Spiladós Péturs Péturssonar biskups
Október 2014
Gripur októbermánaðar 2014 er spiladós í fagurlega smíðuðum, póleruðum kassa úr laufviðið. Spiladósin er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands og ber safnnúmerið Þjms. Listiðnaðarsafn-9. Hún er 50 cm löng, 23 cm breið og 15 cm há. Kassinn er með tvöföldu loki og í honum tvö hólf fyrir lykilinn og með stillitökkum. Á málmplötu með framleiðslunúmeri kemur fram framleiðsluárið: 1855 eða 1856. Á lokinu er innlögð mynd af páfugli á á grein, sem umkringd er línum og sveig af safamiklu laufskrúð.
Í líki mandólínhljóma spilar dósin átta ólík stef; þar á meðal úr óperunum Il Trovatore eftir Verdi og Ástardrykknum eftir Donizetti. Dósin var framleidd á umbreytingartíma í framleiðslu spiladósa: rauður rósaviðurinn að innanverðu og vélbúnaður sem nýtir skreppu- eða hakastöng er dæmigerður fyrir þriðja tímaskeiðið í sögu spiladósa (1855-1870). Fyrir þann tíma hafði driffjöðurslykill verið notaður í stað hakastangar.
Spiladósin er merkt vörumerkinu Ducommun-Girod í Genf, sem er eitt virtasta sinnar tegundar.
Spiladósir eru mismunandi gerðar en sú sem hér um ræðir er af gerðinni „cartel“ en þessi gerð af vélbúnaði var upphaflega sett í fótstykki á gæða klukkum með sama nafni. Fjöðrin er trekkt upp með skreppustönginnni og við það snýst hólkurinn, alsettur litlum nálum, og plokkar í meira en 160 mislangar tungur sem mynda einstæðan kamb. Hvor hringrás hólksins spilar tvær aríur og hnappurinn sem skiptir á milli laga snýr hólknum til hliðar og samhliða nálunum sem grípa í tennurnar. Allur tæknibúnaðurinn er úr messing eða stáli og varinn með glerloki. Í kassanum eru notkunarleiðbeiningar og handskrifaður lagalisti.
En hvernig barst þessi evrópski tískugripur til Íslands? Sumarið 1856 heimsótti Jerome Napoleon prins, bróðursonur Napoleons I, Ísland á skipi ásamt tónlistarmönnum, ljósmyndurum og vísindamönnum. Hann færði Pétri Péturssyni, sem á þeim tíma var einn valdamesti maður Íslands bæði í stjórnmálum og trúmálum, spiladósina að gjöf. Árið 1856 var hann fulltrúi konungs á ný endurreistu alþingi og fulltrúi í sveitarstjórn Reykjavíkurbæjar. Áratug síðar varð hann biskup yfir íslensku þjóðkirkjunni. Spiladósin var enn verðmætari gjöf vegna þess að möguleikar til skemmtanahalds voru takmarkaðir á Íslandi, og því engin tækifæri til að hlíða á tónlist. Auk þess er líklegt að spiladósin hafi verið sérpöntuð ef haft er í huga hve mikið er lagt í gerð hennar. Eigandi spiladósarinnar í byrjun 20. aldar Elínborg Thorberg, dóttir Péturs, sem búsett var í Kaupmannahöfn kom með hana til viðgerðar til Matthíasar Þórðarsonar nemanda við Kaupmannahafnarháskóla. Matthías, sem síðar varð þjóðminjavörður til 40 ára gerði við spiladósina. Sem þakklætisvott arfleiddi Elínborg safnið að gripnum árið 1925. Eins og Matthías benti á þegar safnið eignaðist dósina er hún í mjög góðu ástandi og einstakur hlutur á Íslandi.
Önnur spiladós Þjms. 1972-32 er til í sýnis í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins á þriðju hæð. Ásthildur Thorsteinsson keypti hana af dönskum tækjasala árið 1890 og gaf hana manni sínum, Pétri J. Thorsteinssyni, í afmælisgjöf. Hún er mun einfaldari að allri gerð en spiladós Péturs Péturssonar, sem hér hefur verið fjallað um. Sú var gripur mánaðarins í apríl 2013.
Í febrúar árið 1796 var greint frá því í skrám Listafélags Genfar í Sviss að úrsmiður að nafni Antoine Favre hefði kynnt nýja uppgötvun sína „kirkjuklukkur án bjöllu eða kólfs“, sem komið væri fyrir í vasaúrum. Hugmynd Favre, sem byggði á vélrænu tónkerfi flautuleikara frá Flanders á 14. öld, var að skipta út bjöllum í slagverki klukku með stálkambi með mörgum forstilltum málmtungum þannig að hver tunga gæfi tiltekin tón. Aðferðin við að koma tónum þannig fyrir í hlutum hafði lengi þekkst, t.d. í lírukössum og klukknaspili. Afraksturinn var sá að Antoine Favre fann upp fyrstu vélrænu spiladósina. Uppfinning hans grundvallaðist á því að flatur diskur með broddum hreyfði við kambi með tungum. Búnaðurinn breyttist hins vegar fljótlega í tæki, sem hreyfir stilltar stáltungur með nálum á snúanlegum valsi eða plötu. Þannig varð spiladósin eins og við þekkjum hana í dag til.
Fyrstu spiladósirnar voru að fullu gerðar af sjálfstæðum handverksmönnum og voru felldar inn í tóbaksdósir, skartgripaúr, hringi eða sjálfvirkar vélar. Spiladósir voru fljótt fáanlegar í alls kyns stærðum allt frá smáum færanlegum hlutum uppí mjög stóra, sem voru á stærð við húsgöng. Þær voru mjög vinsælt tæki meðal borgarastéttarinnar í nær öld frá 1810 og fram að byrjun 20. aldar, þegar sjálfspilandi píanó og fyrstu plötuspilararnir ýttu spiladósunum til hliðar. Þetta var eina leiðin til að hlusta á tónlist án þess að kunna sjálfur að spila hana. Framleiðendur spiladósa söfnuðust saman í kantónuna Vaud, vöggu vélrænnar tónlistar í Vestur Sviss, alveg við landamæri Frakklands. Svissnesku spiladósirnar voru þær fyrstu sem voru fjöldaframleiddar, aðallega vegna stöðu þjóðarinnar í framleiðslu á úrum, og það í slíku magni að við lok 19 aldar voru spiladósir stór hluti af útflutningi Sviss.
Sébastien Marrec
Sérstakar þakkir til Phillipe Corbin, safnstjóra Musée Musique Mécanique í Dollon, Frakklandi og Musée Baud. Automates, boîtes à musique, orchestrions, Swiss.
Þýðing: Inga Lára Baldvinsdóttir