Útvarp
DESEMBER 2020
„Útvarpið hefur að þessu leyti þur[r]kað burt allar fjarlægðir á jörðinni. Hvar sem maður er staddur, á skipi í reginhafi, í afdalakoti á Íslandi, eða jafnvel á vegum úti, getur hann numið raddir og hljóma og hlustað eftir fregnum og nýjungum frá fjarlægustu löndum.“
Þarna skrifar Helgi Hjörvar í Útvarpsárbók árið 1930. Ljóst er af skrifum hans að útvarpið hefur þótt mikil tækninýjung á sínum tíma sem auðveldaði miðlun upplýsinga og boðskipti manna á milli. Það var ekki fyrr en um þetta leyti að útvarpstæki, ásamt öðrum raftækjum sem okkur þykja sjálfsögð í dag, urðu fyrst að almenningseign. Útvarpið hér að ofan er af árgerð 1934, framleitt af Philips og gefið Þjóðminjasafni Íslands árið 2004 af Sigurði Guðmundssyni á Bræðraborgarstíg. Það er nú til sýnis á grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til.
Það var við lok 19. aldar sem ítalski uppfinningamaðurinn og rafmagnsverk-fræðingurinn Guglielmo Marconi fann upp útvarpið eins og við þekkjum það í dag. Þó áttu aðrir vísindamenn mikilvægan þátt í að þróa tæknina á bakvið það um áratuga skeið, þar á meðal Heinrich Rudolph Hertz og Nikola Tesla.
Um aldarfjórðungi eftir uppfinningu þessa nýja tækis tóku Íslendingar að sýna tækninni áhuga. Þegar kom að því að flytja útvarpið til Íslands var tekist á um hvort það ætti að vera ríkisrekið eða leyfa ætti einkafyrirtæki að sjá um reksturinn. Með því að hafa ríkisrekið útvarp væri hægt að tryggja öllum jafnan aðgang að því, nýta það til að efla menningu í landinu og tryggja öryggi sjómanna. En svo fór að frumvarp um sérleyfi fyrir útvarpsrekstri var samþykkt á Alþingi. Sérleyfið fékk hlutafélagið H.F. Útvarp og hóf það formlega útsendingar í mars 1926. Þá voru aðeins um 200 útvarpstæki á landinu öllu. Afnotagjaldið reyndist hins vegar dýrt og fáir höfðu efni á því. Svo fór að fyrirtækið hætti útsendingum tveimur árum síðar.
Í mars 1928 samþykkti Alþingi frumvarp til laga „um ríkisrekstur víðvarps“. Á þeim tíma var orðið víðvarp algengt, en víðboð einnig notað og jafnvel rafeyra, en í hinum nýsamþykktu lögum var ákveðið að nota orðið útvarp þar sem það þótti viðfelldnara en víðvarp. Fyrsta útsending Ríkisútvarpsins var þann 20. desember 1930 en formleg dagskrá þess hófst daginn eftir. Útvarpstækin urðu þá á örfáum árum afar vinsæl og í grein í tímaritinu Skírni frá 1934 segir að Ríkisútvarpið hafi þá þegar verið orðið „einn aðalþátturinn í menningarstarfsemi þjóðarinnar.“ Voru útvarpstækin þá orðin hátt í níu þúsund á landinu og hlustendur um 25% þjóðarinnar þegar best lét.
Fyrir mörgum Íslendingum tengist útvarpið jólahaldi órjúfanlegum böndum. Nú berst ómur Dómkirkjuklukknanna í Reykjavík inn á heimili um allt land á slaginu 18:00 á aðfangadag og boðar komu jólanna. Á aðfangadag 1930 var messa frá Dómkirkjunni í Reykjavík klukkan 18 það eina sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins og er jólamessan eini dagskrárliðurinn sem haldist hefur óbreyttur fram til dagsins í dag. Vinsælasti dagskrárliðurinn í íslensku útvarpi í dag er hins vegar þögnin sem ríkir síðustu fimmtán mínúturnar á Rás 1 áður en jólin eru hringd inn, en hátt í fjórðungur þjóðarinnar hlustar á þessar þöglu mínútur. Einnig þykir mörgum ómissandi að hlusta á jóla- og nýárskveðjurnar sem sendar eru út að kvöldi 22. desember og alla Þorláksmessu ár hvert. Útsending þeirra hófst, að danskri fyrirmynd, um jólin 1932. Fyrst um sinn voru þær aðallega sendar sjómönnum á hafi úti eða annarra sem þurftu að dvelja fjarri fjölskyldu sinni. Áratugina á eftir margfaldaðist fjöldi jólakveðjanna en auk einstaklinga tóku fyrirtæki að senda kveðjur á síðustu áratugum 20. aldar.
Karólína Þórsdóttir
Heimildir:
https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=325905
https://timarit.is/page/4655082?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/%C3%BAtvarp%20almenningseign
https://www.ruv.is/i-umraedunni/hatidardagskra-ruv
https://timarit.is/page/4984369?iabr=on#page/n17/mode/2up/search/r%C3%ADkis%C3%BAtvarpi%C3%B0
Útvarp Reykjavík. Saga Ríkisútvarpsins 1930 – 1960, Gunnar Stefánsson, Sögufélag, 1997.
Saga jólanna, Árni Björnsson, Tindur, 2006.