Ljósmyndara ber að garði
Mars 2015
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Ljósmynd Tryggvi Samúelsson (TS-79-7)
Það er sumar og gesti ber að garði. Flóabáturinn Guðrún er komin. Gunnar og Ingólfur eru skipverjar og þeir eru að koma frá Hólmavík í sína venjubundnu póstferð, hálfsmánaðarlega. En þeir eru ekki einir, afi á Seljanesi er með þeim og einnig ókunnur maður, grannleitur og fölleitur. Allir þessir menn koma í land og þiggja góðgerðir í eldhúsinu á Dröngum.
Sá grannleiti heitir Tryggvi og hann hefur meðferðis torkennilegar græjur, myndavélar. Hann segist vera á ferð um sýsluna til að taka ljósmyndir af öllum bæjunum og fólkinu líka. Hann ætli sér að gefa þessar myndir út á bók.
Okkur krökkunum finnst hann öðruvísi en bændurnir í sveitinni, hann talar hægt, hann ber með sér andblæ fjarlægra staða og hugsunar, hann er líka með þessar merkilegu myndavélar. Hann er með beinaberar hendur og litaraftið vitnar ekki um útiveru eða erfiði. Við krakkarnir tökum eftir öllu.
Eftir spjall í eldhúsinu vill hann safna heimilisfólkinu út á hól til að taka myndir. Nú verður uppi fótur og fit, maður mætir ekki í myndatöku eins og argintæta. Í skyndi treður mamma skaranum í tiltæk betri föt, ekkert spari og allir þvo framan úr sér og greiða mesta lubbann. Pabbi fer meira að segja í hvíta skyrtu. Svo fer langur tími í að stilla liðinu upp, alltaf er einhver með lokuð augun eða að snúa sér við eða að glápa út í bláinn. Snati hundur skilur ekkert í þessari hátíðlegu uppstillingu og Óskar litli er ekki með á nótunum, enda óviti.
Afi stendur þarna, horfir eineygður í myndavélina, hann afi minn sem mér finnst svo gamall, en þó svo brattur, elskan mín. Eftir margar tilraunir er Tryggvi ljósmyndari ánægður, eða bara nennir ekki lengur að eiga við þennan stóra hóp. Hópurinn tvístrast, litlu krakkarnir hverfa að sínum leikjum, stóru systurnar að bústörfum en við Jón þykjumst menn með mönnum og fylgjum hinum fullorðnu niður á Hlein.
Við erum grunlausir um að í farteski Tryggva sé svo falleg staðfesting á einum hamingjudegi af svo mörgum sem áttum við öll saman á Dröngum.
Sveinn Kristinsson