- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Skiptistöðin - Ástsælasta vígi pönkkynslóðarinnar
Nóvember 2012
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Árni Bjarnason. Tíminn ÁB 1576-15.
Gjáin í Kópavogi var opnuð fyrir umferð í lok árs 1971. Brýr fyrir innanbæjarumferð á milli vestur- og austurhluta Kópavogs voru byggðar yfir Gjána og strætóskiptistöð reist á hálsinum til bráðabirgða. Gatan austan skiptistöðvarinnar þótti varhugaverð fyrir gangandi vegfarendur og því voru lögð göng undir Digranesveg sem lágu frá strætóskiptistöðinni. Byggingin var aldrei kölluð annað en Skiptistöðin og átti, ásamt undirgöngunum, eftir að gegna veigamiklu hlutverki í lífi margra ungmenna í Kópavogi sem eins konar óopinber félagsmiðstöð grunnskólaunglinga, lengst af án nokkurs eftirlits með því sem þar fór fram.
Þetta var á blómaskeiði pönktímabilsins og skortur á félagsmiðstöðvum gerði Skiptistöðina að samastað Kópavogspönkaranna sem fljótlega slógu eignarhaldi sínu á bæði hana og undirgöngin. Pönktónlistin var allsráðandi og sumar íslensku hljómsveitanna stöldruðu við á Skiptistöðinni. „Ég man eftir öllum úr Sjálfsfróun, hluta af Ham-liðum, Dr. Gunna, grúppíum Fræbbla og Utangarðsmanna sem síðar fylgdu Ego um allar trissur og kölluðust Ego-styttur“ (Halla Rannveig Halldórsdóttir. Munnleg heimild). Staðurinn var þakinn veggjakroti, unglingarnir sátu á bekkjum með veggjum, oft í kulda og trekki þegar blés í gegn. Ungmennin létu það ekki á sig fá, þetta var þeirra musteri.
Hinn almenni borgari var smeykur að fara þar í gegn, mörgum þótti meir en nóg um áfengisneyslu og límsniff sumra unglinganna, og þeir yngri og saklausari reyndu eftir fremsta megni að forðast Skiptistöðina: „Ég ólst upp í vesturbæ Kópavogs og fór oft til ömmu sem bjó í Fannborg. Yfirleitt valdi ég að hætta mér frekar yfir götuna en að fara undirgöngin. Þarna niðri fannst mér ég vera í raunverulegri lífshættu, með öskrandi pönkurum sem reyktu, hlustuðu á pönktónlist, spreyjuðu á veggi, notuðu pönkarailm og áreittu hvern þann sem átti leið um. Ég man enn eftir lyktinni. Þegar ég tók strætó við Skiptistöðina beið ég oftast fyrir utan, nema þegar ekki var stætt úti vegna ofsaveðurs. Þau örfáu skipti sem ég settist inn var ég búin að skanna svæðið rækilega og gulltryggja að þar væri einhver fullorðinn á undan mér“ (Hjördís Unnur Másdóttir. Munnleg heimild).
Þeir sem héngu á Skiptistöðinni minnast þó tímans með ákveðinni nostalgíu, eins og kemur t.a.m. fram á Fésbókarsíðu tileinkaðri staðnum: „Þessi staður mótaði mann að nokkru leyti, það má kalla þetta menningarstað með réttu en hvort hún var af hinu góða er annað, annars var ég nú voða stilt bara í bokkunni sem maður náði í niðrá Lindargötu með strædó og kom aftur uppeftir að sötra með grænum frostpinna útí til að deifa bragðið....þvílík menning“ og „Á Skiptistöðinni sálugu lærði maður allt sem mestu máli skiptir að kunna í lífinu, reykja, drekka brennivín, krota á fötin sín og búa til Fræbbblamerkistattú með eldspýtum svo dæmi séu nefnd. [...] blessuð sé minning þessarar menningarstofnunar.“
Blómaskeið Skiptistöðvarinnar stóð fram á miðjan níunda áratuginn. Áfram var þó eitthvað um að unglingar söfnuðust þar saman og veggjakrotið varð síst minna, en smám saman hvarf það ógnvænlega orðspor sem Skiptistöðin og göngin höfðu á sér. Skiptistöðin brann til kaldra kola í febrúar árið 2005 og undirgöngin sem tengdust henni hafa verið rækilega lokuð síðan 2008.
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir