Ljósmynd af teikningu Sigurðar málara
OKTÓBER 2018
AJ-217.
Drjúg syrpa með mannamyndum er í póstkortasafni Andrésar Johnsen í Ásbúð, en það er eitt þriggja póstkortasafna í Þjóðminjasafni. Myndirnar eru að stórum hluta ljósmyndir á póstkortum, gjarnan eftirmyndir annarra mynda eða kort gerð eftir glerplötum, en ekki prentuð póstkort. Ljósmynd af gamalli teikningu af manni frá 19. öld stingur í stúf, hvort tveggja vegna aldurs og af því að það er teikning. Greinilega má sjá að frummyndin hefur verið rifin eða komið brot í pappírinn þvert yfir blaðið á móts við slaufuna sem er um háls mannsins og einnig hægra megin á ská niður neðsta hluta ermarinnar. Í neðra horni til vinstri er hluti af merkingu höfundarins del 1866. Nafn teiknarans hefur lent utan við myndflöt ljósmyndarinnar. Yfirbragð myndarinnar og merkingin bera skýr höfundareinkenni Sigurðar Guðmundssonar málara. Sigurður hafði lært málaralist á konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn og teiknaði og málaði rúmlega eitthundrað mannamyndir af samferðamönnum sínum. Hann er ekki síður þekktur sem starfsmaður Forngripasafnsins í Reykjavík og fyrir hugmyndir sínar um margvísleg framfaramál í Reykjavík.
Þessa mynd er hins vegar ekki að finna í ítarlegri skrá Halldórs J. Jónssonar á mannamyndum Sigurðar.1) Hér er því komin fram áður óþekkt teikning eftir Sigurð. Fyrir hendingu er starfsmaður safnsins að handleika ljósmynd af manni sömu dagana og póstkortið er skoðað, og þeir bera keim hvor af öðrum, maðurinn á teikningunni og sá á ljósmyndinni. Á þeim grunni er sett fram tilgáta um hver maðurinn gæti verið: Ólafur Pálsson (1830-1894) alþingismaður og bóndi á Hörgslandi á Síðu og síðar á Höfðabrekku. Í safninu er varðveitt þessi eina ljósmynd af Ólafi og hún fylgir hér með til samanburðar. Enginn kann nú deili á því að frumteikning Sigurðar af Ólafi sé til varðveitt. Fjölföldunareðli ljósmyndarinnar minnir hér á sig og sá eiginleiki hennar að gera eftirmyndir annarra mynda.
Inga Lára Baldvindóttir
1) Halldór J. Jónsson: Mannamyndir Sigurðar Guðmundssonar málara. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1977, s. 7-62 og Mannamyndir Sigurðar Guðmundssonar málara. Viðaukar og athugasemdir. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1984, s. 101-110.