Upphaf ljósmyndunar og daguerreótýpan af Sveinbirni Egilssyni
JANÚAR 2019
MMS 86
Upphaf ljósmyndunar er rakið til þess þegar François Arago tilkynnti opinberlega 7. janúar 1839 að Louis-Jacques-Mandé Daguerre (1787–1851) hefði tekist að festa ljósmynd varanlega á koparplötu. Ljósmyndir eftir aðferð Daguerres, sem hann þróaði í samstarfi við Joseph Nicéphore Niépce (1765–1833), voru kallaðar daguerreótýpur, en það sem einkennir aðferðina m.a. er að myndirnar eru einstakar ljósmyndir sem ekki er hægt að fjölfalda. Flestar daguerreótýpur eru andlitsmyndir, þó aðferðin hafi jafnframt verið notuð til að fanga allskyns viðfangsefni, og fyrirsæturnar hafa almennt yfir sér alvarlegt yfirbragð og þykja nokkuð stirðar og formlegar, sem orsakast ekki síst af því hversu lengi þær þurftu að vera í sömu stellingum, halda grafkyrru fyrir og blikka ekki augunum, sökum lýsingartíma og birtuskilyrða við myndatökuna.
Á Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni eru varðveittar 21 daguerreótýpa, nær allt andlitsmyndir, þar af tvær af mönnum sem fæddir eru seint á átjándu öld, þeim Hannesi Stephensen (1799–1856) og Sveinbirni Egilssyni (1791–1852).1 Sá síðarnefndi var rektor við Lærða skólann og nafntogaður fyrir þýðingar sínar á grískum fornbókmenntum, og hefur látið taka af sér daguerreótýpu (Mms-86) í ferð sem hann fór til Kaupmannahafnar í kjölfar „pereatsins“ svokallaða 1850.2 Þótt einnig sé varðveitt lítil blýantsteikning með vangamynd Sveinbjarnar (Mms-2014-172) eftir Rudolf Keyser, gerð á árunum 1825 til 1827, þá er það ljósmyndin sem gerir svip hans ódauðlegan.
Konráð Gíslason (1808–1891), fyrrum nemandi Sveinbjarnar við Lærða skólann, áttaði sig t.d. snemma á því að ljósmyndin skipti máli fyrir arfleifð manna og skrifaði eftirfarandi í bréfi til Brynjólfs Péturssonar frá Dresden 17. júní 1844:
Jeg held jeg verði að láta daguerrotypera mig hjer í Dresden, Ykkur til skammar, sem eruð í Kmhöfn; en þegar ég kem til Hafnar, læt ég daguerrotypera hjartað í mjer, og fleygi svo hinu af því jeg verð þá búinn að brúka það. Hjer má láta daguerrotypera sig fyrir eitthvað Thaler, að mig minnir. Og ein Thlr. er ekki mikið fyrir að gjöra aðra eins kind ódauðlega. En hvað um það, rektu nú á eptir Jónasi, Brynjólfi og Grími, að þeir drepi höfðinu í loptið, svo myndirnar verði til eptir þeirra dag, svo skal ég sjá um, þegar þeir eru dauðir, og jeg er orðinn blindur, að þær verði stungnar í kopar. “Attieu” mon plaisir! Þið dauðir og myndirnar stungnar í kopar!3
Það sem einkennir einnig daguerreótýpur er spegilkennt yfirborð og skýrleiki myndarinnar, og það er sem maður horfi til baka á svip Sveinbjarnar, nær 170 árum síðar, eins og hann sé frosinn bakvið gler. Benedikt Gröndal (1826–1907), sonur Sveinbjarnar, gagnrýndi reyndar ljósmyndir, í bréfi til Jóns Árnasonar dagsettu 10. júlí 1867, fyrir að eyðileggja „allt það spilandi líf, sem er í andlitinu [...] og verður maður svo dauðalegur og starandi,“4 og má vera að honum hafi fundist það um myndina af föður sínum. Gröndal hafði þó sjálfur látið taka af sér daguerreótýpu í Kaupmannahöfn árið 1848 (Mms-2085), sem var síðan handlituð og kinnarnar gerðar rauðar, en það var nokkuð algengt og gert til að komast hjá grátóna yfirbragði myndarinnar sem fólk tengdi veikindum eða dauða.5
Daguerreótýpan af Sveinbirni var síðar send til Kaupmannahafnar þar sem hún var „teiknuð, stungin og prentuð“ í tengslum við útgáfu á kvæðum Sveinbjarnar sem kom út 1856. Það var Jón Árnason (1819–1888), heimiliskennari og aðstoðarmaður Sveinbjarnar, sem sá um útgáfuna og í bréfaskriftum má lesa hvernig Jón Sigurðsson forseti (1811-1879) hefur haft milligöngu um að láta teikna og stinga mynd eftir ljósmyndinni, sem þá var í eigu ekkju Sveinbjarnar. Prentmyndin var auglýst til sölu í Þjóðólfi árið 1855 fyrir 3 mörk en Jón Árnason sagði í bréfi til Jóns forseta að „frú Egilsen“ óskaði eftir að upplag prentmyndarinnar yrði „200 expl.“6
Hvað myndina varðar þá er það ekki aðeins frosinn tíminn á myndinni af Sveinbirni sem verkar á mann, heldur fortíðin sjálf sem hefur einhvern veginn lagst yfir plötuna og skilið eftir sig ummerki, og ásýnd manns sem fæddur er í lok átjándu aldar en horfir enn til okkar.
Steinar Örn Atlason
1) Það eru þó ekki elstu Íslendingarnir sem til eru myndir af, heldur er elstur Guttormur Pálsson (1775–1860) prestur í Vallanesi. Sjá Inga Lára Baldvinsdóttir, „Daguerreotýpur á Íslandi og fyrstu ljósmyndararnir “, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1982, bls. 141–153.
2) Um ævi og störf Sveinbjarnar sjá t.d. Gunnar Harðarson, „Fornar menntir á Bessastöðum“, Blindramminn bak við söguna og fleiri skilagreinar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2009), bls. 131–147.
3) Bréf Konráðs Gíslasonar, Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1984), bls. 81.
4) Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson, Rit II, Gils Guðmundsson sá um útgáfuna (Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1982), bls. 334.
5) Daguerreótýpur voru miklir dýrgripir, einstakar myndir og viðkvæmar, og oft settar í fóðraðar öskjur eða rammaðar inn í einhvers konar umgjörð. T.d. er myndin af Benedikt Gröndal í svörtum ramma með gyllingum og myndin af Sveinbirni Egilssyni í flúruðum gylltum ramma.
6) Sjá Úr fórum Jóns Árnasonar. Sendibréf, fyrra bindi, Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Reykjavík: Hlaðbúð, 1950), bls. 46–47. Það var Sigurður Guðmundsson málari sem teiknaði myndina eftir daguerreótýpunni og er hún varðveitt í Mannamyndasafni Þjóðminjasafnsins (Mms-49323) og sömuleiðis eintak af prentmyndinni (Mms-5764). Sjá nánar um myndina í Halldór J. Jónsson, „Mannamyndir Sigurðar Guðmundssonar málara“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1977, bls. 58–59.