Bakgrunnur Johans Holm-Hansens og ljósmyndun hans
JÚNÍ 2019
Mms. 1433
Árið 1866 kom ungur maður að nafni Johan Holm-Hansen (24 ára) til Íslands og dvaldi í Reykjavík veturinn eftir. Höfuðið á honum var fullt af draumum um að verða leikari eða rithöfundur. Í farteskinu var hann með myndavél og tók til við að taka myndir af bæjarbúum. Vingaðist hann við menntamennina í bænum, t. d. Kristján Jónsson fjallaskáld, Valdimar Briem, Ólaf Jónsson, Sigurð Guðmundssonn og Matthías Jochumsson, en vinátta þeirra entist út ævi þeirra.
Ljósmyndir Johans eru auðþekkjanlegar sökum þess að hann notaði tjald í bakgrunn sem er einstakur og líklega málaður eftir að hann kemur til Reykjavíkur. Á bakgrunninum er eins konar gluggi sem sýnir útsýnið frá fjörunni, nánast þar sem hann bjó, nærri húsi Geirs Zoëga í Grófinni.
Það má leiða að því líkur að Sigurður Guðmundsson málari hafi málað baktjaldið eða að minnsta kosti þann hluta sem sýnir íslenska landslagið. Því til er á Þjóðminjasafninu mynd af Sigurði tekin af Holm-Hansen þar sem hann er við eina af eftirgerðum sínum af altaristöflu Dómkirkjunnar með allt málaradótið sitt (Mms-87). Sigurður málaði meðal annars leiktjöld svo að hann kunni vel til verka á þessu sviði.
Bakgrunnsmyndin sýnir árabáta í stórgrýtisfjöru í forgrunni en síðan eru þrjú skip á legu á sundinu. Í fjarlægð sést upp í minni Hvalfjarðar, þar er Engey sem dökk rönd, en til hægri er Lokafjall (þar sem nú er suðurmunni Hvalfjarðargangnanna) og vinstramegin er Skarðsheiðin og aðeins sést í Akrafjall.
Vorið 1867 tekur Holm-Hansen með sér bakgrunninn austur á land, til Seyðisfjarðar, og virðist hafa haft hann með sér á myndaferðum sínum um Hérað, en hann heimsótti alla kirkjustaði meðfram Lagarfljóti og fór að lokum alla leið á Djúpavog til myndatöku. Á þeim myndum setur hann bakgrunninn alltaf upp eins og vörumerki sitt við mannamyndatökurnar. Hins vegar notar hann ekki alltaf tíglóttan gólfdúk, og skildi eftir stöpulinn sem hann notaði í Reykjavík, sem síðar hefur komist í hendur Sigfúsar Eymundssonar og birtist á myndum hans um langa hríð.
Merkustu myndirnar með þessum bakgrunni eru myndin af Jóni Thoroddsen, bæði einum og með fjölskyldu, líklega tekin í Reykjavík og síðan myndin af Nicoline Weywadt, sem seinna varð fyrsti kvenljósmyndari Íslendinga, tekin rétt fyrir brottför hans í september 1867 á Djúpavogi. Líklegt er að kviknað hafi áhugi hjá Nicoline til að læra ljósmyndun við kynni hennar af þessari myndtöku, en Holm-Hansen myndaði alla Weywadt fjölskylduna.
Allar mannamyndir Johans eru í visitstærð (6x9 sm), nema ein hópmynd sem varðveist hefur af Weywadt fjölskyldunni, faktorsfjölskyldunni á Djúpavogi, sem er stærri. Eldri dæturnar fjórar eru til á venjulegum visitmyndum en hópmyndin er á stóru spjaldi. Fyrir nokkrum árum voru einungis rúmlega 10 myndir þekktar eftir Johan, en eftir nokkurra ára rannsókn mína eru þær 64, bæði í einkaeigu og söfnum landsins.
Eftir heimkomuna lærði Johan Holm-Hansen leiklist en hætti því fljótt sökum skorts á hæfileikum en tók þá til við að skrifa bækur og ferðaðist um mestalla Evrópu. Hann lést 1920 og var þá öllum gleymdur.
Hörður Geirsson