Hafnarstræti 2 – horfið hús
OKTÓBER 2017
Ljósmyndari Guðmundur Ingólfsson
Árið 1987 kom bókin Kvosin, byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, út fyrir tilstilli Torfusamtakanna. Í þeirri bók birtust á annað hundrað nýjar myndir eftir Guðmund Ingólfsson af húsum sem stöðu þá í miðbæ Reykjavíkur á því svæði sem kallast Kvosin. Mynd af Bifreiðastöð Steindórs við Hafnarstræti 2 frá árinu 1986 var ein þeirra.
Húsið var byggt árið 1937 af Steindóri Einarssyni bílstjóra og teiknað af Guðmundi H. Þorláksyni.1 Það ber sterk stíleinkenni síns tíma funkisstefnunnar til dæmis í gluggasetningu þar sem gluggar eru hornsettir og sameinast við horn. Það er hraunað líkt og var algengt með steinhús á tímabilinu. Húsið var rifið árið 1992.2 Athafnasvæði Bifreiðastöðvar Steindórs var oft kallað Steindórsplan, þar sem umsvif bifreiðarstöðvarinnar voru. Heyra svona plön eða torg með bifreiðastöðvum nú næstum sögunni til en bifreiðastöðvar voru áður á nokkrum slíkum í Reykjavík og Bifreiðastöð Steindórs ein sú helsta. Umræður um skipulagsbreytingar höfðu átt sér stað um langan tíma á þessum reit.3 Eftir að húsið var rifið sameinuðust Steindórsplan og Hallærisplan og fengu nýtt heiti Ingólfstorg með samþykki Borgarráðs árið 1991.4
Nokkrar manneskjur eru við hornglugga og stara á Guðmund þegar hann smellir af myndinni. Væntanlega eru þetta starfsmenn bifreiðastöðvarinnar. Í húsinu var árið 1986 einnig staðsett svokallað Kristnes-video og má m.a. sjá merki um það í glugganum vinstra megin á neðri hæðinni. Svokallað Fálkahús, Hafnarstræti 1-3 sést lengst til vinstri á myndinni þar var á þessum tíma til húsa verslunin Heimilistæki og verslun Heimilisiðnaðarfélagsins.
Nú 80 árum eftir að húsið var byggt, 30 árum eftir að myndin var tekin og 25 árum eftir að það var rifið gefur myndin okkur sýn inn í breytta ásýnd Reykjavíkur í elsta hluta borgarinnar.
Kristín Halla Baldvinsdóttir
1) Hjörleifur Stefánsson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Guðmundur Ingólfsson. Kvosin, bls. 96.
2) http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/skyrsla_157.pdf, bls. 66.
3) Alþýðublaðið 2. febrúar 1978 og Morgunblaðið 16. febrúar 1978.
4) Morgunblaðið 4. desember 1991.