Elsta litljósmynd Íslendings?
JANÚAR 2018
Ljósmyndari Sigurður Tómasson
ST2-795
Ljósmyndin sem blasir við okkur á skjánum virkar heldur dimm. Myndefnið er garður með blómabeði, runnum og trjám en í baksýn sér í þrjú hús. Á einu þeirra má greina stafina U. M. upp undir þaki, en tveir menn standa á svölum ofan á bíslagi á húsi þar við hliðina. Stafirnir hjálpa okkur við að átta okkur á staðsetningu myndarinnar. Þetta er seinni hlutinn á skammstöfuninni K. F. U. M., sem stendur fyrir Kristilegt félag ungra manna. Hús K. F. U. M. stendur við Amtmannsstíg í Reykjavík og er nú númer 2A. Með þá vitneskju má finna út að hin húsin séu Amtmannsstígur 4 A og 4. Þau brunnu bæði til kaldra kola árið 1946. Ljósmyndarinn stendur í garði hússins við Þingholtsstræti 14.
Hvað gerir nú þessa mynd áhugaverða? Kannski ekki myndefnið? Á glerplötuna sem myndin er á hefur verið límdur lítill miði sem á stendur: 13.7.24. kl. 2 létt skýjað F: 4,5 exp: 3 sek. Það er dagsetning myndarinnar, tími myndatöku, veðurlýsing, ljósopið og tökutími myndarinnar, 3 sekúndur.
Þetta er elsta litljósmynd eftir íslenskan ljósmyndara sem verður tímasett með vissu. Hún er tekin af Sigurði Tómassyni (1895-1980) úrsmið, uppfinningamanni og áhugaljósmyndara. Hlýtur sú staðreynd að hann skrifaði niður dagsetningu myndarinnar og festi á plötuna ekki að vera vísbending um að tímasetningin skipti máli og að þetta sé ein af hans fyrstu litmyndum? Sigurður var helsti frumkvöðull litljósmyndunar á Íslandi. Á síðustu árum hafa litmyndir hans frá Alþingishátíðinni 1930 og Lýðveldishátíðinni 1944 verið birtar í ýmsum ritum. Við þekkjum til eldri litmynda sem teknar voru á Íslandi af tveimur erlendum mönnum, mynda Karls Grossmann frá 1904 og André Courmont frá því um 1920. Annar Íslendingur, Evald Hemmert, kaupmaður á Blönduósi, fékkst við litljósmyndun um 1930.
Lengi eftir að ljósmyndun var fundin upp leituðu menn leiða til að taka ljósmyndir í lit. Fyrst með þremur mislitum glerplötum, sem teknar voru samtímis í rauðu, grænu og bláu og síðan settar saman í eina plötu, en seinna með svokallaðri autochrome aðferð. Gallinn við báðar þessar aðferðir var að ekki var hægt að gera pappírsmyndir í lit eftir glerplötunum. Glerplata Sigurðar Tómassonar af húsunum við Amtmannsstíg er tekin á autochrome. Kannski ekki spennandi ljósmynd í sjálfu sér, en merkilegt skref fram á við í ljósmyndatækninni og söguleg mynd í íslenskri ljósmyndun.
Inga Lára Baldvinsdóttir