautbúning meðan karlarnir þrír hafa öðru að sinna. Sá lengst til vinstri er að reykja pípu en heldur þó á snýtuklút í hægri hendi, sá í miðið virðist vera almúgamaður eftir klæðnaði hans að dæma (brúðguminn?) og hellir hann víni (?) í krús, en sá lengst til hægri hellir úr neftóbakspontu á handarbakið. Treflastokkur þessi sem myndin prýðir kom til safnsins árið 1868. Hann gefur okkur ekki bara skemmtilega mynd af tóbaksathöfnum karlanna, heldur líka háttum fólksins og klæðnaði og það er einmitt út frá klæðnaði karlanna sem tímasetja má myndina sem næst aldamótunum 1700. Í Sarpi, gagnasafni, má lesa nánari og afar skemmtilega lýsingu á þessum grip sem skráð var í aðfangabók Þjóðminjasafnsins við komu hans í safnið.22
Þótt neftóbaksnotkun á Íslandi hafi aldrei horfið algjörlega á kostnað reyktóbaksins eins og í öðrum löndum Evrópu, hafa venjur samfara notkun þess breyst mikið. Til skamms tíma voru það aðallega rosknir menn sem tóku í nefið auk einstakra kvenna, en hin síðari ár hefur neftóbak orðið talsvert algengt meðal ungs fólks. Á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð, jókst neysla neftóbaks mjög mikið upp úr 1970 og var það þá aðallega notað sem munntóbak. Gera má ráð fyrir að aukin munntóbaksnotkun íslenskra ungmenna hin síðari ár sé einkum þaðan komin, þótt lítið virðist vera lagt í gerð neftóbaksumbúðanna í dag. Framtíðin ein mun skera úr um það hvort neftóbakið haldi áfram velli á Íslandi - og hvort tóbaksílátin nái aftur þeim fagurfræðilega sessi sem áður tíðkaðist.
Að lokum er fólki bent á meðfylgjandi heimildir til frekari fróðleiks, einkum bók Þórs Magnússonar, Íslenzk silfursmíð, þar sem sérstaklega er fjallað um íslenskar silfurtóbaksdósir.
Gróa Finnsdóttir
Helstu heimildir:
Bramsen, Bo. (1965). Nordiske snusdåser på europæisk baggrund. Kaupmannahöfn : Politikens forlag.
Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn: sarpur.is
Þór Magnússon. (2013). Íslenzk silfursmíð, fyrra bindi. Reykjavík : Þjóðminjasafn Íslands.
1) Bramsen, Bo, bls. 197.
2) Bramsen, Bo, bls. 197.
3) Þór Magnússon, bls. 329.
4) Þór Magnússon, bls. 330.
5) Sarpur: https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531195
6) Bramsen, Bo, bls. 13.
7) Bramsen, Bo, bls. 14.
8) Bramsen, Bo, bls. 14.
9) Bramsen, Bo, bls. 15.
10) Bramsen, Bo, bls. 16.
11) Sarpur: https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531195
12) Bramsen, Bo, bls. 17.
13) Bramsen, Bo, bls. 19.
14) Bramsen, Bo, bls. 147.
15) Bramsen, Bo, bls. 197.
16) Bramsen, Bo, bls. 12
17) Bramsen, Bo, bls. 20.
18) Sarpur: https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531195
19) Bramsen, Bo, bls. 201-329 og víðar í bókinni.
20) Bramsen, Bo, bls. 146.
21) Bramsen, Bo, bls. 21.
22) Sarpur: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=317179