Fiskverkakonur Gunhildar
FEBRÚAR 2019
Ljósmyndari Gunhild Thorsteinsson GTh-32, Pk-2381 og Lpr-4293.
Konur standa kappklæddar og álútar við trékar og vaska saltfisk. Þær eru með höfuðklútana vel reyrða um höfuð til varnar kulda, pilsklæddar með ermahlífar og svuntur. Fiskurinn vellur fram yfir trépallinn sem verkakonurnar standa á og niður á fjörugrjótið. Ljósmyndarinn Gunhild Thorsteinsson stendur nálægt verkakonunum sem sumar halda áfram að vinna óáreittar en nokkrar líta upp. Myndin er ekki uppstillt og verður þess vegna mjög raunsæisleg, svipur kvennanna, líkamstaða, klæðnaður og vinnuaðstæður bera vott um harðneskju. Styrkurinn í myndinni felst ekki síst í ásjónu verkakonunnar fremst á myndinni með sjalið slútandi yfir augun svo við sjáum aðeins hluta andlitsins, svipbrigðalaust. Hún stendur þannig líkt og tákngervingur allra nafnlausra verkakvenna Íslandssögunnar.
Heimildagildið er ríkulegt en tilfinningaupplifun gerir myndina einstæða.
Myndin var tekin á Bíldudal rétt um aldamótin 1900 og að baki henni leynist saga af stórkostlegri uppbyggingu og framförum. Á örfáum árum við lok 19. aldar óx Bíldudalur hraðar en nokkurt annað pláss á landinu fyrir atbeina Péturs Thorsteinssonar kaupmanns og Ásthildar konu hans. Atvinnumöguleikar og uppgangur dró fjölda fólks að. Þar var allt á fleygiferð og mikið líf í tuskunum.1
Saltfiskurinn var ein mikilvægasta framleiðslu- og útflutningsvara á Bíldudal líkt og í flestum sjávarplássum á þeim tíma. Frægðarorð fór af Bíldudals saltfiski svo að sögusagnir voru um að erlendir framleiðendur auglýstu eigin fisk sem Bíldudals-Klipfisk eða Bildudals-bacalao.2 Áður en hús voru byggð um og yfir flest allt atvinnulíf og iðngreinar var mannlífið allt utandyra. Fiskverkun, beitning, viðgerðarvinna, bátasmíði, börn að leik, fólk á þönum og fólk á gangi eða á hestbaki. Það sem áhorfandanum í dag þykir hráslagsleg vinnuaðstaða var eðlilegasti hlutur á þeim tíma.
Ljósmyndin var ein þeirra mynda sem Gunhildur bæði fjölfaldaði og gaf út sem póstkort. Hún var ein fárra kvenna síns tíma sem lagði póstkortaframleiðslu fyrir sig að einhverju ráði en slík útgáfa var stór tekjulind ljósmyndara á fyrstu áratugum 20. aldar.3 Gunhild líkt og aðrir ljósmyndarar ferðaðist vítt og breitt um landið og myndaði þéttbýlisstaði, hafnarstæði, landslag, stórviðburði eins og konungskomuna 1907 og annað sem þótti áhugavert myndefni. Þannig varð fólk við heyvinnu, konur að verka fisk eða jafnvel hvalskrokkur á bryggju efniviður í mynd á póstkort.
Myndin af verkakonunum á Bíldudal sker sig að einhverju leyti úr hefðbundnum póstkortamyndum sökum þess hve nálægur ljósmyndarinn er viðfangsefni sínu. Tæknin ein og sér hamlaði ljósmyndurum að mynda fólk á mikilli hreyfingu og búnaðurinn var einnig umfangsmikill og lítt hreyfanlegur. Það er freistandi að skoða fiskverkakonurnar sem eitt þeirra verka Gunhildar sem varpa ljósi á hennar persónulegu sýn sem ljósmyndari því slík verk voru fágæt fyrir tíma áhugaljósmyndara. Önnur mynd Gunhildar sem var tekin við sjávarsíðuna á Bíldudal við sama tilefni sýnir mun víðara sjónarhorn og er sú mynd keimlík öðrum myndum af saltfiskverkun um land allt. Ljósmyndarar völdu sér frekar vítt sjónarhorn þegar myndir voru teknar í því skyni að fjöldaframleiða og selja. Slíkar yfirlitsmyndir báru sterkt yfirbrag þjóðlífsmynda sem styrkja hugmyndir um sterkt atvinnulíf, framfarir og velsæld meðan nærmyndin af verkakonunum vekur upp tilfinningu um vosbúð.
Veruleiki fiskverkakvennanna á Bíldudal var mjög fjarri lífi Gunhildar sem kom af efnuðu fólki. Hún fæddist á Ísafirði árið 1878, dóttir kaupmannshjónanna Þorsteins Thorsteinssonar og Ameliu F.V. Rasmusdóttir Löve. Gunhild og Pétur, sem var kaupmaðurinn á Bíldudal, voru bræðrabörn og engin tilviljun að hún eyddi þar tíma við myndatöku í upphafi ljósmyndaferilsins. Gunhild lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn 1899-1901 og fram til 1905 starfaði hún sem ljósmyndari á eigin vegum.4 Það má leiða að því líkum að þessi tiltekna mynd sé tekin á því tímabili.5 Gunhild var í hópa fyrstu kvenna sem starfa við ljósmyndun á Íslandi og var t.d. fyrst kvenna til að opna ljósmyndastofu í Reykjavík árið 1905.
Þessi einstaka mynd hefur ekki fallið í algjöra gleymsku frá því að hún kom fyrir sjónir almennings fyrir meira en hundrað árum. Myndin birtist t.d. í ritinu Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs J. Thorsteinsson árið 1951 og hún varð fulltrúi jafnréttisbaráttu sem forsíðumynd septemberblaðs Veru árið 1984 með slagorðinu Eru konur hálfdrættingar? Í dag má sjá myndina bæði sem póstkort og í stærra broti til sölu í versluninni 12 Tónar á Skólavörðustíg í Reykjavík. Ferðamenn frá ólíkum löndum taka þannig með sér heim myndina af óþekktu fiskverkakonunum. Þær eru að vísu ekki allar nafnlausar því nýleg eftirgrennslan meðal heimamanna á Bíldudal leiddi ýmislegt í ljós. Konan fremst á myndinni hét Marsibil Sigurðardóttir.6 Hún lifði alla sína ævi sem verkakona í þorpinu.
Linda Ásdísardóttir
1) Lúðvík Kristjánsson, Bíldudalsminning Ásthildar og Péturs J. Thorsteinsson, Ísafoldarprentsmiðja hf., Reykjavík, 1951, bls. 51.
2) Lúðvík Kristjánsson, bls. 60.
3) Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945, Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, 2001, bls. 55.
4) Inga Lára Baldvinsdóttir, bls. 196.
5) Árið 1903 er kaupmannsfjölskyldan á Bíldudal flutt til Kaupmannahafnar.
6) Heimildarmaður: Jörundur Garðarsson. Nöfn fleiri kvenna á myndinni gætu verið þekkt.