- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Afkvæmasýning á Hesti
Apríl 2013
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Magnús Óskarsson. MÓSK-400-8-65 og MÓSK-400-9-65.
Afkvæmasýningar á sauðfé hafa tíðkast allt frá þeim tíma sem farið var að rækta sauðfé á markvissan hátt hér á landi. Jafnframt fóru þá oft fram sérstakar sýningar á þeim hrútum sem vænlegastir þóttu til undaneldis. Það var Búnaðarfélag Íslands sem sá um að skipuleggja slíkar sýningar og árið 1931 voru settar fastar reglur um framkvæmd þeirra. Þær voru í fyrstu haldnar á ýmsum sveitabæjum en í dag er algengast að ráðunautar fari á hvern bæ og meti féð.
Hrútarnir þurftu til að bera mikla kosti og uppfylla ýmis skilyrði til að komast í verðlaunaflokk. Þar var tekið tilllit til fótstöðu, bringufyllingar, holdsemi baks, snoppubreiddar, þykktar og lögunar bakvöðva og mala, holdfyllingar og breiddar herða og læraþykktar þar sem æskilegt var að vöðvar væru vel bólgnir. Ullin þurfti einnig að vera mikil að magni, hrokkin, silkimjúk, gljáandi og helst hreinhvít.
Ljósmyndirnar sem hér sjást eru teknar á slíkri hrútasýningu eða öllu heldur afkvæmasýningu, nánar tiltekið á tilraunabúinu á Hesti í Borgarfirði í október árið 1964. Fyrri myndin sýnir verðlaunahrútinn Vin með nokkrum afkvæmum sínum. Hann var mikill kynbótagripur sem markaði tímamót við ræktun fjárstofnsins á Hesti, einkum hvað byggingarlag varðaði. Það sauðfé sem tilraunabúið átti á þessum árum var fjárskiptafé af Vestfjörðum, aðallega út Djúpinu og var „fremur háfætt og ekki vöðvaþykkt, en mjólkurlagið“ að því er þáverandi bústjóri á Hesti, Einar E. Gíslason, segir. Að ætterni var Vinur sæðingarlamb af þingeyskum ættum úr Kelduhverfi, undan hrútnum Merg, sem var „samanrekinn og lágfættur“. Vinur var fyrsti lambhrúturinn sem mældist með framfótarlegg sem var 114 mm og út af honum eru nú komnir allir sterkustu fjárstofnarnir á Hesti í dag.
Það var ljósmyndarinn, Magnús Óskarsson kennari við Bændaskólann á Hvanneyri, sem kom með nokkra tilvonandi útskriftarnemendur á sýninguna og halda þeir í féð. Þeir eru, taldir frá vinstri: Haukur Engilbertsson, bóndi Vatnsenda, Skorradal, Ófeigur Gestsson, sæðingarmaður, Hvanneyri, Guðjón Sigurðsson frá Skollagróf, Hrunamannahreppi, starfsmaður Hestbúsins, Eiður Hilmisson, bóndi Búlandi, Austur-Landeyjum, starfsmaður Hestbúsins, óþekktur, Ólafur Guðmundsson, starfsmaður hjá Verkfæranefnd ríkisins á Hvanneyri og seinna fóðursérfræðingur hjá RALA, Þórir Páll Guðjónsson frá Hemru í Skaftártungu, seinna kaupfélagsstjóri Kaupfélags Borgfirðinga, Borgarnesi, Kristján Axelsson, bóndi Bakkakoti, Stafholtstungum og Bjarkar Snorrason, bóndi Tóftum, Stokkseyrarhreppi, og fangavörður á Litla-Hrauni. Myndin er tekin í túninu á Hesti og í baksýn má greina uppsveitir Borgarfjarðar.
Vinur hlaut 1. verðlaun á þessari sýningu og er kostum hans og afkvæma hans m.a. þannig lýst í Búnaðarritinu (78. árg. 1965, 1. tbl.): „Vinur er mjög vel gerður hrútur. Afkvæmin eru hvít, hyrnd, ígul eða gul á haus og á fótum, með gula rófu og sveran hæfilega langan haus. Þau hafa breitt holdgróið bak, prýðilega holdfylltar malir, ágætlega holdsöm læri, djúpa lærvöðva, sterka fætur og góða fótstöðu“ (bls. 436). Eins og sjá má af þessum lýsingum og af ljósmyndinni þá hefur hrúturinn Vinur verið afar glæsileg skepna, hringhyrndur og hreint ekki árennilegur. Væntanlega hafa það því verið stoltir tilvonandi bændur sem hér sjást á mynd og fengið að kynnast þeim merku tilraunum í sauðfjárrækt sem fram fóru á Hesti, og einnig því hvernig hin harðgera íslenska sauðkind hefur þróast til einstaklega afurðamikillar skepnu í gegnum aldirnar.
Gróa Finnsdóttir