Verskrína undan Eyjafjöllum
Febrúar 2017
Verskrínan er frá Eyvindarholti undir Eyjafjöllum og afhenti Þórður Tómasson í Skógum Þjóðminjasafninu hana að gjöf árið 1958. Þetta er hefðbundin skrína úr furu, fest saman með trénöglum, loki á hjörum og læsingu að framan. Hæð 42 sm, lengd 67 sm og breidd 25 sm. Á báðum göflum er handfang sem breikkar um miðju og þar á kringlótt gat, sem hægt hefur verið að þræða í grannan kaðal til þess að geta borið skrínuna á bakinu. Verskrínan er frá 19. öld og var í eigu Ólafs Ólafssonar bónda í Eyvindarholti.
Í þúsund ár reru Íslendingar til fiskjar á litlum trébátum sem mest megnis voru knúnir áfram með handafli, þ.e. árum, en einnig seglum. Fiskveiðar á opnum bátum voru stundaðar árið um kring en lítið sem ekkert á sumrin þegar sveitirnar þurftu á sem mestu vinnuafli að halda. Skrínur sem þessar höfðu menn með sér að heiman í verstöðina, en þar var búið í kofum úr torfi og grjóti sem kölluðust verbúðir og höfðu margar þeirra hlóðir til að sjóða á fisk. Flestur annar matur var tekinn með að heiman og borðaður kaldur, þ.e. kindakæfa, smjör, tólg, mör, rúgbrauð, harðfiskur og mjólkursýra. Á síðari hluta 19. aldar var farið að nota kaffi. Sérstakt ílát var haft undir smjör og kæfu sem kallað var skrína eða verskrína. Hverjum manni var ætlaður ákveðinn skammtur til einnar vertíðar samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum, sem gátu verið nokkuð mismunandi eftir stöðum. Skammturinn gat t.d. verið um 30 – 35 kíló af kæfu og álíka af smjöri. Fiskimenn tóku ekki nesti með sér á sjóinn og var því allur matur snæddur í landi.
Vertíðir voru á nokkuð mismunandi tímum eftir landshlutum og fór það einkum eftir fiskigöngum. Þorskurinn kom að Suðurströndinni til hrygningar og gekk síðan sólarsinnis umhverfis landið, en hann var helsti nytjafiskur landsmanna. Vetrarvertíð byrjaði þannig fyrst á Suðurnesjum eða í Gullbringusýslu og hófst 25. janúar en var seinna flutt til 3. febrúar og stóð í 14 vikur.
Ýmist var róið úr heimahöfn eða s.k. útverum, en þá var farið á fjarlæga staði þar sem stutt var á miðin. Algengt var að menn ferðuðust í aðra landshluta til þess að komast í verstöð og gátu lengstu ferðirnar tekið um 12 daga. Þjóðsögur hafa myndast um slíkar ferðir sem stundum gátu verið mjög erfiðar og jafnvel hættulegar. Mest var sótt í verstöðvar á Suður- og Vesturlandi.
Ágúst Ólafur Georgsson
Heimildir:
Ágúst Ólafur Georgsson. 2004. Sjósókn og siglingar. Í Hlutavelta tímans, bls. 183-193. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
Jón Árnason. 1954-1961. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II og VI. Reykjavík: Þjóðsaga.
Lúðvík Kristjánsson. 1982. Íslenzkir sjávarhættir II. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Sarpur.is: Þjms. 1959-127.