Lífstakturinn í Grafarholti
FEBRÚAR 2021
Ljósmyndari: Sigurður Kristinn Eyvindsson
SKE 330
Heimilisfólk er samankomið í stofu og vinnur tóvinnu, konur prjóna og spinna og maður kembir ull. Við sjáum iðnar hendur, einbeitingu, hnýtt ullarsjöl um herðar, skotthúfa á kolli, fléttað hár, spunarokka, kembulár á gólfi og hreyfinguna við kembinguna. Birtan kemur frá olíulampa og hægt er að skynja ákveðna ró í andartakinu. Kona teygir ullarband í bakgrunni sem undirstrikar þráðinn í myndinni allri. Þó sviðsmyndin minni á andrúm baðstofu torfbæja þá er þetta heimililíf í steinhúsi. Við erum stödd í ríki Kristrúnar Eyjólfsdóttur, húsmóður í Grafarholti í Mosfellssveit. Hún situr við rokkinn aftast, öldruð kona. Björn eiginmaður Kristrúnar kembir ullina og tvær af dætrum þeirra þekkjast á myndinni, Guðrún sem situr aftarlega til vinstri og Þórunn Ástríður við hlið móður sinnar. Drengurinn litli sem virðist lauma sér inná myndina er Guðmundur Elliðason fóstursonur þeirra hjóna.1
Heimilið var fjölmennt þegar myndin er tekin um 1920 og fatnaður fólks var ennþá að mestu unninn heima. „Kristrún var iðjukona hin mesta og kappsöm að því skapi“ segir í eftirmælum um hana. Sjónum var beint að ullarvinnu og segir: „..hef jeg enga konu sjeð eins afkastamikla við ullarvinnu. Meðan börnin voru í ómegð, mun hún sjálf hafa saumað flest, sem heimilið þurfti með, og á síðari árum spann hún í alt, sem þurfti til handa og fóta og nærfata, handa mörgu fólki, mest úr heimatættri ull.“ Ullin og rokkurinn var greinilega órjúfanlegur hluti af lífi Kristrúnar en hugur hennar hvarflaði líka annað og alla ævi las hún mikið og var sískrifandi. Sagt var að við lestur eyddi hún „… til þess óvanalega stuttum tíma, því að hún hafði tamið sjer að lesa með prjónum, tvinningu og jafnvel spuna, væri bandið ekki mjög fínt, og gekk hvorutveggja fullum fetum, verk og lestur.“2
Kristrún Eyjólfsdóttir (1856-1935) var frá Stuðlum í Reyðarfirði. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík 23 ára gömul og ferðaðist meira að segja til Danmerkur til að mennta sig frekar. Hún hefur verið titluð bóndi og hómópati.3 Hún og Björn Bjarnarson (1856 -1951) eiginmaður hennar fluttust að Grafarholti 18984 og steinhúsið reis árið 1907. Heimili þeirra var mikið menningarheimili og heimilisbragurinn einkenndist af höfðingslund, góðum siðum og glaðværð. Þau hjónin áttu sjö börn og tóku nokkur í fóstur. Sjálfur ljósmyndarinn Sigurður Kristinn Eyvindsson (1900 – 1987) kom 11 ára gamall í fóstur til þeirra hjóna þegar faðir hans féll frá. Fyrir var hálfbróðir hans Pétur en húsfaðirinn Björn var föðurbróðir þeirra.5
Ljósmyndun hefur greinilega heillað Sigurð þegar hann fullorðnast því eftir hann liggur lítið en eftirtektarvert safn ljósmynd frá fyrri hluta 20. aldar. Hann myndaði heimilislífið í Grafarholti sjáanlega af mikilli ástúð og eljusemi. Það var ekki einfalt verk í þá daga að festa á filmu athafnir innan dyra. Hann lagði sig fram um að fanga fegurð hverdagslífsins og mynd hans af fjölskyldunni að vinna ullina er ein slíkra mynda. Sú tilfinning loðir við myndina að lífstaktur aldarinnar þar á undan hafi fylgt heimilisfólkinu í Grafarholti. Þar sem vinna og samvera rann í eitt og nálægð fólks í híbýlum sínum hafi verið sjálfsögð. Líklegast hafa stundir sem slíkar verið hverfandi örfáum árum seinna.
Linda Ásdísardóttir
1) Fullt nafn hans er Guðmundur Elliðason Norðdahl. Samkvæmt manntali 1920 er Guðmundur skráður blindur og í grein um heimilisfólkið https://timarit.is/files/13183386 er hann nefndur „drengurinn með hvíta hárið“. Hann varð háaldraður.
2) Óðinn, 1.1.1936, 32. árg., tbl. 1.-12., s. 58-59 https://timarit.is/page/2293645
3) Morgunblaðið, 13.1.1980, 67. árg., tbl. 10, s. 33. https://timarit.is/page/1522123
4) Samvinnan, 1.3.1931, 25. árg., tbl. 1.-2., s. 1. https://timarit.is/page/4280493
5) Morgunblaðið, 13.1.1980, 67. árg., tbl. 10, s. 33. https://timarit.is/page/1522123