- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Hver ekur eins og ljón?
September 2012
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Þorvaldur Ágústsson. ÞÁ 1718 A.
Myndin er tekin í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu árið 1960. Staðurinn er Harðarbakki, rétt vestan við þar sem afleggjarinn heim að kirkjustaðnum Stóra-Núpi kemur á gamla þjóðveginn upp Hreppinn. Þangað komu bændur á Stóra-Núpi, Minna-Núpi og Skaftholti með mjólkurbrúsa á hverjum morgni svo flytja mætti þá áfram í mjólkurbúið. Ef sæist til bæja í hlíðinni bak við myndefnið væru það Ásar en einnig sæist til Ásaskóla, sem reistur var árið 1923 og þjónaði upphaflegum tilgangi til 1986.
Á ljósmyndinni getur að líta steinsteypt hús og við suðurhlið þess er brúsapallur úr timbri. Í húsið var hægt að setja ýmiskonar varning sem þurfti að skýla, til dæmis fyrir sólskini eða rigningu, en að jafnaði voru mjólkurbrúsarnir settir á pallinn. Hæð brúsapalla tók mið af því að hægar væri að lyfta þungum mjólkurbrúsum af hestvagni upp á pallinn en hæð hans auðveldaði jafnframt bílstjóranum að færa þá yfir á bílpallinn. Þess má geta að ekki eru ýkja mörg ár síðan steinsteypta mannvirkið var ofan tekið.
Mjólkurbíllinn er af Henchelgerð og á honum skráningarnúmerið X 1041. Hálfkassahús er á bílnum, pallurinn er opinn með fremur einföldum pallgrindum úr timbri. Mjólkin varð að vera komin í tæka tíð áður en mjólkurbílstjórinn – sem í þessu tilfelli gæti verið Ásbjörn sem var fastur bílstjóri á þessari leið – kom til að safna saman brúsum af bæjunum í sveitinni og flytja á Selfoss til vinnslu í Mjólkurbúi Flóamanna. Á þessum tíma var bílaeign ekki almenn til sveita og gat fólk fengið far með mjólkurbílnum þyrfti það að skreppa bæjarleið eða í kaupstað. Þá gat einnig verið heppilegt að koma með mjólkurbílnum sendingum úr kaupstað eða frá öðrum bæjum.
Unglingspiltar hafa flutt brúsa á hestvagni af einhverjum ofangreindra bæja og verið á staðnum þegar mjólkurbílinn bar að. Hesturinn fyrir vagninum er fríður og faxprúður og lipurlega vaxinn miðað við margan vagnklárinn. Aktygin eru einfaldrar gerðar og kerrukassinn nokkuð lélegur. Piltarnir eru fulltrúar sveitakrakka úr þéttbýli sem á þeim árum voru á öllum sveitabæjum landsins yfir sumarið.
Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.
Lilja Árnadóttir