Litabækur - Litabók Þjóðminjasafnsins

Fyrir nokkrum árum gaf Þjóðminjasafnið út litabók með teikningum eftir Sól Hrafnsdóttur. Litabókin er til sölu í safnbúðinni en hér er hægt að nálgast myndirnar úr henni og prenta þær út og lita heima.Sól teiknaði upp myndir af gripum, af málverkum, útskurði, útsaumi og fleira. Margt á myndunum er hægt að skoða á sýningu Þjóðminjasafnsins. Góða skemmtun!

  • Þetta er nokkuð sem allt fólk þurfti að eiga á öldum áður. Hvað er þetta?

  • Þetta er blómapottur. Svona munstur var oft ofið í klæði eða saumað út í klæði. Hvað í munstrinu er blóm og hvað er stiklar eða laufblöð?

  • Þetta er teikning af mynd á málverki. Konan lengst til vinstri hét Ragnheiður Jónsdóttir. Hún lét mála myndina. Löngu seinna var hún sjálf valin sem myndefni á 5.000 kr. seðilinn. Á seðlinum eru margir hlutir sem tengjast Ragnheiði og Þjóðminjasafnið varðveitir. Það getur verið gaman að skoða myndir á peningaseðlum.

  • Þetta er teikning af líkneski. Konan með kórónuna er María, við hlið hennar situr Anna, móðir Maríu, og heldur hún á Jesúbarninu. María var stundum kölluð himnadrottningin. Af hverju ætli hún hafi verið kölluð það?

  • Þessi mynd er saumuð út í rúmábreiðu. Á ábreiðunni eru margar myndir en þessi er í miðjunni. Hvað er að gerast á myndinni?

  • Þetta er teikning eftir útskurði á Valþjófsstaðahurðinni. Til viðbótar við ljónið, fálkann, riddarann og hestinn er stór, vængjaður dreki á myndinni. Hvernig ætli drekar séu á litinn?

  • Hér ríður riddarinn á Valþjófsstaðahurðinni frægu. Einu sinni var myndskurðurinn á hurðinni málaður í alls konar litum. Hvaða liti ætlar þú að velja á riddarann, ljónið, hestinn og fálkann?

  • Áður fyrr klæddist flest fólk á Íslandi heimasaumuðum skinnskóm. Þessir eru úr selskinni. Ílepparnir eru prjónaðir úr ullarbandi. Það er hægt að lita ullarband alls konar litum.

  • Þetta er teikning af bronsstyttu frá Víkingatímanum. Hún er alltaf kölluð Þór, eftir Þór þrumuguð. Kannski á þetta ekki að vera Þór. Hver gæti þetta átt að vera?