Drengur með dúkkuhús
FEBRÚAR 2018
ÞÞ-520
Eftir að ljósmyndafilman var fundin upp og hver ljósmynd varð tvískipt, það er filma og mynd um miðja 19. öld, varð það eiginleiki ljósmynda að hægt var að fjölfalda þær. Oft varð raunin hins vegar sú að eigandi myndar hafði aðeins myndina í höndunum og ekki aðgang að glerplötunni eða filmunni. Þessa mynd er að finna á glerplötu í safni Þorleifs Þorleifssonar ljósmyndara sem varðveitt er í Ljósmyndasafni Íslands. Upprunalega myndin er tekin af Kjartani Guðmundssyni ljósmyndara, eins og sést á nafnstimpli hans neðst á myndinni. Heiti Kjartans stendur eitt og sér án staðsetningar og því erfitt að fullyrða um tímasetningu myndarinnar nema út frá klæðnaði barns og yfirbragði myndar. Hún virðist tekin snemma á ljósmyndaferli Kjartans, sem hófst 1906. Því miður er sá hluti af ljósmyndasafni hans glataður í dag.1 Eigendur myndarinnar hafa komið með hana til Þorleifs sem myndar hana til að láta gera af henni fleiri eintök og er hún þess vegna varðveitt á glerplötu í dag. Myndin hefur verið fest með teiknibólum á þar til gert spjald sem hefur verið ætlað til eftirtöku hjá Þorleifi.
Myndefnið er sjaldséð, barn og dúkkuhús. Við þekkjum ekki heiti barnsins enda glerplötusafn Þorleifs óskráð frá hans hendi. Húsið virðist vera opið bæði frá annarri langhliðinni og að ofan til að auðvelda börnum að athafna sig og leika sér inni í því. Brúða í líki barns í matrósafötum situr í stól vinstra megin við hlið skáps með smámunum. Fyrir miðju er dúkað borð og á því mynd í ramma, blómavasi og standklukka. Barnið sem sýnist vera drengur, ekki eldri en þriggja ára, heldur í einhverskonar perlukeðju sem liggur niður í dúkkuhúsið. Líklega er húsið erlent og allt sem í því er, en innflutningur á leikföngum hófst á Íslandi á seinni hluta 19. aldar.2 Dúkkuhús af þessu tagi hafa verið algert fágæti í byrjun 20. aldar.3 Það hefur því verið ákveðið stöðutákn fyrir barn að eiga slíkt hús og því skipt máli að mynda barnið og húsið saman.
Kristín Halla Baldvinsdóttir
1) Inga Lára Baldvinsdóttir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945, bls. 264.
2) Gyða Gunnarsdóttir: Hlutavelta tímans, bls. 354.
3) Fyrsta auglýsing á dúkkuhúsi í íslensku blaði er frá 1899. Sjá Haukur 2. árg. 1898-1899. 2.2.1899. Slíkum auglýsingum fjölgar lítllega þegar líður fram á 20. öld.