17. júní fagnað í strekkingi
JÚNÍ 2018
Garðaflöt er staður í Reykjavík sem ef til vill fáir kannast við í dag en um er að ræða skrúðgarð sem liggur á milli Hæðargarðs og Hólmgarðs í Bústaðahverfi. Á móti garðinum er húsið Hólmgarður 34, þar sem talsverður verslunarrekstur var stundaður á árum áður á meðan hverfisverslanir voru og hétu í Reykjavík. Þar var svokölluð Ólabúð, Mjólkursamsalan, Alþýðubrauðgerðin, apótek, bókabúð, vefnaðarvöruverslun, kjötbúð, fisksali og Borgarbókasafnið var þar með útibú. Reyndar hafði fisksalinn verið með „smá verslun í litlum skúr þar sem nú er Garðaflöt.“1 Sá skúr sést lengst til vinstri á myndinni, dökkleitur.
Garðurinn var opnaður 18. ágúst 19602 en þá voru 174 ár liðin frá því að Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi. Auður Auðuns, þá borgarstjóri, opnaði garðinn og hún „gat þess í ræðu sinni að þetta væri fyrsti skrúðgarður í Reykjavík sem gerður er í úthverfi og sagði að fleiri myndu fylgja í kjölfarið“.3 Í dag má færa rök fyrir því að þessari stefnu hafi ekki verið framhaldið í borginni. Þessi mynd er aftur á móti tekin áður en garðurinn er formlega opnaður árið 1960. Verið er að fagna 17. júní annað hvort árið 1954 eða 1955. Danspalli hefur verið komið fyrir, eins litlum skúr skreyttum þremur fánum. Sjómannadagsflögg sjást í forgrunni myndar og fólk er prúðbúið.
Milli tvílyfta hússins sem stendur lengst til vinstri, Hæðargarðs 32-34, og skúrsins sem skreyttur er með fánum sést í hús með hallandi þaki. Það hús var upphaflega eina skólahús Breiðagerðisskóla en hýsir í dag yngstu bekki skólans. En í millitíðinni, á árabilinu 19674 til 1997, var í húsinu starfræktur leikskólinn Staðarborg.
Ljósmyndarinn Alfreð Dreyfus Jónsson bjó við Hæðargarð og þess vegna voru hæg heimatökin hjá honum að taka mynd af hátíðarhöldunum. Alfreð rak ljósmyndastofu á árunum 1931-1952 og er safn ljósmyndastofunnar auk þjóðlífsmynda, bæði á glerplötum, filmum og pappír, varðveitt á Ljósmyndasafni Íslands.5
Kristín Halla Baldvinsdóttir
1) Morgunblaðið 25. nóvember 1990.
2) Morgunblaðið 19. ágúst 1960.
3) Tíminn 20. ágúst 1960.
4) Vísir 6. Júlí 1967.
5) Inga Lára Baldvinsdóttir. Ljósmyndarar á Íslandi. Reykjavík 2001, bls. 96.