Jólasiðir

Jólatré

Í jólahaldi nútímans gegna jólatrén mikilvægu hlutverki og skipa gjarnan veigamikinn hátíðarsess í stofum landsmanna en stór hluti jólahaldsins fer einmitt fram við jólatréð. Undir jólatrénu eru gjafirnar yfirleitt geymdar og safnast því fjölskyldur þar saman á aðfangadagskvöld til þess að taka þær upp. Á jólaböllum er það jólatréð sem er í miðju salarins og í kringum það er dansað. Þegar aðventan gengur í garð fer fyrst að bera á jólatrám á opinberum stöðum, búðum og vinnustöðum.

Oft eru þessi tré utandyra og eru gjarnan skreytt marglitum ljósum og stundum skrauti. Á hverju ári síðan 1952 hefur stórt og fallegt jólatré verið sett upp á Austurvelli sem Reykvíkingar hafa fengið að gjöf frá Óslóarborg. Það er hátíðleg stund þegar ljósin eru tendruð á jólatrénu við Austurvöll í byrjun desember og safnast borgarbúar þar gjarnan saman til að taka þátt í hátíðarhöldunum og sjá jólaljósin kvikna. Þrátt fyrir að skreytt jólatré fari að sjást víða strax í byrjun aðventunnar er það yfirleitt ekki fyrr en jólahátíðin er við það að ganga í garð að fólk setur upp jólatré á heimilum sínum. Algengast er að fjölskyldur skreyti jólatré sín á Þorláksmessu, daginn fyrir aðfangadag, þegar undirbúningur fyrir jólin er í hámarki. Þannig markar skreyting jólatrésins í raun upphafið að hátíðleikanum sem jólunum fylgir því það er gjarnan lokahnykkur jólaundirbúnings á heimilum og þegar ljósin hafa verið tendruð á jólatrénu má jólahátíðin loksins ganga í garð.

Þar sem jólatrén gegna svo mikilvægu hlutverki í jólahaldi nútímamanna getur verið undarlegt til þess að hugsa að líkt og með annað jólaskraut er þessi hefð alls ekki svo gömul, hvorki hér á landi né annars staðar. Reyndar þekktist það að Rómverjar til forna skreyttu gjarnan híbýli sín með grænum greinum í skammdeginu en jólatrén sem slík komu ekki til sögunnar fyrr en í Þýskalandi á seinni hluta 16. aldar. Líklegt þykir að þessi siður hafi komið í kjölfar siðaskiptanna þar sem ekki þótti lengur við hæfi að notast við kaþólska jólasiði á borð við að setja upp Betlehemsjötu eða jólajötu. 


Jólatréð breiddist því fyrst út meðal mótmælenda en í upphafi var það aðeins hefðarfólk sem setti upp jólatré og setti jafnvel lifandi kertaljós á greinar þess. Það var ekki fyrr en á 19. öld að jólatrén fóru að breiðast út meðal almennings í Evrópu og það er þá sem þau fara fyrst að sjást á Norðurlöndum. Um miðja 19. öldina sjást fyrstu jólatrén á Íslandi og var það aðallega meðal danskra kaupmanna og íslenskra embættismanna sem höfðu kynnst þeim í Kaupmannahöfn. Í upphafi voru jólatrén hér á landi heimasmíðuð því ekki uxu hér villt grenitré. Þessi heimatilbúnu jólatré voru oft gerð úr staur og spýtum og voru stundum græn- eða rauðmáluð. Á þeim voru gjarnan lifandi kerti sem brædd voru föst við tréð. Einnig var oft reynt að skreyta það á einhvern hátt, t.d. með lyngi ef annað skraut var ekki tiltækt. Það var svo ekki fyrr en um miðja 20. öldina að lifandi grenitré fóru að verða almenn hér á landi. Í fyrstu voru þau innflutt en það var ekki á færi allra að festa kaup á slíkum trjám og voru því heimasmíðuðu jólatrén enn víða notuð fram eftir öldinni. Í kringum 1970 komu íslensk grenitré loks á markað og nú er svo komið að flestir kjósa að vera með lifandi grenitré skreytt jólaseríum og skrauti heima hjá sér um jólin og þykir lyktin sem kemur af lifandi greninu algerlega ómissandi í jólastemningunni. Aðrir láta sér þó nægja að setja upp margnota gervitré fyrir jólin og þurfa þá ekki að standa í því að ryksuga og sópa upp greninálar sem falla af ekta trám en mörg þessi gervitré eru ansi raunveruleg á að líta og geta líka verið mjög falleg.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.