Hrímuð nærmynd
NÓVEMBER 2019
Ljósmyndari Kristinn Sigurjónsson KS2-16
Þessi ljósmynd Kristins Sigurjónssonar (1923-1993) er í hópi frummynda sem Kristinn vann sjálfur og gefnar voru til Þjóðminjasafns Íslands af afkomendum hans. Myndefnið er vetrarlandslag í nærmynd: Hrímaður gróður, sem vegna nálægðar vélar við myndefni verður fyrst og fremst leikur að formum. Það að myndin sé svarthvít skerpir enn frekar á þeim leik. Formrænt er myndin í ákveðnum samhljómi við það sem framsæknir íslenskir listmálarar voru að gera á svipuðum tíma. Þar er átt við hina svokölluðu ljóðrænu abstraksjón sem þá var ofarlega á baugi en listamenn eins og Svavar Guðnason og Nína Tryggvadóttir unnu mörg verk í þeim anda. Segja má að áferðin í myndinni færi hana út að landamærum prentvinnslu og ljósmyndatækni en Kristinn var prentari að mennt, fyrsti offsetljósmyndari landsins. Hann stofnaði offsetprentsmiðjuna Litbrá árið 1954 ásamt Rafni Hafnfjörð.
Þeir Rafn voru hluti félaga sem nefndu sig Litla ljósmyndaklúbbinn en til hans var stofnað árið 1953. Óttar Kjartansson (sjá ljósm. mán. mars 2016) var frumkvöðull að stofnun hans og gaf verk klúbbsins til Þjóðminjasafns Íslands árið 1998. Kunningjar hans, Guðjón B. Jónsson, Gunnar Pétursson, Magnús Daníelsson og Þorsteinn Ásgeirsson urðu hluti af hópnum ásamt Kristni Sigurjónssyni og Rafni Hafnfjörð. Árið 1959 bættist svo Guðmundur W. Vilhjálmsson í hópinn.
Vaxtarbrodd listrænnar ljósmyndunar á Íslandi á árunum 1950-1970 var einkum að finna meðal áhugaljósmyndara. Fljótlega eftir 1950 hófu áhugasamir menn að stofna ljósmyndaklúbba og -félög, aðallega þó í Reykjavík. Einn af þessum ljósmyndaklúbbum og sá elsti þeirra var Litli ljósmyndaklúbburinn. Hann starfaði með listrænan metnað í huga og unnu félagsmenn margbreytileg skipulögð ljósmyndaverkefni. (Sjá http://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1661766.) Hópurinn hélt eina sýningu á verkum sínum í Bogasal árið 1961 og þótti hún marka tímamót í íslenskri ljósmyndasögu en þarna gat m.a. að líta abstrakt myndefni. Kristinn Sigurjónsson, Rafn Hafnfjörð og Gunnar Pétursson voru þeir félagar sem hvað lengst gengu í þá átt.
Guðrún Harðardóttir
Heimildir:
Guðrún Harðardóttir, Ljósmyndun á Íslandi 1950-1970. (Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafns III), Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 1999.
http://prentsogusetur.is/litbra-1954-2005/
sarpur.is