- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Hans (og Gréta)
Júlí 2012
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Katrín Elvarsdóttir. Sporlaust 4.
Það var ævintýri líkast að halda inn í geymslur Þjóðminjasafnsins í leit að Sporlaust 4 eftir Katrínu Elvarsdóttur og annarri mynd eftir íslenskan kvenljósmyndara sem grunur lék á að leyndist í kistu nokkurri. Ég villtist þó hvorki né fann sætabrauðshús í rökkvuðum skógi af hillum sem geyma muni og myndir safnsins. En svo virðist sem krákur hafi étið upp slóð brauðmolanna sem liggja heim að ljósmyndun íslenskra kvenna. Nema þá að vonda nornin hafi étið allar Gréturnar. Kannski er tími til kominn að senda leitarflokkana út í tunglsljósið – því myndir Hans segja bara hálfa söguna.
Sporlaust eftir Katrínu var sýnt í Þjóðminjasafni Íslands árið 2007. Verkið samanstendur af níu ljósmyndum og flokkast undir ljósmyndagrein sem kallast sviðsettar ljósmyndir, en í verkinu býr Katrín til ákveðnar aðstæður sem hún festir á filmu og leikur sér þannig með hefðbundnar hugmyndir um tengsl ljósmyndunar við raunveruleikann og meint raunsæi í ljósmyndum. Hugmyndin að verkinu er fengin úr málverki af ævintýrasystkinunum Hans og Grétu á gangi eftir skógarstíg sem hékk í herbergi Katrínar í æsku, en í verkinu reynir hún að endurskapa þær ógnvekjandi tilfinningar sem hún upplifði í gegnum málverkið sem barn.
Börnin á Sporlaust 4 eru vissulega á gangi á stíg sem liggur meðal trjáa, en hefðu þau lagt af stað án Katrínar? Þau virðast við fyrstu sýn vera einsömul á ferð en svo er ekki, því ljósmyndarinn – hin fullorðna Katrín – er til staðar með nokkuð áþreifanlegum hætti. Myndirnar eru teknar úr augnhæð fullorðinnar manneskju, frá sjónarhorni þess sem betur veit. Ljósmyndarinn er langt frá því að vera hlutlaust vitni en hann lætur á sama tíma ekki of mikið uppi. Atburðarásin er óljós, eitthvað dularfullt liggur í loftinu en það fellur í hlut áhorfandans að tengja á milli myndanna og þannig búa til sitt eigið ævintýri. Hér er það fas drengsins sem fer fremstur sem vekur athygli. Sá hann eitthvað sem okkur er hulið? Getur verið að týndu Gréturnar okkar leynist í næsta rjóðri?
Sporlaust 4 eftir Katrínu Elvarsdóttur er ein af fáum samtímaljósmyndum eftir konu í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni.
Hallgerður Hallgrímsdóttir