Stofa - Rúmfjalir / Bed-boards
Í Þjóðminjasafni Íslands er fjöldi rúmfjala. Þær eru ríkulega útskornar og sýna hversu fjölbreytt og rík útskurðarhefð tíðkaðist á Íslandi. Rúmfjölunum var stungið niður með rúmstokknum á milli rúmbríka á kvöldin svo sængurklæðin dyttu ekki fram á gólf á næturnar. Á daginn var þeim komið fyrir aftast í rúminu, við veggþilið. Þá sneri útskorna hliðin fram til prýðis í baðstofunni. Rúmfjalir voru lagðar yfir hnén og bakhliðarnar notaðar sem borð á matmálstímum og líka sem skerborð eða tóbaksfjalir þar sem þurrkuð tóbakslauf voru skorin í smáar flögur, enda er mjög algengt að bakhliðar rúmfjala séu alþaktar rákum eftir hnífa eða tóbaksjárn. Fjalirnar voru persónulegar eigur og nákomnar eiganda sínum. Orðið rúmfjöl eða sængurfjöl eru óþekkt í miðaldaritum. Elsta rúmfjöl safnins með ártali er frá árinu 1672. Allmargar eru frá síðustu áratugum 17. aldar en langflestar frá 18. og 19. öld. / The National Museum collection includes a large number of bed-boards. These ornately-carved pieces bear witness to Iceland’s diverse and rich woodcarving tradition. In the baðstofa (communal living area) of the old turf farmhouses, beds were lined up against the outside walls, and the bed-board was placed at the edge of the bed at night to keep the bedding in place. During the day, when the bed served as seating, the bed-board was placed against the wall, with the carved surface facing into the room. At mealtimes the bed-boards were placed across the knees to serve as a “table.” Bed-boards were personal possessions, and valued by their owners. The museum’s oldest dated example is from 1672. A number date from the late 17th century, but most of the collection is from the 18th and 19th centuries.
-
11743 Rúmfjöl / Bed-board
Rúmfjöl, útskorin stórum höfðaletursstöfum sem sem ná þvert yfir fjölina Þar stendur: „ingebiörg ionsdott(er)“, þ.e. Ingibjörg Jónsdóttir.
-
11750 Rúmfjöl / Bed-board
Útskorin rúmfjöl með höfðaleturslínum að ofan og neðan og blaðastrengjum á milli. Í miðju er ferkantaður reitur með tveimur höfðaleturslínum og á milli þeirra er lína með tölustöfum. Í ferhyrningnum stendur: „KRISTINHE - RMADNSD OTTIRAFÞ“ Þ.e.: Kristín Hermannsdóttir á fjöl þessa. Í höfðaleturslínunum að ofan og neðan stendur: „VERTUIFIRALTUMKRINGMEDEILIFRIBLESSANÞINNISITIGUDSEG – LARSAMANHRINGSANGINNIINFRMINNIVÞMISVIAÞMIVLMEIÞSVÞSISH“ Þ.e. bænin: Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessan þinni. Sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. Óráðið er hvað stafarunan aftast stendur fyrir, en mögulega eru þetta upphafsstafir orða, jafnvel annarrar vísu.
-
13463 Rúmfjöl / Bed-board(1867)
Rúmfjöl úr furu. Í miðju eru tveir grafnir hringir og í þeim stafirnir BGS og SÞD, en á milli þeirra ártalið 1867. Stafirnir eru upphafsstafir hjónanna sem fyrst hafa átt fjölina, þ.e. B… G…son og S… Þ…dóttir. Fjalarendarnir báðum megin við hringana eru skornir höfðaletri: „vertu gud ifir og allt um kring med eilífri blessan þini - sitje guds einglar saman i hring sængini ifir minni 1.5.18“. Það er bænin: Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessan þinni. Sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. Fjölin hefur verið skorin (eða gefin) 1. maí, en tvo síðustu stafina vantar í ártalið, líklega vegna plássleysis.
-
13661 Rúmfjöl / Bed-board
Rúmfjöl úr furu. Á framhliðinni eru tvær höfðaleturslínur. Þar stendur: „SVÆFILLINN MINN OG SÆNGIN MIN SIE ÖNNUR MIUKA H/ND NN ÞIN ENN AÐRA BREIÐ ÞU OFANN A MIG ER MIER ÞA VÆRDINN“ (nógsamlig). Svæfillinn minn og sængin mín sé önnur mjúka höndin þín en aðra breið þú ofan á mig er mér þá værðin nógsamleg. Aftan á fjölina eru rissaðar útlínur fyrir myllu og refskák. Líklega er rissið yngra en letrið á framhlið en það sýnir að fjölin hefur verið notuð til dægrastyttingar.
-
1637 Rúmfjöl / Bed-board(1681)
Rúmfjöl úr furu með rissuðum laufsveig og tveimur leturlínum: „GVD – IEG – BID – ÞIER – GIEFE – FRIDGRÆDARANN - L'IDA – FIRR - OG S'ID – HLIOTTV – MID – HIA - HIMNA – SMID - OG / HUGGVN -FRIDA – DAUDANS – TID – SITIE – IESVS – SONVRGVDS – KIÆR - SÆNGENA - KRINGVM – MIN“. Þ.e Guð ég bið þér gefi frið græðarann líða fyr og síð hljóttu mið hjá himnasmið og huggun friða dauðans tíð. Sitji Jesús sonur Guðs kær sængina kringum mín. Við annan stendur ANNO / 1681.
-
1695 Rúmfjöl / Bed-board(1733)
Rúmfjöl úr furu. Efsti hluti fjalarinnar er gagnskorinn teinungum og þremur andlitum sem gætu verið englahöfuð. Í miðhlutann er skorin höfðaleturslína með böndum. Mjög erfitt er að lesa úr áletruninni því leturgerðin er mjög sérstök og stafaskil ógreinileg. Á bakhlið eru tveir skornir hringar með stöfunum ihs, sem stendur fyrir Jesús, í öðrum og EIS, upphafsstafir þess sem skar fjölina og eða þess sem fyrstur átti fjölina, þ.e. E… J…son, í hinum. Einnig ártalið ANO 1733.
-
1767 Rúmfjöl / Bed-board(1600-1700)
Rúmfjöl úr furu. Í miðju er kringla með fangamarki Krists „ihs“, en við endana eru ferhyrningar með blómi. Beggja megin við kringluna eru höfðaleturslínur. Höfðaletrið er mjög grófgert, með tveimur böndum yfir, en er mjög læsilegt. Í efstu línu stendur: „HIONUMM / I / HUILU / ROTT / HIER / VE“ og í neðstu línu stendur: „RDE / BADUMM / GIEFE / ICKUR / GODA“. Vinstra megin við miðkringluna stendur „nott / gud / minni“ og hægra megin við miðkringluna stendur „nadum / amen“ og í miðkringlunni stendur samandregið: „ihs“. Þ.e.: Hjónum í hvílu rótt hér verði báðum. Gefi ykkur góða nótt Guð minn í náðum. Amen. ihs
-
1971-19 Rúmfjöl / Bed-board
Rúmfjöl, fagurlega skorin mynstri og áletrun sem enn hefur ekki verið lesið úr.
-
2008-5-291 Rúmfjöl / Bed-board(1857)
Rúmfjöl úr furu. Fjölin er máluð á framhliðinni, blágræn, sem er sjaldgæft. Að ofan eru tvær línur með innskornum gotneskum prentstöfum og ártal. Að neðan er skorin blaðteinungur og í miðju fjalarinnar er jurtapottur. Út frá honum ganga bylgjuteinungar til beggja átta. Áletrunin á fjölinni er: „ARNFINNUR ARNFINNSSON - GUDRUN JONSDOTTIR“ og ártalið 1857.
-
2439 Rúmfjöl / Bed-board(1800-1850)
Rúmfjöl úr furu. Á framhlið er skorin laufguð trjágrein en á bakhlið upphafsstafirnir ÞÞD með útflúruðu skrifletri. Stafirnir eru upphafsstafir konunnar sem fyrst átti rúmfjölina, þ.e. Þ… Þ…dóttir.
-
2632 Rúmfjöl /Bed-board(1750-1800)
Rúmfjöl úr furu. Skorin með einni einfaldri upphleyptri grein. Á miðri bakhlið eru skornir stafirnir GHD, sem eru upphafsstafir konunnar sem fyrst hefur átt fjölina, þ.e. G… H…dóttir.
-
3133 Rúmfjöl / Bed-board(1600-1700)
Rúmfjöl úr furu. Hún er útskorin stílfærðu munstir og tveimur hringlaga flötum með letri þar sem stendur: „HEILLER ALLAR HEIMS VM - RANN HLIOTTV AF BEINE“. Þetta er vísuupphaf: Heillir allar heims um rann, hljóttu af beini…, en meira hefur ekki komist fyrir. 3138 Rúmfjöl Ekkert ártal Rúmfjöl úr furu. Á henni er mjór laufteinungur í miðju, en ofan og neðan við hann skorið með stóru höfðaletri: „vertuiferogalltummkringm - edeilifreblessanþinesgesin“. Þ.e. Vertu yfir og allt umkring Með eilífri blessun þinni Siti guðs englar saman í hring Sænginni yfir minni.
-
3138 Rúmfjöl / Bed-board
Rúmfjöl úr furu. Á henni er mjór laufteinungur í miðju, en ofan og neðan við hann skorið með stóru höfðaletri: „vertuiferogalltummkringm - edeilifreblessanþinesgesin“. Þ.e. Vertu yfir og allt umkring Með eilífri blessun þinni Siti guðs englar saman í hring Sænginni yfir minni.
-
5625 Rúmfjöl / Bed-board(1759)
Útskorin rúmfjöl með fjölbreyttu, stílfærðu skrauti, hlutbundnum myndum og letri. Á fjölinni er texti, skorinn með latnesku letri: „FIALAZ (=R) -TETZED -FUZDU - LIOTT - FINST - EI - UANDE - A - ÞUI - NEIZN - UÆZDAZ - SETZED – UEZDE – ZOTT – UØRDUZ - LANDA - UEZNDE OSS“. Þ.e.: Fjalartetrið furðu ljótt, finnst ei vandi á því neinn. Værðar setrið verði rótt, vörður landa verndi oss. Einnig stendur ANNO 1759 og upphafsstafirnir EGS og SKDAF. Það eru upphafsstafir hjónanna sem fyrst hafa átt fjölina og stafirnir standa fyrir E… G…son og S… K…dóttir á fjölina.
-
6248 Rúmfjöl / Bed-board(1791)
Í miðju er skorinn hringur og í honum B n o i, þ.e. Jón B aftur á bak með höfðaletri, en vinstra megin við hann er í 2 línum áletrun með höfðaletri : „reinardur B ondi a Borg“ eða Reinarður bóndi á Borg, og hægra megin í efri línunni : „rosamunda“ eða Rósamunda, en þeirri neðri Anno 1791.
-
725 Rúmfjöl /Bed-board(1701)
Rúmfjöl, skorin með hnútum og rósum sem líta út líkt og útsaumsspor eða -munstur. Á endum eru fjögurra blaða stílfærð blóm sem líta út eins og áttablaðarós. Á fjölinni er fangamark: „Wlg S.D.“ þ.e. Valgerður S…dóttir og ártalið 1701.
-
9064 Rúmfjöl / Bed-board(1880)
Rúmfjöl úr furu, óvenju löng. Fjölin er útskorin á framhlið og þar er skorið með skrifletri „Rúmfjöl Hjóna JGS – GID“. Stafirnir eru upphafsstafir hjónanna sem fyrst hafa átt fjölina, þ.e. J… G…son og G… J…dóttir. Á bakhliðinni miðri er skorið ártalið 1880. Rúmfjölina skar Ásbjörn Jónsson sem sagður var úr Skaftafellssýslu.