Háalvarleikinn uppmálaður
Nóvember 2016
Það þurfti vitanlega líka að huga að heimsókn til alvöru ljósmyndara vegna fermingarmyndarinnar. Sjálfsagt þótti að fara á stofu og láta fagmann vinna verkið. Og ég hafði löngu áður tekið mjög ákveðna stefnu í vali á ljósmyndara fyrir þessa viðhöfn. Sá gerði lítið af því að mynda fermingarkrakka. Mér var löngu ljóst að hann sérhæfði sig í stórséníunum.
Í glerkössum utan á Laugavegi 11 voru afburðalistrænar myndir Jóns Kaldals af Thor Vilhjálmssyni, Halldóri Laxness og Kjarval. Og stundum var þarna einhver kona í slagtogi við þá, sem ég kunni engin deili á og þeir kannski ekki heldur. Hafði maður veika von um að komast í kassann með þessu fólki, þó að þröngt væri á þingi? Hver veit? Þetta jafnaðist á við portrettmyndir, sem ég stúderaði í erlendum blöðum eftir Karsh of Ottawa, sem flengdist um heiminn til að taka eins konar röntgenmyndir af mikilmennum þess tíma. Það var skyggnzt undir yfirborðið og hinn innri maður geislaði á pappírnum. Eins og til dæmis Hemingway í prjónapeysunni. Hvílíkt samspil ljóss og skugga.
Okkar séní voru líka mikið á ferðinni í útlöndum nema Kjarval. Hann var heimakær og þegar vel lá á honum átti hann til að taka sveiflur með því að grípa annarri hendi um tiltekinn ljósastaur í Pósthússtræti, bak við kirkjuna, og snúast svo í sveiflu með miðflóttaraflinu í kringum hann. Á svona sirkussýningar Kjarvals horfði maður dolfallinn. En Thor og Laxness voru meira og minna erlendis. Það gustaði því óneitanlega af þeim þegar þeir máttu vera af því að koma til Íslands og fóru á pósthúsið að sinna sínum korrespondans. Thor stikaði Austurstrætið greitt í miklum frakka og lét langan, lausan trefilinn hanga niður um þessa skósíðu yfirhöfn. Ég var satt að segja smeykur um að hann myndi stíga í trefilinn einhvern daginn með hinum háskalegustu afleiðingum. Svo mikil var fartin á honum.
Að hætti þessara manna fór ég á fund Kaldals, hins hægláta og vinsamlega snillings sem vann mestan part í rauðu ljósi myrkrakompunnar á loftinu á Ellefu. Hann var hálfhissa á fermingarbarninu. En með samstilltu átaki okkar Kaldals tókst að gera eina hina ábúðarmestu og gaddfreðnustu mynd af unglingskrakka sem sögur fara af. Mynd þessi er ógnvekjandi grá og föl af Weltschmerz og Angst. Nei þarna var nú ekki léttúðinni fyrir að fara eða kæruleysi glaðværrar æsku. Háalvarleikinn uppmálaður. Eftir þetta fór ég alltaf til Kaldals að láta taka af mér mynd þegar ég þurfti að fá fólk til að taka mig hátíðlega, eins og fyrir prófkjör og kosningar.
Markús Örn Antonsson