Steindur söðull og skartreiði frá Krossavík
JÚLÍ 2018
Þjms. 3418 og 3419.
Í Þjóðminjasafni Íslands er varðveittur fjöldi gripa sem tengjast hestinum. Kvensöðlar eru þar fyrirferðarmiklir. Þeir elstu eru frá 17. öldinni. Einkenni eldri kvensöðla eru að sætið snýr þvert á stefnu hestsins. Þessi gerð er nefnd bríkarsöðlar eða hellusöðlar. Bríkurnar, umgjörðin um sætið, eru settar málmþynnum, skjöldum eða skreyttar og brúnir bryddaðar látúnsþynnum. Það var vart á færi nema efnafólks að eiga skreytt reiðver. Íburðurinn gefur til kynna þjóðfélagsstöðu eigendanna.
Söðullinn frá Krossavík í Vopnafirði sker sig frá öðrum söðlum í Þjóðminjasafni Íslands. Bríkurnar eru klæddar máluðu leðri sem í er stansað munstur. Hann er að líkindum eini varðveitti steindi söðullinn á landinu, en í fornum sögum er bæði talað um smellta söðla og steinda. Lýsingarorðið steindur merkir málaður og í lýsingu sinni á söðlinum skrifaði Sigurður Vigfússon forstöðumaður Forngripasafnins árið 1890 eftir að hann hafði keypt til safnsins ofantalda tvo gripi: „er hann allr utann yfirklæddr með því dyra Spansku leðri sem kallað var, enn sem nú er ekki búið til lengr, það var alt með upphleyptum gylltum rósum, og með ymsum litum... engan söðul hefi ég séð með því áðr...“ (Þjms. 3418).
Reiðinn er íburðarmikill með 27 skreyttum stokkum og spennum. Stofninn er úr tvískiptri ól. Á henni miðri er reiðakúlan með drifnu munstri og spaðar til beggja hliða. Út frá miðjuólinni eru tvær ólar beggja megin sem mynda þríhyrning og náraslettur settar gröfnum stokkum eru til beggja átta aftan við reiðakúluna. Náraslettur löfðu niður eftir lendum reiðskjótans beggja megin og hafa líklega leitt til þess að efla vilja hans. Skrautbúnaður á reiðverum hafði ekki aðra þýðingu en þá að vera til prýði. Um stokkana á reiðanum segir Sigurður: „allt er þetta með allgóðum og líflegum rósum, og er það merkilegt hvað þetta verk hefir staðið á töluvert háu stigi á 17 og 18 öld, eins og eg hefi opt áðr tekið fram...“ (Þjms. 3419).
Sigurður hafði áhuga á málm- og silfursmíðum enda silfursmiður sjálfur.
Vel var búið í Krossavík og en þar sat Guðmundur Pétursson sýslumaður (f. 1748 d. 1811). Guðmundur var stórættaður og reiðtygi þessi gæti hann hafa keypt handa annarri hvorri sinna kvenna, sem báðar hétu Þórunn. Sú fyrri var Pálsdóttir en seinni Guttormsdóttir.
Söðlar með þessu eldra lagi duttu úr notkun fyrir eða um miðja 19. öld þegar svonefndir enskir söðlar komu til sögunnar. Ekki hefur verið auðvelt að sitja hest og snúa þvert á þá átt sem riðið var með samsíða fæturna á fótafjölinni.
Í Þjóðminjasafninu er margt góðra gripa frá Krossavík og eru nokkrir þeirra úr silfri enda talað um Krossavíkursilfrið.
Lilja Árnadóttir
Heimildir:
Sigríður Sigurðardóttir (2018). Reiðtygjaprýði. Í Prýðileg reiðtygi. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
Sarpur.is