Garðyrkjusýning Hins íslenska garðyrkjufélags 1938
September 2013
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Alfreð D. Jónsson. ADJ1-141
Hið íslenska garðyrkjufélag hélt garðyrkjusýningu í Markaðsskálanum við Ingólfsstræti í Reykjavík dagana 2. til 6. september 1938. Ingimar Sigurðsson, þáverandi formaður félagsins, sagði í ávarpi að megintilgangur sýningarinnar væri að sýna hvað hægt væri að rækta á Íslandi þrátt fyrir veðráttu, en veður hafði verið einkar slæmt þá um sumarið. Sýningin var þó ekki aðeins haldin til að kynna möguleika í ræktun á Íslandi, heldur fól framtakið einnig í sér mikla hvatningu til almennings um ræktun grænmetis almennt.
Myndin sýnir systur Ingimars, Helgu Sigurðardóttur matreiðslukonu, en hún hafði umsjón með matreiðslusýningu við þetta tækifæri. Helga var leiðandi í fræðslu um matargerð á þessum árum og gaf út mörg rit þess efnis, svo sem Grænmetisréttir (1937) og Grænmeti og ber allt árið (1940). Þátttöku Helgu í sýningarhaldinu var svo lýst í Vísi: „Inst í horninu hefir ungfrú Helga Sigurðardóttir bækistöð sína og sýnir þar fjölda grænmetisrétta o.fl., o.fl., og getur almenningur fengið slíka grænmetisrétti framreidda gegn vægri þóknun, en einnig er hægt að fá uppskriftir af því hvernig réttir þessir eru búnir til“ (Vísir, 3. september 1938, bls. 3). Á myndinni ræðir Helga við viðskiptavin og styður fingrum á krukku með súrsuðu grænmeti sem stendur á sýningarborðinu, en þar við hliðina liggur miði með áletruninni „SNERTIÐ EKKI GLØSIN“. Í Vísi var einnig minnst á uppstillinguna að baki Helgu: „Í baksýn innst í salnum er ferhyrndur reitur, sem hallar að ská niður að grundinni og er í reinum raðað rauðum tomötum, en umhverfis tomatana eru allskyns káltegundir, tröllaaldin og „grasker“.“
Mikill metnaður var lagður í sýningargerðina og var til dæmis settur upp gosbrunnur á miðju sýningargólfinu, gras lagt í flatir og göturnar á milli sýningarbásanna lagðar sandi. Þá hafði Garðyrkjufélagið ári áður fengið Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann til að gera kvikmynd sem var sýnd á sýningunni, og „höfðu margir það á orði, hversu fróðleg væri og vel tekin kvikmyndin, sem sýnd var, um notkun jarðhitans í þágu garðræktar og garðrækt, trjárækt alment o.fl.“ (Vísir, 5. september 1938, bls. 2). Aðgöngumiðar voru happadrættismiðar þar sem vinningurinn var gróðurhús að verðmæti 1000 kr.
Í blöðum var talað um glæsilegustu og fjölsóttustu garðyrkjusýningu Íslendinga en sýninguna sóttu yfir sex þúsund gestir á þeim fimm dögum sem hún var opin. Um leið og sýningin minnir okkur á frumkvöðlastarf Helgu Sigurðardóttur sýnir hún að þegar árið 1938 var rík áhersla lögð á mikilvægi grænmetis í daglegri fæðu fólks.