- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Svipast um á Forngripasafninu veturinn 1883-1884
Febrúar 2013
Ritstj. Steinar Örn Atlason
Sophus Tromholt. Lpr. 4997-3.
Hvernig var umhorfs á Forngripasafninu á fyrstu árum þess? Hvaða gripum var stillt upp og með hvaða hætti var það gert? Eina leið okkar til að skyggnast þar um er að skoða gamlar ljósmyndir.
Elsta sjónræna yfirlitið á sýningu Forngripasafnsins eru ljósmyndir teknar veturinn 1883-84 af danska vísindamanninum Sophus Tromholt (1851-1896). Þá hafði Tromholt vetursetu í Reykjavík til að stunda vísindarannsóknir á norðurljósum og setti hann meðal annars upp rannsóknarstöð á toppi Esjunnar til að sinna slíkum mælingum. Áður hafði Tromholt dvalið í Finnmörku við norðurljósa-rannsóknir og tekið einstakar þjóðfræðilegar myndir af íbúum héraðsins í búningum sínum úti í náttúrunni. Tromholt var áhugamaður um safnastarf og þreifaði fyrir sér með söfnun áhugaverðra gripa hérlendis. Það er athyglisvert að hann auglýsti eftir gripum til að kaupa fyrir gripasafnið í Bergen í Fjallkonunni í mars 1884: „hverskonar merkilega hluti, útskorna hluti úr tré, o.s.frv. Sömuleiðis hami fágætra fugla og annara dýra, svo og fágætar steintegundir,“ og í maí sama ár: „Þessa fugla borga jeg háu verði: húsönd, skúm og hvítmáf. Enn fremur kaupi jeg alls konar fugla í ungaham og dúnaða, og sömuleiðis mórauð tóuskinn og skinn af öðrum dýrum.“ Hvort Tromholt hafi orðið ágengt í söfnuninni og hvort hann hafi flutt gripi með sér til Noregs er ókannað.
Tvær möppur með lausum myndum eftir Tromholt eru varðveittar í safninu frá Íslandsdvöl hans: Önnur með 22 myndum eftir hann sjálfan úr Reykjavík og þremur til viðbótar af konum í þjóðbúningum eftir Sigfús Eymundsson, hin með 22 myndum sem Tromholt tók í Forngripasafninu. Á þessum tíma var umsjónarmaður Forngripasafnsins Sigurður Vigfússon (1828–1892) og safnið til húsa á lofti Alþingishússins. Þangað hafði safnið verið flutt sumarið 1881, en eftir stofnun þess hafði því fyrst verið fundinn staður á Dómkirkjuloftinu og síðan í borgarastofu hegningarhússins þegar viðgerðir fóru fram á Dómkirkjunni árið 1879. Upphaflega var Alþingishúsið reist til að hýsa bæði Alþingi og Forngripasafnið og rúmaði það starfsemina til ársins 1899. Þá var safnið flutt í Landsbankahúsið og þaðan í Safnahúsið við Hverfisgötu 1908.
Myndir Tromholts sýna okkur Forngripasafnið eins og það var fullgert fyrir sýninguna á lofti Alþingishússins. Hlutum á sýningunni hefur verið skipt upp eftir tímabilum ef marka má ljósmyndirnar, því á einni þeirra sést skilti sem á stendur „Fornöldin.“ Þá eru kirkjugripir til dæmis flokkaðir saman, útskurður einnig, og gripir sem eru svipaðrar gerðar eða hafa sömu notkun. Uppröðun þeirra tekur þannig mið af flokkuninni og allir standa gripirnar því í samhengi við tímabilið eða stofnanirnar sem þeir tilheyra. Grunnsýning Þjóðminjasafnsins í dag er sumpart unnin út frá sömu hugsun en þar er einnig reynt að setja gripina í samhengi innbyrðis og miðla upplýsingum um þá með textum og skýringarmyndum, margmiðlun og hljóðleiðsögn.
Það er áhugavert að skoða hvort og þá hvernig hlutverk safnsins hefur breyst á þeim 130 árum sem liðin eru frá myndatökunni. Fyrst í stað snerist safnastarfið um að bjarga menningarsögulegum gripum frá glötun og hlúa að sögulegum arfi þjóðarinnar, eins og Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málari hafði hvatt fólk til að gera í „Hugvekju til Íslendinga“ í Þjóðólfi 1863: „Ég vil enn spyrja alla góða menn og Íslendinga: hvað á þetta hirðuleysi leingi að gánga? Eiga menn endilega að streitast við að fleygja öllu út úr landinu, sem í nokkru er nýtt, eðr að eyðileggja það í landinu sjálfu af tómu hirðuleysi?“ Tilgangur safnastarfsins var þá jafnframt að skapa þjóðinni sögu og ímynd sem greindi hana frá öðrum og réttlætti baráttuna fyrir sjálfstæði. Í dag snýst starfsemin um að skoða sögu og ímynd fólksins sem hér býr, kynna hana fyrir innlendum og erlendum gestum og finna sérstöðu í alþjóðavæddum heimi ásamt því að viðhalda söfnunarstarfi. Er það mikil breyting?
Margrét Hallgrímsdóttir