Sólskífa
Mars 2015
Gripur marsmánaðar er sólskífa frá fyrri hluta 19. aldar frá Núpum í Ölfusi .
Þetta er trékringla með látúnsskífu þar sem markaðar eru stundir sólarhringsins. Henni er skipt í 24 geira sem síðan eru helmingaðir og þeim síðan skipt aftur til helminga. Fuglsmynd, svo kallaður „flugdreki“ er efstur á teini sem gengur upp úr skífunni og gengdi hlutverki áttavita. Sjálfur teinninn varpaði svo skugga á skífuna og sagði til um tíma dagsins.
Á sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins, Á veglausu hafi, hefur þessi litli safngripur vakið athygli listamannsins Kristins E. Hrafnssonar. Þar leitast hann við að varpa fram hugmyndum um það hvernig maðurinn hefur jafnan reynt að staðsetja sig í umhverfinu, einnig fyrir tíma nútímatækninnar. Listamaðurinn dáist að fínlegri smíð gripsins og „... hvernig hreinlega geislar af henni nákvæmnin...“
Frá örófi alda hefur mannskepnan velt fyrir sér gangi himintunglanna og því afstæða fyrirbæri sem nefnist tími. Til að mæla hann hefur fólk frá öndverðu skoðað samspil ljóss og skugga, notast við stundaglös með sandi í og búið sér til vatnsklukkur og sólskífur.
Slíkar sólskífur eða sólúr voru þekkt meðal Forngrikkja og seinna meðal stjörnufræðinga miðalda en voru ekki í almennri notkun. Í Evrópu miðaði almenningur tímann fremur við klukknahringingar frá kaþólskum kirkjum og klaustrum þegar hringt var til tíða eða bænahalds. Á Íslandi kenndi hins vegar Björn Halldórsson í Sauðlauksdal íslenskum bónda að búa sér til sólskífu á 18. öld og fylgdu eftirfarandi leiðbeiningar með ásamt skýringarmynd:
„Viljir þú gjöra þér sólskífu þá settu hana fyrst fasta niður, sirklaðu á henni hringa [...] og set þú lítinn prjón eða vísi í miðpunktinn; ei má vísirinn boginn vera. Sittu yfir skífunni um hádegisbilið þar sem skugginn er stystur, þar hefur þú norður fundið. Þar dregur þú línu í gegnum miðpunktinn, yfir þvera sólskífuna og þar beint frá norðri: þar er suður. Mitt á milli norðurs og suðurs til hægri handar er austur en til vinstri handar vestur þegar þú horfir í norður. Þar eftir getur þú mælt og sirklað sundur hinar aðgreiningarnar, sem þú sérð hérna fyrir þér. “ (Árni Björnsson 1994, bls. 104)
Sýningin í Bogasalnum, þar sem sólskífuna frá Núpum er að finna, stendur yfir til 10. maí 2015.
Gróa Finnsdóttir
Heimildir:
Árni Björnsson. (1994). Sólskífa. Í Árni Björnsson (ritstj.) Gersemar og þarfaþing, bls. 104-105. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
Kristinn E. Hrafnsson. (2015). Á veglausu hafi. Rit Þjóðminjasafns Íslands 35. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
Sarpur.is – munaskrá Þjóðminjasafns Íslands: nr. 5896 – Sólskífa.