Sundföt
JÚLÍ 2019
Þjms. 1991-58-3
Þjms. 1991-28-8
Þjms. 1991-28-9
Gripur/gripir mánaðarins í júlí eru sundbolir. Það er vel við hæfi þar sem fólk iðkar trúlega sund meira í þessum hlýjasta mánuði ársins en í annan tíma.
Fyrir valinu urðu þrír mismunandi sundbolir, allir frá svipuðum tíma. Sá elsti (Þjms. 1991-58-3) er frá árunum milli 1930-1938. Hann er dökkblár og appelsínugulur, úr ull, með hvítum, bláum og appelsínugulum bekkjum í mittisstað og tvöfaldur að neðan, þ.e. buxur og pils yfir. Konan (f. 1907) sem átti bolinn synti þó lítið í honum að eigin sögn, en notaði hann fremur í sólbaði.
Græni sundbolurinn (Þjms. 1991-28-8) er einnig ullarsundbolur og er frá árunum í kringum 1940-1945.
Þriðji sundbolurinn (Þjms. 1991-28-9) er svartur „silkisundbolur“ (rayon-). Þetta er karlmannsbolur úr eigu manns sem keppti í honum í sunddeild Glímufélagsins Ármanns um 1938-1940, þá 14 ára gamall. Hann er því mun efnisminni og þynnri en kvenbolirnir og hefur því auðsjáanlega hentað betur til sunds fremur en þessir tiltölulega þykku ullarkvenbolir.
Örar breytingar urðu síðan á sundfatatískunni upp úr seinni heimstyrjöldinni með tilkomu gerviefna og almennrar sundkunnáttu. Samhliða því urðu sólböð algengari og mjög eftirsóknarvert varð hvítu fólki að fá á sig brúnan hörundslit, öfugt við það sem áður tíðkaðist, þegar fínar dömur notuðu ýmis ráð til að forðast sólina, s.s. með sólhlífum og sólhöttum. Í kringum 1960 fór sífellt meira að bera á bikinisundfötum og áttu þekktar leikkonur eins og Brigitte Bardot, Raquel Welch og Ursula Andress sinn þátt í því að gera þessi tvískiptu sundföt vinsæl.1 Sundfatatískunni var síðan haldið mjög á lofti eftir tilkomu fegurðarsamkeppna upp úr 1950, allt fram á okkar daga, þótt slíkur fatnaður hafi oft hentað fremur illa til sunds. Í dag er þó hægt að fá sundfatnað sem er sérstaklega hannaður til sundiðkunar og æ fleiri stunda sund, bæði í keppnum og til heilsubótar.
Íslendingar búa við þann munað að geta baðað sig og æft sund á öllum tímum ársins og í hvaða veðri sem er þökk sé heitum uppsprettulindum landsins. Öll þekkjum við til Snorralaugar í Reykholti sem Snorri Sturluson mun hafa baðað sig í milli ritstarfanna, þótt trauðla muni honum hafa tekist að synda í þeirri laug. Óvíst er hversu mikla sundkunnáttu frumbyggjar landsins höfðu á valdi sínu þótt ýmsar fornsögur greini frá frægum sundafrekum bæði karla og kvenna. Þar nægir að nefna sund Grettis Ásmundarsonar úr Drangey sem greint er frá í Grettissögu og sundi Helgu Haraldsdóttur úr Geirshólma í Hvalfirði til lands, í Harðar sögu og Hólmverja. Það er því ljóst að sundkunnátta fornmanna hefur verið nokkur og tekur Jónas Hallgrímsson svo djúpt í árinni að segja að þeir hafi verið „...fullnuma í þessari kunnáttu”2 í formála bókarinnar Sund-reglur prófessors Nachtegalls sem Fjölnismenn gáfu út árið 1836. Eftir það virðist þó sem sundkunnáttu landsmanna hafi hrakað verulega:
“Enn það fór með sundið okkar Íslendínga einsog annað; þegar deifðin kom í þjóðina, tíndist sú ment, og það er varla ofhermt, að
firir 14 eða 15 árum, hafi ekki verið fleiri enn sosem 6 menn á öllu landinu, sem væru sjálfbjarga, ef þeir lentu í polli, sem þeir náðu
ekki niðr' í.”3
Langur tími leið þó þangað til sundkennsla varð almenn á Íslandi en fyrst er vitað um eins konar sundskyldu í Vestmannaeyjum árið 1880 og Sundfélag Reykjavíkur var stofnað 1884.4 Fór kennslan þá fram í köldum sundpollum eða sjó. Það var því ekki fyrr en árið 1940 sem sundskyldu var komið á í landinu með íþróttalögum5 og allar götur síðan hefur hvert mannsbarn á Íslandi lært að synda samfara skólagöngu sinni.
Árið 1951 efndu Norðurlandaþjóðirnar til norrænnar sundkeppni þar sem markmiðið var að fá sem flesta landsmenn til að synda 200 metra. Keppnin var fyrst haldin 1951 og endurtekin á þriggja ára fresti, oftast með yfirburðasigri Íslendinga.6 Þó varð oft ósætti milli þjóðanna um framkvæmd keppninnar og svo fór að hún var að lokum lögð niður árið 1984.7
Í dag eru fáar þjóðir sem geta státað sig af jafn mikilli og almennri sundkunnáttu og Íslendingar og er þá ekki spurt um hvaða sundfatnaður er notaður, þar ríkir algjört frjálsræði...
Gróa Finnsdóttir
Heimildir:
Ingimar Jónsson. (2004). Íþróttir og líkamsmenning. Frá glímu og sundi í golf og blak. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni, bls. 362-371. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
Jónas Hallgrímsson. (1836). Formáli. Í Sund-reglur prófessors Nactegalls auknar og lagaðar eptir Íslanns þörfum af útgjefendum Fjölnis, bls. v-vi. Kaupmannahöfn: P.N. Jörgensen, 1836.
Sarpur.is
Stefán Pálsson. (2018, 17. júní). Beygja, kreppa, sundur, saman. Vísir (vefslóð: https://www.visir.is/g/2018180619130).
Wikipedia. Bikini. Vefslóð: https://en.wikipedia.org/wiki/Bikini
1) Wikipedia. Bikini.
2) Jónas Hallgrímsson, bls. v-vi.
3) Jónas Hallgrímsson, bls. v-vi.
4) Ingimar Jónsson, bls. 365.
5) Ingimar Jónsson, bls. 366.
6) Stefán Pálsson.
7) Stefán Pálsson.