Vísir að verslunarmiðstöðvum í Reykjavík
JÚNÍ 2017
Ljósmyndari Björn Björnsson. BB1-3813.
Á aðventunni 1955 var verslunarmiðstöðin Vesturver opnuð á þremur hæðum við Aðalstræti 6, svokölluðu Morgunblaðshúsi, í Reykjavík. Þar voru undir sama þaki eftirtaldar níu verslanir: Bókabúð Lárusar Blöndal, Herrabúðin, Skartgripaverslun Árna B. Björnssonar, Blómabúðin Rósin, Sælgætis- og tóbaksverslunin ABC, Fálkinn, Rafha, Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur og kjólabúðin Bezt. Mikið var í verslunarmiðstöðina lagt. Íslenskir arkitektar, híbýlafræðingur og listmálari sáu um ásjónuna innandyra sem var með nútímalegum blæ. Hátalarakerfi var til staðar sem spilaði tónlist og kom tilkynningum til viðskiptavina.[1] Á myndinni má sjá fólk á ferli í og við framhlið verslunarhúsnæðisins og með útstillingarglugga, sem ná yfir alla framhlið hússins. Það var nýtt miðað við það sem áður þekktist, þegar verslunargluggar voru minni og afmarkðari. Á efri hæðinni lengst til vinstri sjást raftæki frá Rafha. Í næsta glugga er kjóll, væntanlega frá kjólabúðinni Bezt. Ofan við innganginn er útstillingargluggi frá Fálkanum. Húsið er merkt með heiti verslunarmiðstöðvarinnar á stórum ljósastöfum.
Vesturver var í rauninni fyrsti vísir af verslunarmiðstöð á Íslandi. Í kjölfarið voru opnaðar fleiri verslunarmiðstöðvar um borgina þar sem hægt var að ganga á milli verslana innandyra. Miðstöðin Austurver var fyrst opnuð á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar í febrúar 1959[2], en í dag er miðstöð með sama heiti starfrækt við Háaleitisbraut. Sama ár í desember opnaði Kjörgarður við Laugaveg 59 með 14 verslunum.[3] Fyrsta rúllustiganum á Íslandi var síðan komið fyrir þar árið 1963.[4]
Glæsibær eða Álfheimastórhýsið, eins og það var nefnt í fyrstu, var tekið í notkun í desember 1970.[5] Þá verslunarmiðstöð byggðu þeir Sigurliði Kristjánsson og Valdimar Þórðarson, annars þekktir sem Silli og Valdi. Verslun þeirra í Glæsibæ þótti framúrstefnuleg, húsakynnin glæsileg og vöruúrvalið mikið. Þá var nýmæli í verslun þeirra að innkaupakerrur höfðu barnasæti[6], eins og við þekkjum svo vel í dag. Í gegnum tíðina hafa verslunarmiðstöðvar landsmanna stækkað og þykja þessar nefndar hér að ofan litlar miðað við það sem tíðkast í dag.
Kristín Halla Baldvinsdóttir
[1] Morgunblaðið 6. desember 1955, bls. 16.
[2] Morgunblaðið 7. febrúar 1959, bls. 3.
[3] Tíminn 15. desember 1959, bls. 12.
[4] Morgunblaðið 16. maí 1963, bls. 2.
[5] Vísir 14. desember 1970, bls. 2.
[6] Frjáls verslun 1. Desember 1970, bls. 42-43.