Sneiðmyndir Davíðs Þorsteinssonar úr hverfi 101
Júlí 2015
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Maður stendur fyrir framan banka – heldur á farsíma – fyrir framan hann er stórformatsmyndavél á þrífæti – ljósmyndarinn er búinn að ákveða hvernig á að mynda viðkomandi – í kringum hann er slangur af fólki sem fylgist með – “… notuðu menn ekki svona vélar í gamla daga … svona eins og hvað hét hann aftur ….. já …. Kaldal” spyr einhver sem þekkir líttillega til menningarsögu ljósmyndunar á Íslandi – það er von að svo sé spurt á þeim tölvumyndavélatímum sem nú eru uppi – það er svo fornlegt að notast við filmur að fólk veit varla hvað það er lengur – ljósmyndarinn setur filmuhylkið í vélina og virkjar lokarann – tekur kannski tvær eða þrjár myndir og svo pakkar hann saman – verkinu lokið – sneiðmynd af manni á förnum vegi hefir verið gerð í hverfi 101 - en myndin sést ekki strax – það tekur tíma – filman þarf að fara til útlanda til framköllunar – svo þarf að skanna inn og snúa við negativunni í tölvuforritinu photoshop – loks er myndin prentuð með nýmóðins prentara – hér skarast gamli tíminn og nýi – allt byrjar með því gamla en endar með nýmóðins tölvum og prenturum – þeir sem vinna með gamaldags litfilmur notast við nútíma tækni – en í grunninn starfar Davíð á gamaldags máta – myndavélabúnaðurinn er gamallegur þó myndirnar séu nútíma litmyndir unnar eftir á með nýmóðins tækjum – en hvers vegna notast sumir við svona gamla tækni ?
Tölvumyndavélar hafa nánast náð því sem þessar vélar ná …. munurinn er tilfinningin – biðin eftir að sjá hvað kom á filmuna – aginn sem fylgir svona tökum er annar en í tölvumyndatöku – nú mynda flestir hundruðir mynda og skoða líklega fæstir til gagns allt sem tekið er – í filmumyndatöku er grandskoðað bæði við töku og eftir töku þegar filman skilar sér með póstflugvélinni til landsins – þó ekki sé um jafn langan tíma að ræða og menn máttu bíða í gamla daga eftir póstskipinu, þá er biðin samt löng – gamaldags nútíminn er hægur – ekki alveg víst að það sé endilega betra en einhverra hluta vegna virðist það virðingameira að vinna á þennan hátt – kannski er það eingöngu fyrirlitning samtímans á sjálfum sér sem gerir svona gamlar aðferðir merkilegri – það eru ekki margir sem skynja þessa miklu vinnu ljósmyndarans því á endanum er það útkoman sem skiftir áhorfandann máli – vinnu aðferðin er ljósmyndarans – vill hann eyða tíma sínum hægt með þessari aðferð – þegar upp er staðið er þetta spurning um löngun til að vinna á þann máta sem gefur manni mesta ánægju.
Ívar Brynjólfsson