Síðasta heysátan
Desember 2013
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
KJ-M-k-10-16
Um miðjan september 1958 mundar ungur maður ljósmyndavélina og festir á filmu þegar gömlum sið er framfylgt í síðasta skipti á Bökkum við Eyjafjarðará, á móts við bæinn Hrafnagil. Þarna eru engi í eigu föður hans, Jóns Júlíussonar bónda á Munkaþverá, sem býr á hluta af jörðinni sem hýsti klaustur í um 400 ár og átti spildur víða um Eyjafjörð. Á Bökkum var mikið um heyskap en þar vex fergin eða tjarnarelfting sem þótti einkar gott fóður fyrir kýrnar. Heyskap á engjum er lokið í þetta skipti og aðeins eftir að flytja seinustu baggana heim á vagni og komust sjö fyrir í hverri ferð. Ein sáta er þó skilin eftir á vellinum samkvæmt gamalli venju, sú síðasta, og hefur Júlíus borið eld að henni svo rýkur úr. Ungi maðurinn heitir Kristján Hans og er rúmlega tvítugur þegar hér er komið sögu. Þetta er í sannleika síðasta sátan á Bökkum því árið eftir hætta foreldrar hans búskap og flytja til Akureyrar. Sjálfur verður hann seinna framkvæmdstjóri Kynnisferða í Reykjavík. Þegar heim kemur af engjunum gerir fólkið sér svolítinn dagamun með nýbökuðum pönnukökum og kleinum, eins og algengt var.
Það var hefð á Munkaþverá að skilja eftir síðustu sátuna á Bökkum og brenna hana, eða a.m.k. frá því að fjölskylda Jóns hóf þar búskap skömmu eftir 1880. Þessi siður þekktist á fleiri bæjum í Eyjafirði, t.d. Syðra-Laugalandi, Ytri-Tjörnum, Öngulsstöðum og sennilega fleiri jörðum. Einnig á engjunum í Nesi eða Klausturnesi, andspænis Espihóli, svo annað dæmi sé tekið. Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili, sem kallaður hefur verið faðir íslenskrar þjóðháttafræði, gefur í skyn að víðar en við Eyjafjörð hafi síðasta fangið eða sátan verið skilin eftir og sums staðar brennd. Mjög fá dæmi um að kveikt hafi verið í er þó að finna í þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands. Mun algengara virðist hafa verið að taka ekki seinustu heyhrúguna og láta þar við sitja. Þórður Tómasson í Skógum hefur í bók sinni Íslensk þjóðfræði ritað um þennan sið sérstaklega, enda þekktist hann víða um land. Sátan gengur undir ýmsum nöfnum eins og engjafang, dreifarfang, englarök og álfkonufang. Með nýjum vinnubrögðum, þegar heyskpartækni breyttist og hætt var að setja í bagga, hvarf þessi forni siður, líklegast alveg um 1960.
En hver var svo tilgangurinn með þessu öllu saman eða var hann kannski enginn nema að skemmta eða lífga upp á tilveruna? Það er út af fyrir sig góð og gild ástæða og virðist helst geta átt við þegar gert var bál, a.m.k. undir lokin. Hins vegar er sú venja að skilja eftir síðustu heytugguna ævaforn siður og þekktur víða um lönd. Í rauninni var um að ræða fórn til náttúruaflanna, guðanna ef menn vilja, sem ætlaður var til til að tryggja góða sprettu árið eftir eða hagfelldan jarðargróður. Talað var um að gefa engjunum síðasta fangið svo menn yrðu síður heylausir þann vetur eða að þakka huldufólkinu, skyldi það hafa orðið fyrir ónæði af manna völdum. Þá var síðustu stráunum stundum dreift yfir engin í sama tilgangi.
Ekki er útilokað að sú venja að kveikja í síðustu sátunni eigi sér fornar og ef til vill trúarlegar rætur þótt hugsanlega geti einnig verið um áhrif að ræða frá áramótabrennum, sem fóru mjög í vöxt á síðari hluta 19. aldar hér á landi. Víða erlendis eru brennur tengdar við aðra daga, svo sem Jónsmessu, Valborgarmessu og kyndilmessu.
Ágúst Ólafur Georgsson