Litabækur - Lífið í þjóðveldisbæ

  • Á kamrinum. Í fornritum sést að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa víða verið kamrar á stórbýlum sem rúmuðu marga í einu á setutrjám.

  • Stofa var vistarvera og vinnustaður kvenna, dagstofa og veisluhús. Bekkir eru meðfram veggjum og á kvenpalli fyrir gafli hafa konur spunnið og ofið. Á myndinni er kona að spinna.

  • Langeldar voru í fornum skálum fram á 12. öld. Þar er talið að matur hafi verið soðinn í stórum kötlum sem slegnir voru úr járnþynnum. Þeir héngu í hókrókum yfir eldunum en klébergsgrýtur voru hafðar til minniháttar matreiðslu.

  • Skál í kornöli! Orðið korn merkir bygg í fornum heimildum, en það var ræktað hér framan af öldum. Bygg var þurrkað, þreskt og malað og gerðar úr því ósýrðar flatkökur, grautur, eða það var notað til að brugga kornöl, mungát, sem var veisludrykkur á þeim tíma sem Stöng var í byggð.

  • Set voru meðfram langveggjum í skálum. Í þeim var setið við vinnu á daginn og sofið á nóttunni. Setbálkum var stundum lokað þannig að til urðu lokrekkjur. Svefnstaðir alþýðu voru allt fram á 19. öld hlaðnir bálkar úr torfi og grjóti með veggjum.

  • Skálinn var aðalhús bæjarins. Hér voru unnin ýmis dagleg störf, matur eldaður, matast og sofið. Hér hlýjaði fólk sér við eldana og stytti sér stundir með sögum, kveðskap og tafli.

  • Skáli með úthýsum. Stöng í Þjórsárdal á 11. – 12. öld. Til viðbótar skála (II), sem er elsti hluti hússins, eru nú komin stofa (III), kamar (V) og búr (IV).