- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Bygging brúarinnar yfir Laxá í Refasveit
Mars 2012
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Geir Zoëga. GZ 180.
Atburðurinn er bygging fyrstu steinbrúarinnar yfir Laxá í Refasveit, skammt norðan við Blönduós, á veginum út til Skagastrandar. Heitir þessi staður Ámundahlaup. Brúin var byggð einhvern tíma á árunum 1924-27, nokkrum árum eftir að ljósmyndarinn sjálfur, Geir Zoëga, varð vegamálastjóri.
Lengi vel lögðu verkfræðingar Vegagerðarinnar sig í framkróka við að finna brúarstæði þar sem minnst haf væri milli brúarsporða og var brúnum oft komið fyrir nokkuð djúpt ofan í gljúfrunum og gerður vegur þar að. Brýrnar voru sjaldnast byggðar beint á stefnu vegarins, yfirleitt vegna kröfunnar um sem stysta brú, og þýddi það iðulega vinkilbeyjur inn á brúna. Aðkeyrslan að þessum brúm gat þess vegna verið býsna glæfraleg og þurftu bílstjórar að hafa sterkar taugar á veturna, sérstaklega þegar bæði brekka og beygja voru að brúnni og vegurinn einn svellbunki. Þá gat verið um 5-15 metra fall ofan í gilið ef illa færi. Á móti kom að brýrnar löguðu sig býsna vel að landslaginu og var ekki jafn mikil sjónmengun af þeim eins og seinna hefur orðið með nýrri brúm. Vegna kröfunnar um ný og hagkvæm brúarstæði voru gamlar götur og vegir oftast nær færð töluvert til svo nýta mætti brúarstæðið sem fyrir valinu varð.
Brúin yfir Laxá er járnbent steinbogabrú og var það algengasta brúarformið framan af öldinni. Ljósmyndin sýnir fyrirkomulagið við byggingu þessara steinbogabrúa skýrt og hvernig valdar eru mótstæðar klettasnasir í þröngu gljúfri, þar sem hvað styst er yfir ána. Þarna er nánast allt unnið með höndunum einum, engin lyftitæki sjáanleg, eingöngu nokkrir brúarsmiðir með handverkfæri í óða önn við að þoka verkinu áfram. Á þessum tímapunkti er líklega búið að steypa sjálfan bogann sem ber uppi brúargólfið, vinnan við að slá upp undir það hafin og komin nokkur mót fyrir stöplana. Á ljósmyndinni er sjónarhornið frekar þröngt þannig að við sjáum ekki nánasta umhverfi, til dæmis hvernig vegurinn liggur að brúnni, en ef marka má fjallið í bakgrunni sem og því að áin tekur á sig lítinn hlykk í gegnum haftið þá má reikna með töluverðum beygjum að brúnni beggja vegna frá.
Á þriðja áratugnum voru margar ár sem þangað til höfðu verið býsna torfærar, sérstaklega á veturna, brúaðar. Brýrnar voru þrátt fyrir allt tiltölulega fljótunnar, þó helgaðist það mikið af aðstæðum á hverjum stað hvernig sú vinna gekk. Mönnum kunna að virðast þessar byggingaraðferðir frumstæðar og víst er það svo séð með augum nútímamannsins. Brúin á Laxá í Refasveit hefur vafalaust verið mikil samgöngubót á sínum tíma og komið að góðum notum en er ekki lengur uppistandandi.
Þorvaldur Böðvarsson